Tulipop hefur notið mikilla vinsælla á þessum þrettán árum, framleitt meira en þrjú hundruð vörutegundir og er nú að hasla sér völl með íslensku afþreyingarefni á alþjóðavísu. Stærsta verkefni Tulipop til þessa er nú langt komið, röð fimmtíu og tveggja sjónvarpsþátta, fyrsta íslenska teiknimyndaþáttaröðin sem fer í alþjóðlega dreifingu.
Eftir nám í vöruhönnun í Listaháskóla Íslands, fór Signý að teikna allskonar fígúrur og furðuverur sem með tímanum urðu hluti af Tulipop heiminum. Hana langaði til að vinna að sinni eigin sköpun og Helga sem var nýkomin úr MBA námi í Lundúnum hreifst af verkum vinkonu sinnar.
„Ég kom heim stuttu eftir hrun og var að vinna í fyrirtækjaráðgjöf, stemningin var þung á þessum tíma og ég varð ekki fyrir innblæstrinum sem ég vonaðist eftir, nýkomin úr spennandi námi. Þá var Signý búin að búa til þessar litríku og óvenjulegu fígúrur og byrjuð að framleiða og selja myndskreyttar vörur. Ég sá hvað fólk var hrifið af teikningunum og við fengum þá frábæru hugmynd að reyna að búa til íslenskt vörumerki með þessum nýju persónum.“