Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ævintýraheimur Tulipop

Árið 2010 stofnuðu þær Helga Árnadóttir og Signý Kolbeinsdóttir nýsköpunarfyrirtækið Tulipop, heillandi ævintýraheim, innblásinn af íslenskri náttúru og fjölbreytileika.


Tulipop hefur notið mikilla vinsælla á þessum þrettán árum, framleitt meira en þrjú hundruð vörutegundir og er nú að hasla sér völl með íslensku afþreyingarefni á alþjóðavísu. Stærsta verkefni Tulipop til þessa er nú langt komið, röð fimmtíu og tveggja sjónvarpsþátta, fyrsta íslenska teiknimyndaþáttaröðin sem fer í alþjóðlega dreifingu.

Eftir nám í vöruhönnun í Listaháskóla Íslands, fór Signý að teikna allskonar fígúrur og furðuverur sem með tímanum urðu hluti af Tulipop heiminum. Hana langaði til að vinna að sinni eigin sköpun og Helga sem var nýkomin úr MBA námi í Lundúnum hreifst af verkum vinkonu sinnar.

„Ég kom heim stuttu eftir hrun og var að vinna í fyrirtækjaráðgjöf, stemningin var þung á þessum tíma og ég varð ekki fyrir innblæstrinum sem ég vonaðist eftir, nýkomin úr spennandi námi. Þá var Signý búin að búa til þessar litríku og óvenjulegu fígúrur og byrjuð að framleiða og selja myndskreyttar vörur. Ég sá hvað fólk var hrifið af teikningunum og við fengum þá frábæru hugmynd að reyna að búa til íslenskt vörumerki með þessum nýju persónum.“

Helga og Signý settu markið hátt en tóku sér þó góðan tíma í að þróa vörumerkið.

„Stóra hugmyndin var fyrst að búa til íslenskt hugverk, íslenskan ævintýraheim sem hefði möguleika á að ná árangri alþjóðlega. Það tók okkur dágóðan tíma að finna út hver markaðstækifærin væru og hvernig við ættum að framkvæma það sem við stefndum á. Tulipop heimurinn er innblásinn af vinum og vandamönnum, nátttúru, sveppum, Grimmsbræðrum, Lindgren og litum. Þar búa fimm ólíkir og skemmtilegir vinir, sem lenda stöðugt í alls kyns ævintýrum og í öllum sögunum eru undirliggjandi jákvæð skilaboð um vináttuna, samvinnu og fjölbreytileikann.“

Helga segist ánægð með að hafa tekið sér tíma í undirbúning.

Það varð okkur að lokum til góðs, þá fengum við rými til þess að leyfa hugmyndinni að vaxa og dafna og verða að þeim sterka grunni og því ævintýri sem það er í dag.

Um leið og myndheimurinn var tilbúinn hóf Tulipop framleiðslu á varningi.

„Þarna voru við enn þá bara tvær og þurftum að finna leiðir til þess að fá tekjuflæði inn í fyrirtækið. Það varð úr að innan þriggja mánaða frá stofnun Tulipop kynntum við okkar fyrstu vörulínu á Hönnunarmars. Við þurftum að vera úrræðagóðar, starfandi á Íslandi og með kröfu um þokkalega framlegð af hverri vöru. Við enduðum á að framleiða litla línu af pappírsvörum. Samhliða því fórum að þróa viðskiptaáætlun, sækja um alla styrki og skoða tækifæri fyrir aðrar vörur.“

„Við notuðum afraksturinn af hverju verkefni til þess að fjárfesta í næsta og bæta við vörulínuna. Þá vorum við búnar að afla okkur þekkingar og tengsla til framleiðslu utan landsteinanna. Það var heilmikið lærdómsferli út af fyrir sig, að læra hvernig maður finnur góða framleiðendur, tryggir að gæðin séu góð, vörurnar öruggar og hægt sé að flytja þær með hagkvæmum hætti til Íslands“

Samhliða því fóru þær að þróa sögurnar um vinina og persónueinkenni hvers og eins.

„Við byrjuðum að gefa út eina Tulipop bók og á endanum fengum við inn fjárfesti, einkaaðila og fjárfestingarsjóð. Þá vorum við komin með nægt fjármagn til þess að skoða möguleikann á framleiðslu teiknimynda og gefa út fleiri bækur.“

Stærstu tímamótin í rekstarsögu Tulipop voru þegar framleiðsla hófst á hágæða íslensku barnaefni árið 2020, sem fór í dreifingu ári seinna víða um heim. Starfsmenn fyrirtækisins eru nú orðnir sex hér á landi en hátt í hundrað manns koma að framleiðslu þáttaraðarinnar.

„Nú stefnum við á að klára fimmtíu og tvo þætti fyrir fyrri hluta næsta árs. Svona þáttaröð getur verið að seljast í fimm til tíu ár. Auk þess erum við að undirbúa næstu framleiðslu og vinna í því hvernig við getum nýtt vinsældir barnaefnisins til þess að koma varningi í sölu um allan heim. Í Póllandi er þetta eitt vinsælasta barnaefnið og við erum í viðræðum við erlenda aðila um hvernig við getum komið varningi í verslanir, nú þegar hugverkið er orðið þekkt. Gott barnaefni eykur áhugann á öllum varningi og tækifærin eru endalaus fyrir Tulipop.“

Helga segir það algjöra rússíbanareið að stofna nýsköpunarfyrirtæki og að hindranirnar á leiðinni séu margar.

„Suma daga gengur allt upp og aðra ekkert. Það hefur vissulega verið þrautin þyngri að koma teiknimyndaverkefnum á koppinn og það kemur ýmislegt upp á. Maður heldur kannski að maður sé búinn að ná draumasamningi sem mikil vinna hefur farið í en svo gengur það ekki alltaf upp og þá þarf maður að byrja upp á nýtt.“

Hún segir fjármögnun alltaf vera stóra áskorun fyrir fyrirtæki sem eru að byrja en að hún sé þakklát Íslandsbanka fyrir trúnna á fyrirtækinu frá byrjun.

„Við erum búnar að vera viðskiptavinir Íslandsbanka frá upphafi. Við höfum leitað til þeirra með ýmislegt í gegnum árin, þar á meðal beiðnir og fyrirspurnir sem þóttu óvenjulegar og tíðkuðust kannski ekki í þessum geira.“

Við höfum fundið frá miklu trausti frá Íslandsbanka og það hefur verið mjög gott að finna vilja hjá bankanum til þess að standa með okkur.

Helga Árnadóttir
CEO & Co-founder at Tulipop