Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Aðventublik í auga landsmanna

Bjartsýni ríkir í huga landsmanna á aðventunni samkvæmt væntingavísitölu Gallup þrátt fyrir faraldurssveiflur enda höfum við lært að stíga ölduna í þeim efnum. Bilið milli væntinga hinna tekjulægstu og annarra hefur hins vegar snarbreikkað undanfarið. Ferðagleði landsmanna er í örum vexti og almennt eru horfur á að neysla þeirra fari vaxandi.


Brún landsmanna léttist nokkuð á aðventunni og almennt virðist nokkur bjartsýni ríkja meðal landsmanna ef marka má desembermælingu Gallup á Væntingavísitölunni (VVG). Vísitalan hækkar um 5,5 stig á milli mánaða og mælist 121,6 stig. Er desember 11. mánuðurinn samfleytt þar sem VVG mælist yfir 100 stiga gildinu sem endurspeglar jafnvægi milli svartsýni og bjartsýni í svörum almennings. Rétt er að taka fram að mæling Gallup er gerð á fyrstu þremur vikum hvers mánaðar og því hefur henni lokið áður en nýjasta bylgja faraldursins fór á flug og sóttvarnaraðgerðir voru hertar.

Bilið á milli mats á núverandi ástandi og væntinga til stöðunnar eftir 6 mánuði hefur minnkað verulega frá ársbyrjun. Er það kunnugleg þróun frá fyrri uppsveiflum en hefur hins vegar gerst á mun skemmri tíma en t.d. í síðustu uppsveiflu um miðjan síðasta áratug. Vafalítið á tilkoma bóluefna og tiltölulega hröð bólusetning þorra landsmanna stóran þátt í þeim viðsnúningi.

Lærðum við að lifa með veirunni?

Sé borin saman þróun smittalna í faraldrinum og VVG má glöggt sjá að hver smitbylgja togar væntingar almennings niður. Eins og búast mátti við voru þau áhrif sterkust í upphafi faraldursins enda óvissa í hámarki og fá ráð til við veirunni önnur en samkomu- og landamæratakmarkanir. Síðari bylgjur virðast svo slá minna á bjartsýni neytenda enda er bólusetning orðin almenn, landamæratakmarkanir ekki eins strangar og daglegt líf jafnt sem atvinnustarfsemi hefur ekki orðið fyrir jafn stórfelldri röskun og í upphafi faraldurs þótt smittölurnar sjálfar hafi í síðustu bylgjum slegið talsvert hærra en í þeim fyrri. Verður forvitnilegt að sjá hvernig nýjasta bylgjan leggst í landann í næstu mælingum. Við teljum þó góðar líkur á því að sú staðreynd að við höfum í ýmsum skilningi „lært að lifa með veirunni“, svo notaður sé sá margtuggni frasi, muni dempa niðursveiflu í væntingum á næstunni.

Vaxandi svartsýni hjá tekjulágum

Þótt bjartsýni sé almennt talsvert meiri en svartsýni meðal svarenda í væntingakönnun Gallup er þróunin afar mismunandi eftir tekjum svarendanna. Bilið á milli væntinga hinna tekjulægstu og þeirra sem hafa hærri tekjur hafði vissulega breikkað með svipuðum hætti og í fyrri uppsveiflum allt fram á síðastliðið haust. Kann sú þróun að skýrast af því að hækkun á eignamörkuðum hefur meiri áhrif á eignastöðu hinna tekjuhærri sem og að ýmsir lágtekjuhópar eiga að jafnaði erfitt með að ná endum saman óháð sveiflunni í hagkerfinu.

Síðustu mánuði hefur þetta bil hins vegar snarbreikkað þar sem fólk í tekjulægsta fjórðungi svarenda hefur gerst mun svartsýnna en áður á meðan bjartsýni er enn ríkjandi hjá efri þremur tekjufjórðungunum. Í desembermælingu VVG var munurinn á undirvísitölum hæsta og lægsta tekjuhópsins 107 stig og hefur aldrei verið meiri.  

Ekki liggur fyrir hvað skýrir þessa þróun allra síðustu mánaða en hugsanlega kunna hækkandi vextir og vaxandi verðbólga að leggjast verr í tekjulægsta hópinn en þá sem hærri laun hafa. Þar kann einnig að spila inn að eignamarkaðir hafa haldið áfram að hækka undanfarið. Það vegur væntanlega á móti fyrrnefndri þróun í huga þeirra sem eiga talsverðar eignir umfram skuldir en eðli máls samkvæmt er fylgni á milli tekjuhópanna og innbyrðis eignastöðu milli þeirra.

Landsmenn í ferðahug

Samhliða VVG birti Gallup nýjustu mælingu sína á ársfjórðungslegri Stórkaupavísitölu, en hún mælir hug neytenda til kaupa á bifreiðum, utanlandsferðum og íbúðarhúsnæði. Að þessu sinni er lítil breyting á stórkaupavísitölunni sjálfri á milli mælinga, en þar vegst á ólík þróun í framangreindum þremur undirþáttum.

Líkt og í síðustu mælingu dregur úr áhuga svarenda á húsnæðiskaupum. Telja nú ríflega 5% svarenda líklegt að þau muni hyggja á húsnæðiskaup innan 6 mánaða en um mitt ár var þetta hlutfall tæp 7%. Kann þessi lækkun bæði að tengjast eftirspurnarþáttum eins og hækkandi vöxtum á íbúðalánum og þrengri lánaskilyrðum, en einnig minnkandi framboði á íbúðum á markaði.

Þá dregur einnig úr áhuga svarenda á bifreiðakaupum. Alls segjast nú ríflega 13% svarenda telja mjög eða frekar líklegt að þau hyggi á bílakaup næsta hálfa árið en hlutfallið var tæp 17% í haust og ríflega 15% um mitt ár. Kann þetta að vera vísbending um að eitthvað hægi á þeirri myndarlegu aukningu sem verið hefur í nýskráningum bifreiða undanfarið ár. Samkvæmt nýlegum tölum Bílgreinasambandsins var sala á nýjum fólksbílum til einstaklinga ríflega 15% meiri á fyrstu 11 mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra og í nóvembermánuði var aukningin 60% frá sama mánuði 2020.

Annað er uppi á teningnum þegar kemur að væntum utanlandsferðum landsmanna. Gallup spyr þar um ferðaáform næstu 12 mánuði (samanborið við 6 mánuði fyrir bifreiðar og húsnæði) og er gott að hafa það í huga þegar niðurstöðurnar eru túlkaðar.

Hraður vöxtur hefur verið í ferðavilja landans undanfarið og varð þar engin breyting á í nýju mælingunni. Alls töldu tæp 62% svarenda mjög eða frekar líklegt að þau leggðu land undir fót út fyrir landsteinana á komandi 12 mánuðum. Hefur það hlutfall ekki verið hærra frá því fyrir faraldur. Nýjustu fréttir af stórauknum Covid-smitum hérlendis sem erlendis gætu vissulega sett strik í reikninginn á þessum áætlunum almennings næsta kastið en vonandi og væntanlega verða þau áhrif þó tiltölulega skammvinn.

Frekari einkaneysluvöxtur í vændum

Væntingavísitalan er einn þeirra hagvísa sem við styðjumst við þegar við reynum að slá mati á nýjustu þróun og horfur varðandi einkaneyslu í landinu. Ef marka má nýlegar mælingar VVG, sem raunar eru í takti við aðra hagvísa á borð við kortaveltu, var einkaneysluvöxturinn líflegur á lokafjórðungi þessa árs og horfur eru á að einkaneyslan vaxi áfram allmyndarlega á komandi mánuðum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband