Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Að hlaupi loknu

Á þessum 16 árum hafa nú safnast um 1,3 milljarðar króna til góðra málefna.


Eftir tveggja ára hlé var komið að því að reima á sig hlaupaskóna þegar Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka var haldið í 37. skipti þann 20. ágúst síðastliðinn. Stemningin var að vanda einstök þegar hlauparar lögðu af stað úr Lækjargötunni þrátt fyrir að vindar blésu.

Íslandsbanki hefur verið stuðningsaðili hlaupsins í 26 ár og ég var stolt þegar ég horfði á alla þessa þátttakendur þeysast um borgina og ekki síður ánægð með stuðning og hvatningu íbúa. Hvatning Vesturbæinga og Seltirninga er órjúfanlegur þáttur í þessu ævintýri þegar íbúar storma út á götur til að hvetja hlaupara sem fara fram hjá. Ég veit að íbúar í öðrum hverfum láta sitt ekki eftir liggja en ég hef aldrei náð að hlaupa lengra en þennan Vesturbæjarhring.

Fyrir utan að vera stórt lýðheilsuverkefni þar sem þúsundir taka þátt eftir oft ströng undirbúningstímabil er þetta líka stærsta góðgerðarsöfnun landsins. Þegar Hlaupastyrkur var settur á laggirnar árið 2006 er mér minnisstætt hversu þunglamaleg söfnunin var í upphafi þar sem við þurftum nánast að véla í gegn hvert einasta áheit og berjast fyrir hverri krónu. Það hefur þó aldeilis breyst á skömmum tíma og á þessum 16 árum hafa nú safnast um 1,3 milljarðar króna til góðra málefna.

Söfnunin hefur verið okkur í Íslandsbanka mikið kappsmál enda vitum við að mörg góðgerðarfélög reiða sig á þetta áheitafé. Í ár skráðu sig 280 góðgerðarfélög og hjá mörgum þeirra er þetta þeirra eina leið til að safna fjármunum í starfsemi sína. Á bak við hvert einasta félag er fallegt hlutverk og fjármunirnir koma því að mjög góðum notum.

Eftir tveggja ára hlé á Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka vegna heimsfaraldurs var einstaklega ljúft að hlaupa og taka þátt í þessum degi aftur. Þessi dagur er mikilvægur fyrir samfélagið og hefur áhrif víða. En það þarf mörg handtök til að svona viðburður verði til og langar mig að þakka öllum sem komu að deginum. Íþróttabandalagi Reykjavíkur fyrir skipulagið og þeim óteljandi sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóg. Öllum þeim duglegu þátttakendum sem gera þetta að veruleika og hverju einasta klappi, flauti og fimmum á hliðarlínunni sem búa til alla stemninguna. Næst hlaupum við 19. ágúst 2023, í 38. sinn.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu

Höfundur


Birna Einarsdóttir

Bankastjóri