Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Að fela peninga yfir áramótin

Hvaða áhrif hefur að taka peninga út fyrir áramót og leggja aftur inn á nýju ári?


Nú þegar útibú eru lokuð vegna kórónuveirunnar gætu spurningar vaknað varðandi eina tiltekna áramótahefð.

Meðal sumra hefur það tíðkast að gera sér ferð í útibú fyrir áramót og taka út sparnað. Hann er ýmist lagður inn í bankahólf eða undir koddann og markmiðið virðist vera að spara sér aur með því að láta láta skattframtalið líta þannig út að sem minnstar eignir séu til staðar.

En hefur þetta einhver raunveruleg áhrif? Lítum á nokkur atriði í þessu samhengi:

Hafðu þetta í huga

  • Eignaskattur er ekki lengur innheimtur
    Auðlegðarskattur var hér á landi árin 2010-2014 en í dag er ekki greiddur skattur af peningalegum eignum. Það breytir því engu um skattheimtu hvort inneign sé á reikningi um áramót eða ekki.

  • Fjármagnstekjuskattur er greiddur af ávöxtun, ekki eignum
    Með öðrum orðum: Það skiptir ekki máli hvað þú átt inni á reikningnum, bara hvað þú hefur fengið í vexti, verðbætur eða aðrar fjármagnstekjur. Þú kemst ekki hjá því að greiða fjármagnstekjuskatt með því að taka út peninga yfir áramótin. Mundu svo að frítekjumark er á fjármagnstekjum sem þýðir að þú færð væntanlega stóran hluta skattsins endurgreiddan á næsta ári.

  • Tryggingastofnun skerðir ekki ellilífeyri vegna eigna
    Þú þarft ekki að fela peninga vegna ellilífeyrisgreiðslna TR. Skerðingar eiga aðeins við um þær tekjur sem þú hefur en ekki eignir. Þar að auki er ekki er skert um krónu á móti krónu eins og stundum er haldið fram. Það er því skárra að fá einhverja vexti en enga, þrátt fyrir skerðingar.

    Fáir þú sérstakar uppbætur á lífeyri, sem dæmi vegna umönnunarkostnaðar eða lyfjakostnaðar, geta eignir eða tekjur dregið úr fjárhæðum uppbóta.

  • Þó svo peningur sé geymdur undir kodda ber að telja hann fram á skattframtali
    Séu reikningar tæmdir um áramót og þeirra ekki getið annars staðar getur litið svo út á framtali að viðkomandi hafi fengið vexti á árinu án þess þó að eiga sparnað.

Vonandi skýrir þetta málið nokkuð betur og við vonumst svo sannarlega til að geta boðið viðskiptavini velkomna til okkar sem allra fyrst. Í millitíðinni er þó um að gera að nýta sér þá fjölbreyttu þjónustu sem í boði er, til dæmis með því að bóka símtal frá ráðgjafa.

Frekari upplýsingar


Grein - Borgar sig að fá vexti á lífeyrisaldri?

    Lesa grein

    Skattgreiðslur og skerðingar

      Nánar um skatta og Tryggingastofnun

      Panta símtal frá ráðgjafa

        Pantaðu símtal frá ráðgjafa

        Útibú og hraðbankar

          Staðsetningar og opnunartímar

          Höfundur


          Björn Berg Gunnarsson

          Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


          Hafa samband