Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

30.000 milljarða fyrirtækið Disney

Markaðsverðmæti Disney jafngildir sexföldu fasteignamati alls íbúðarhúsnæðis á Íslandi


Disney er langstærsta fjölmiðlasamsteypa heims. Eftir kaupin á 21st Century Fox fyrr á árinu bættust FX, National Geographic og Hulu, auk kvikmyndaversins 20th Century Fox í hóp fjölda vörumerkja sem skiluðu fyrirtækinu um 1.500 milljarða króna hagnaði árið 2018.

Þegar við í Íslandsbanka héldum fyrirlestra um sögu, fjármál og rekstur fyrirtækisins á haustmánuðum 2018 var fyrirtækið rétt um 20.000 milljarða króna virði. Því hét fyrirlesturinn „20.000 milljarða fyrirtækið Disney“. Markaðsverðmætið hefur þó heldur betur aukist síðan þá því nú myndi kosta um 30.000 milljarða að kaupa hlutabréf samsteypunnar. Til að setja þá upphæð í eitthvað samhengi jafngildir það sexföldu fasteignamati alls íbúðarhúsnæðis Íslands og fyrir hana mætti mætti reka ríkissjóð í 35 ár.

Græða mest á sjónvarpi og skemmtigörðum

Helsta uppspretta hagnaðar Disney er rekstur sjónvarpsstöðva, svo sem EPSN, Disney Channel og ABC, en eins og áður segir voru nýlega fest kaup á FX og National Geographic. Auk yfirtökunnar á 21st Century Fox eru stærstu fréttirnar þessa dagana þó streymisveitan Disney + sem fer í loftið í nóvember.

Þó við hugsum sennilega fyrst út í varning og kvikmyndir þegar við veltum fyrir okkur uppistöðu reksturs fyrirtækisins má ekki gleyma að Disney er langsamlega stærsti rekstraraðili skemmtigarða á heimsvísu, en 157 milljónir gesta sóttu þá heim á síðasta ári og eru 8 af 10 mest sóttu skemmtigörðum heims á þeirra vegum.

Með yfirtökunni á kvikmyndaverinu 20th Century Fox aukast yfirburðir Disney á þeim markaði enn frekar, en undanfarin ár hefur stór hluti tekjuhæstu kvikmynda í bíóhúsum verið framleiddur af fyrirtækjum sem nú eru í eigu Disney.

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri greiningar og fræðslu


Senda tölvupóst