Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

12 mánaða verðbólga hjaðnar lítið eitt

Verðbólga hjaðnaði loks í nóvember eftir linnulítinn vöxt frá áramótum. Litla hækkun neysluverðs má meðal annars þakka verðlækkun á ýmsum innfluttum vörum og litla hækkun á markaðsverði íbúða. Talsverð verðbólga mun væntanlega mælast fram eftir vetri en framgangur faraldursins ræður miklu um hversu hratt hún hjaðnar eftir það.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,04% í nóvember. Mælist 12 mánaða verðbólga nú 3,5% en var 3,6% í októbermánuði. Verðbólgan hefur samt sem áður aukist talsvert á árinu og var til samanburðar 1,7% í janúar. Mæling nóvembermánaðar er ólíkt fyrri mánuðum í lægri kantinum og hefur hækkun vísitölunnar ekki verið jafn lítil í einum mánuði frá því í janúar fyrr á þessu ári. Við höfðum spáð 0,2% hækkun VNV í nóvember en nýbirtar tölur Hagstofunnar eru undir öllum birtum spám. Liðirnir reiknuð húsleiga, matur og drykkur, föt og skór og eldsneyti lækkuðu allir á milli mánaða. Í þremur síðarnefndu liðunum vegur innflutningsverð þungt.

Skráðu þig á póstlistann okkar

Vísitala neysluverðs hækkar um 0,04% í nóvember

Verðbólga miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis mælist nú 4,2% undanfarna 12 mánuði sem þýðir að húsnæðisliðurinn er enn að draga úr verðbólgu í nóvember. Matur og drykkjarvara lækkaði í verði um 0,22% (-0,03% áhrif VNV) en þar munar mest um grænmeti (-2%) og ávexti (-0,81%) sem lækkuðu eftir umtalsverða hækkun fyrr á árinu. Svipaða sögu er að segja af reiknaðri húsaleigu sem lækkaði um 0,15% (-0,02% í VNV) í nóvember frá fyrri mánuði. Liðurinn föt og skór lækkaði um 0,7% (-0,02% áhrif í VNV) þar sem föt lækkuðu um 0,58% og skór rúmlega tvöfalt meira. Eldsneytisverð lækkaði um tæp 0,6% (-0,02% í VNV) á milli mánaða en heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað talsvert undanfarna daga og náði fyrr í vikunni sömu hæðum og fyrir COVID-19. Sú hækkun hefur enn ekki skilað sér til landsins en ætla má að við finnum fyrir henni innan skamms.

Helstu liðir VNV lækka á milli mánaða

Það helsta sem greinir á milli spár Greiningar Íslandsbanka og nóvembertalna Hagstofunnar er ofmat okkar á hækkun liðarins reiknuð húsleiga. Fasteignaverð hækkaði raunar á milli mánaða en þó minna en síðastliðna 5 mánuði. Lægri greiðslubyrði vegna mikilla vaxtalækkana fyrr á árinu vegur því þyngra í reiknuðu húsaleigunni þennan mánuðinn en hækkun húsnæðisverðs. Líkt og áður kom fram lækkuðu einnig liðirnir matur og drykkjarvörur og föt og skór meira en við höfðum gert ráð fyrir. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2016 sem matur og drykkjarvörur vega til lækkunar í nóvembermánuði. Flugfargjöld hækkuðu örlítið minna en við gerðum ráð fyrir (0,04% áhrif í VNV) en liðurinn hefur verið heldur óreglulegur og óútreiknanlegur það sem af er ári vegna COVID-19.

Enn hækkar húsnæðisverð

Marksverð íbúðarhúsnæðis á landinu öllu hefur hækkað í 19 af síðastliðnum 24 mánuðum og þar af undanfarna 6 mánuði samfleytt. Hækkunin síðastliðna 12 mánuði hefur þó minnkað lítillega síðan í ágúst (1,2%) þegar hann var 7,8%. Frá áramótum hefur sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað mest (8,2%), fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu hækkað jafn mikið (6,8%) og húsnæðisverð á landsbyggðinni hækkað minnst (5,9%). Vextir húsnæðislána hafa lækkað umtalsvert á árinu sem aukið hefur umsvif á fasteignamarkaði með tilheyrandi hækkun fasteignaverðs þrátt fyrir mesta atvinnuleysi sem sést hefur í rúman áratug. Eins og áður var reifað voru áhrif liðarins reiknuð húsaleiga á vísitölu neysluverðs um -0,02% í nóvember. Liðurinn samanstendur af markaðsverði íbúðarhúsnæðis og áhrifum vaxtakjara á íbúðalánum. Í nóvember hefur síðarnefndi liðurinn vegið þyngra til lækkunar en sá fyrrnefndi til hækkunar enda hafa lánskjör íbúðalána aldrei verið hagstæðari en undanfarna fjórðunga.

Styttist í verðbólgutoppinn?

Þó 12 mánaða verðbólga hjaðni á milli mánaða höfum við að öllum líkindum ekki náð toppi verðbólguskotsins enn sem komið er. Við gerum ráð fyrir að verðbólgan verði að jafnaði 2,9% á árinu, 3,3% á því næsta og 2,5% árið 2022. Jákvæðar niðurstöður af bóluefnum voru fyrr á ferðinni en gert var ráð fyrir og eru Íslendingar þessa dagana örlítið bjartsýnni um framhaldið ef marka má nýjustu tölur Væntingavísitölu Gallup. Enn ríkir töluverð óvissa með framhaldið og einna helst varðandi framkvæmd á bólusetningu. Við byggjum okkar forsendur á því að bólusetning við Kórónuveirunni verði komin á gott skrið um mitt næsta ár en ef betur gengur að ráða niðurlögum farsóttarinnar gæti verðbólgan hjaðnað fyrr en við reiknum með. Ef verr tekst á hinn bóginn að ráða niðurlögum farsóttarinnar gæti gengi krónunnar verið enn lengur að taka við sér og verðbólgan því orðið þrálátari en við gerum ráð fyrir.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband