Stjórn Íslandsbanka

Í stjórn bankans sitja sjö einstaklingar, auk tveggja varamanna, sem kosnir eru á hverjum aðalfundi til eins árs í senn.

Hlutverk stjórnar


Stjórn bankans fer með æðsta vald í málefnum bankans á milli hluthafafunda nema þegar lög eða samþykktir bankans kveða á um annað. Stjórn ber ábyrgð á mótun stefnu bankans og felur bankastjóra nánari útfærslu og framkvæmd hennar. Stjórn hefur eftirlit með starfsemi bankans og að hún sé ávallt í samræmi við lög, reglur og góða viðskiptahætti.

Hlutafé Íslandsbanka er í eigu íslenska ríkisins. Bankasýsla ríkisins fer með eignarhlut ríkisins í bankanum í samræmi við lög 88/2009. Sérstök valnefnd er tilnefnd skv. 7. gr. laga 88/2009 um Bankasýslu ríkisins sem tilnefnir fulltrúa til setu í stjórn bankans.

Hallgrímur Snorrason

Formaður stjórnar frá mars 2020. Stjórnarmaður frá apríl 2016


Hallgrímur starfar sjálfstætt sem ráðgjafi í opinberri hagskýrslugerð. Hann gegndi starfi Hagstofustjóra 1985-2007 og var aðstoðarforstjóri Þjóðhagsstofnunar 1980-1984. Hann hefur setið í fjölda stjórna, m.a. bankaráði Útvegsbanka Íslands, Skýrr og Auði Capital. Hann hefur jafnframt verið formaður ýmissa stjórnskipaðra nefnda, bæði innlendra sem og nefnda tengdum norrænu samstarfi, EFTA, ESB og OECD.

Hallgrímur er með M.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskólanum í Lundi og B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskólanum í Edinborg.

Undirnefndir: Nefndarmaður í endurskoðunarnefnd.

Anna Þórðardóttir

Stjórnarmaður frá apríl 2016


Anna hefur mikla reynslu af stjórnarsetu. Hún hefur setið í stjórn KPMG og félags löggiltra endurskoðenda. Hún situr í stjórn Framtíðarseturs Íslands og er formaður endurskoðunarnefndar Haga og er nefndarmaður í endurskoðunarnefnd Heimavalla. Anna starfaði hjá KPMG á árunum 1988-2015, þar af sem eigandi frá 1999 og bar m.a. ábyrgð á endurskoðun hjá eftirfarandi félögum: Reitum, Högum, 365, Baugi Group, Vodafone, Landfestum, Landey, 10-11 og Félagsbústöðum.

Anna er löggiltur endurskoðandi og er með Cand.oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hún stundaði Cand.merc. nám í fjármálafræðum við Handelshøjskolen í Árósum, Danmörku..

Undirnefndir: Formaður endurskoðunarnefndar.

Árni Stefánsson

Stjórnarmaður frá apríl 2016


Árni hefur víðtæka stjórnunarreynslutengdri stóriðju á Íslandi. Hann starfar sem framkvæmdastjóri, og situr í framkvæmdastjórn, hjá Rio Tinto. Árni hefur áður starfað sem framkvæmdastjóri hjá Norðuráli Grundartanga, deildarstjóri og í framkvæmdaráði hjá Landsneti og sem stjórnandi hjá Landsvirkjun.

Árni er með M.Sc. gráðu í rafmagns- og rekstrarverkfræði.

Undirnefndir: Formaður í áhættunefnd stjórnar.

Flóki Halldórsson

Stjórnarmaður frá mars 2020


Flóki hefur víðtæka reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Hann var framkvæmdastjóri Stefnis á árunum 2009-2019. Á árunum 2001-2009 starfaði hann sem sjóðstjóri hjá forvera Stefnis. Þar áður var Flóki fjárfestingarstjóri hjá Burðarási. Flóki hefur gegnt stjórnarstörfum hjá félögum tengdum starfsemi Stefnis og síðastliðið ár sat hann í stjórn Stefnis.

Undirnefndir: Nefndarmaður í stjórnarhátta-, starfskjara- og mannauðsnefnd stjórnar og áhættunefnd stjórnar.

Frosti Ólafsson

Stjórnarmaður frá mars 2020


Frosti er fráfarandi forstjóri ORF Líftækni, leiðandi þekkingarfyrirtækis í plöntulíftækni sem jafnframt á og rekur snyrtivörumerkið BIOEFFECT og starfar sem sjálfstæður ráðgjafi. Frosti hefur meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og ráðgjafi hjá McKinsey & Company. Í sínum fyrri verkefnum hefur Frosti veitt leiðandi innlendum og alþjóðlegum fyrirtækjum ráðgjöf og þjónustu á breiðu sviði, m.a. við stefnumörkun, hagsmunagæslu, rekstrarumbætur og stjórnarhætti. Frosti situr í stjórn Háskólans í Reykjavík og öðrum félögum sem tengjast háskólanum, í stjórn framtakssjóðsins Freyju og stjórnum ýmissa dótturfélaga sem heyra undir ORF Líftækni.  

Frosti er með MBA gráðu frá London Business School og B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og Macquire University í Sydney, Ástralíu.

Undirnefndir: Nefndarmaður í stjórnarhátta-, starfskjara- og mannauðsnefnd stjórnar og endurskoðunarnefnd.

Guðrún Þorgeirsdóttir

Stjórnarmaður frá mars 2020


Guðrún er framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá PayAnalytics. Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Skeljungi. Guðrún hefur reynslu sem framkvæmdastjóri áhættustýringar og sem fjárfestingarstjóri. Guðrún er reyndur stjórnarmaður og hefur gegnt stjórnarstörfum í tryggingarfélögum, fjármálafyrirtækjum og verslunar- og þjónustufyrirtækjum og hefur meðal annars setið í stjórn Vátryggingafélags Íslands, Lífís, Lyfju og Lýsingu.

Guðrún er með B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, MBA frá HEC School of Management í Frakklandi og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Undirnefndir: Nefndarmaður í áhættunefnd stjórnar.

Heiðrún Jónsdóttir

Varaformaður stjórnar frá mars 2020. Stjórnarmaður frá apríl 2016.


Heiðrún starfar sem héraðsdómslögmaður hjá lögmannsstofunni Múla. Auk þess að sitja í stjórn bankans er hún stjórnarmaður í fasteignafélaginu Reginn og Royal Arctic Line. Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Eimskipafélagi Íslands, lögmannsstofunni Lex og sem framkvæmdastjóri lögfræði- og mannauðssviðs KEA. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnarsetu frá árinu 1998. Hún hefur meðal annars verið formaður stjórnar Norðlenska, Íslenskra verðbréfa, Gildis lífeyrissjóðs og stjórnarmaður í stjórn Símans, Olíuverslunar Íslands, Ístaks, Reiknistofu bankanna, Arion verðbréfavörslu, Þekkingar og Landssambands lífeyrissjóða. Þá sat hún í stjórn Lögmannafélags Íslands 2016-2019, og var varaformaður þess 2018-2019.

Heiðrún er með embættispróf frá lagadeild Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Hún lauk stjórnendanámi, Advanced Management Program (AMP) frá IESE Business School í Barcelona á Spáni 2017.

Undirnefndir:  Formaður í stjórnarhátta-, starfskjara- og mannauðsnefnd stjórnar

Varamenn


Herdís Gunnarsdóttir, frá apríl 2016

Óskar Jósefsson, frá mars 2020

Undirnefndir stjórnar


Undirnefndir stjórnar eru þrjár og starfa þær samkvæmt erindisbréfi frá stjórn og starfsreglum stjórnar. Stjórn kýs nefndarmenn undirnefnda og skipar formenn þeirra . Við skipun nefndanna skal stjórn taka tillit til þess hvaða sérþekkingar, hæfni og reynslu starf í viðkomandi undirnefnd krefst. Nefndirnar eru allar skipaðar stjórnarmönnum.

Endurskoðunarnefnd

Endurskoðunarnefnd sem skipuð er þremur stjórnarmönnum aðstoðar stjórn við að uppfylla eftirlitsskyldur sínar vegna fjárhagsupplýsinga, innra eftirlits, endurskoðunar og eftirlits við fylgni við lög og reglur ásamt siðareglum bankans.

Erindisbréf (pdf)

Áhættunefnd stjórnar

Áhættunefnd stjórnar sem skipuð er fjórum stjórnarmönnum sinnir ráðgjafar- og eftirlitshlutverki fyrir stjórn bankans, m.a. vegna mótunar og innleiðingar á áhættustefnu og áhættuvilja bankans. Verkefni áhættunefndar stjórnar ná til móðurfélagsins, dótturfélaga þess og samstæðunnar í heild sinni.

Erindisbréf (pdf)

Stjórnarhátta-, starfskjara- og mannauðsnefnd

Stjórnarhátta-, starfskjara- og mannauðsnefnd sem skipuð er þremur stjórnarmönnum aðstoðar stjórn bankans við að fylgjast með þróun og meta reglulega nálgun bankans í góðum stjórnarháttum og árangur stjórnarmanna.

Frekari upplýsingar um hlutverk og ábyrgð undirnefnda stjórnar má finna í kafla um stjórnarhætti í ársskýrslu bankans.

Erindisbréf (pdf)

Hæfismat stjórnar


Allir stjórnarmenn Íslandsbanka hafa staðist sérstakt hæfismat, sem allir stjórnarmenn félaga sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins verða að undirgangast.

Þetta ferli var innleitt af Fjármálaeftirlitinu til þess að styrkja eftirfylgni með lögum og reglum um hæfi stjórnarmanna og til þess að gera þá meðvitaða um þá ábyrgð og þekkingu sem krafist er af þeim sem stjórnarmönnum. Fjármálaeftirlitið hefur skipað ráðgefandi nefnd sem boðar stjórnarmenn til viðtals til að kanna og meta þekkingu þeirra og skoðanir á málefnum sem tengjast starfsemi bankans sem og ábyrgð þeirra sem stjórnarmanna.

Starfsreglur stjórnar


Starfsreglur stjórnar eru settar á grundvelli 70. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. 

Valnefnd Bankasýslu ríkisins


Samkvæmt 7. gr. laga nr. 88/2009 skipar stjórn Bankasýslu ríkisins sérstaka þriggja manna valnefnd sem tilnefnir aðila fyrir hönd ríkisins sem rétt hafa til setu fyrir hönd ríkisins í bankaráðum eða stjórnum fyrirtækja á forræði stofnunarinnar.

Valnefndin leitar eftir einstaklingum að eigin frumkvæði en einnig geta aðilar, sem telja sig uppfylla skilyrði fyrir stjórnarsetu, gefið kost á sér með því að senda valnefndinni ferilskrár sínar með tölvupósti á netfangið valnefnd@bankasysla.is.

Stjórn Bankasýslu ríkisins óskar formlega eftir tilnefningum valnefndar um stjórnar- og bankaráðsmenn fyrir stjórnarkjör í hlutaðeigandi bankaráðum eða stjórnum. Valnefndin tilnefnir í hvert sinn tvo til þrjá einstaklinga fyrir hvert sæti sem losnar í stjórnum eða bankaráðum. Við ákvörðun um tilnefningu á stjórnarmanni leggur valnefndin mat á hæfni aðila m.a. að teknu tilliti til hversu mikla yfirsýn, þekkingu og reynslu viðkomandi hefur í tengslum við fyrirtækjarekstur og starfshætti fjármálafyrirtækja.

Starfsreglur valnefndar Bankasýslunnar má nálgast hér. (pdf)