Stjórn Íslandsbanka

Í stjórn bankans sitja sjö einstaklingar, auk tveggja varamanna, sem kosnir eru á hverjum aðalfundi til eins árs í senn.

Hlutverk stjórnar


Stjórn bankans fer með æðsta vald í málefnum bankans á milli hluthafafunda nema þegar lög eða samþykktir bankans kveða á um annað. Stjórn ber ábyrgð á mótun stefnu bankans og felur bankastjóra nánari útfærslu og framkvæmd hennar. Stjórn hefur eftirlit með starfsemi bankans og að hún sé ávallt í samræmi við lög, reglur og góða viðskiptahætti.

Finnur Árnason

Stjórnarmaður og formaður stjórnar frá mars 2022.


Finnur Árnason er sjálfstætt starfandi rekstrarráðgjafi. Hann er stjórnarformaður Nýja Landspítalans, NLSH ohf. og er stjórnarformaður Ormsson. Finnur hefur víðtæka reynslu úr íslensku atvinnulífi. Hann var m.a. forstjóri Haga hf. í 15 ár og þar áður framkvæmdastjóri Hagkaups. Finnur hefur auk þess mikla reynslu sem stjórnarmaður í fyrirtækjum og samtökum. Hann hefur m.a. setið í stjórnum Olíuverzlunar Íslands, Skeljungs, Húsasmiðjunnar og færeyska smásölufélagsins SMS. Auk þess hefur Finnur setið í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins, stjórn Viðskiptaráðs, stjórn Samtaka verslunar og þjónustu og í stjórn háskólans á Bifröst.

Finnur er með Cand Oecon gráðu frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá University of Hartford í Bandaríkjunum.

Finnur Árnason á beint 0,00063% hlut í Íslandsbanka og 0,00063% hlut í gegnum Rekavík ehf. og telst óháður bankanum og stórum hluthöfum hans. Engin hagsmunatengsl eru við helstu viðskiptaaðila eða samkeppnisaðila Íslandsbanka.

Undirnefndir: Nefndarmaður í endurskoðunarnefnd stjórnar.

Heiðrún Jónsdóttir

Varaformaður stjórnar frá mars 2020 - Stjórnarmaður frá apríl 2016


Heiðrún starfar sem héraðsdómslögmaður hjá Múla lögmannsstofu. Auk þess að sitja í stjórn bankans er hún stjórnarmaður í Regin fasteignafélagi, Royal Arctic Line, Svarmi ehf. og Múla lögmannsstofu ehf. Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Eimskipafélagi Íslands, Lex lögmannsstofu og framkvæmdastjóri lögfræði- og mannauðssviðs KEA. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnarsetu frá árinu 1998. Hún hefur meðal annars verið formaður stjórnar Norðlenska, Íslenskra verðbréfa, Gildis lífeyrissjóðs og stjórnarmaður í stjórn Símans, Icelandair Group, Olíuverzlunar Íslands, Ístaks, Reiknistofu bankanna, Arion verðbréfavörslu, Þekkingar og Landssambands lífeyrissjóða. Þá sat hún í stjórn Lögmannafélags Íslands 2016- 2019, og var varaformaður þess 2018-2019.

Heiðrún er með embættispróf frá lagadeild Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Hún lauk stjórnendanámi, Advanced Management Program (AMP) frá IESE Business School í Barcelona á Spáni.

Heiðrún á 0,00063% hlut í Íslandsbanka og telst óháð bankanum og stórum hluthöfum hans. Engin hagsmunatengsl eru við helstu viðskiptaaðila eða samkeppnisaðila Íslandsbanka.

Undirnefndir:  Nefndarmaður í stjórnarhátta- og mannauðsnefnd stjórnar.

Anna Þórðardóttir

Stjórnarmaður frá apríl 2016


Anna hefur mikla reynslu af stjórnarsetu. Hún hefur setið í stjórn KPMG og félags löggiltra endurskoðenda. Hún situr í stjórn Framtíðarseturs Íslands og er formaður endurskoðunarnefndar Haga. Anna starfaði hjá KPMG á árunum 1988-2015, þar af sem eigandi frá 1999 og bar m.a. ábyrgð á endurskoðun hjá eftirfarandi félögum: Reitum, Högum, 365, Baugi Group, Vodafone, Landfestum, Landey, 10-11 og Félagsbústöðum.

Anna er löggiltur endurskoðandi og er með cand. oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hún stundaði cand. merc. nám í fjármálafræðum við Handelshøjskolen í Árósum, Danmörku.

Anna á enga hluti í Íslandsbanka og telst óháð bankanum og stórum hluthöfum hans. Engin hagsmunatengsl eru við helstu viðskiptaaðila eða samkeppnisaðila Íslandsbanka.

Undirnefndir:  Formaður endurskoðunarnefndar stjórnar.

Ari Daníelsson

Stjórnarmaður frá mars 2022


Ari hefur starfað á fjármálamarkaði á Íslandi og á meginlandi Evrópu í yfir 20 ár, sem stjórnandi og stjórnarmaður í fjölda fyrirtækja. Frá árinu 2010 hefur hann gengt starfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanns hjá Reviva Capital S.A., sérhæfðu eignastýringarfyrirtæki með höfuðstöðvar í Lúxemborg, sem veitir alþjóðlegum fagfjárfestum og bönkum þjónustu á sviði lánaumsýslu. Á árunum 2006-2010 starfaði Ari hjá forvera Íslandsbanka og leiddi um tíma viðskiptaþróun innanlands, stýrði eignafjármögnun bankans (nú Ergo) og vann að endurskipulagningu á dótturfélagi í Lúxemborg. Ari hefur einnig mikla reynslu á sviði upplýsingatækni og af innviðum fjármálakerfa og hefur setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja á því sviði, m.a. í stjórn Borgunar á árunum 2018-2021. Þá var Ari kjörinn í stjórn upplýsingatæknifyrirtækisins Origo í mars 2022. 

Ari er tölvunarfræðingur og með MBA frá Háskólanum í Reykjavík, auk þess að hafa lokið viðbótarnámi í stjórnarháttum alþjóðlegra fyrirtækja (IDP) frá INSEAD viðskiptaháskólanum í Frakklandi.

Ari á óbeint 0,023% hlut í Íslandsbanka í gegnum félagið R-Holdings 1 S.a.r.l. og 0,00190% hlut í gegnum eignarhaldsfélagið MFT 1 ehf. og telst óháður bankanum og stórum hluthöfum hans. Engin hagsmunatengsl eru við helstu viðskiptaaðila eða samkeppnisaðila Íslandsbanka.

Undirnefndir:  Nefndarmaður í áhættunefnd og endurskoðunarnefnd stjórnar.

Frosti Ólafsson

Stjórnarmaður frá mars 2020


Frosti starfar sem framkvæmdastjóri Olíuverzlunar Íslands hf. Hann starfaði áður m.a. sem sjálfstæður ráðgjafi, forstjóri ORF Líftækni, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og ráðgjafi hjá McKinsey & Company. Í sínum fyrri verkefnum hefur Frosti veitt leiðandi innlendum og alþjóðlegum fyrirtækjum ráðgjöf og þjónustu á breiðu sviði, m.a. við stefnumörkun, hagsmunagæslu, rekstrarumbætur og stjórnarhætti. Frosti situr í stjórn Controlant, Óson ehf. og félögum í eigu Olíuverzlunar Íslands, þ.e. Mjöll-Frigg ehf. og Garður ehf.

Frosti er með MBA gráðu frá London Business School og B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og Macquire University í Sydney, Ástralíu.

Frosti á 0,00063% hlut í Íslandsbanka og telst óháður bankanum og stórum hluthöfum hans. Engin hagsmunatengsl eru við helstu viðskiptaaðila eða samkeppnisaðila Íslandsbanka.

Undirnefndir:  Formaður stjórnarhátta- og mannauðsnefndar stjórnar.

Guðrún Þorgeirsdóttir

Stjórnarmaður frá mars 2020


Guðrún er framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá PayAnalytics. Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Skeljungi. Guðrún hefur reynslu sem framkvæmdastjóri áhættustýringar og sem fjárfestingarstjóri. Hún er reyndur stjórnarmaður og hefur gegnt stjórnarstörfum í tryggingarfélögum, fjármálafyrirtækjum og verslunar- og þjónustufyrirtækjum og hefur meðal annars setið í stjórn Vátryggingafélags Íslands, Lífíss, Lyfju og Lýsingar. Guðrún er varamaður í stjórn Pavonis ehf. og framkvæmdastjóri félagsins Tharsis ehf.

Guðrún er með MBA gráðu frá HEC School of Management í Frakklandi, B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Guðrún á enga hluti í Íslandsbanka og telst óháð bankanum og stórum hluthöfum hans. Engin hagsmunatengsl eru við helstu viðskiptaaðila eða samkeppnisaðila Íslandsbanka.

Undirnefndir:  Formaður áhættunefndar stjórnar.

Tanya Zharov

Stjórnarmaður frá mars 2022


Tanya Zharov er aðstoðarforstjóri Alvotech. Á árunum 2016-2020 starfaði hún sem aðstoðarforstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og hún starfaði einnig hjá fyrirtækinu á árunum 1999-2007 sem lögfræðingur og framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs. Á árunum 2008-2015 var hún framkvæmdastjóri lögfræðisviðs hjá Auði Capital og síðar Virðingu eftir samruna félaganna. Hún var meðeigandi og skattalögfræðingur hjá PwC 1996-1998. Tanya hefur setið í stjórnum fjölda félaga meðal annars Carbon Recycling, Orf líftækni, Nasdaq Omx hf. og var formaður stjórnar Íslandssjóða 2016-2021. Hún annaðist kennslu og prófaumsjón í verðbréfarétti í námi til öflunar verðbréfaprófaréttinda á árunum 2009-2015. Tanya situr í stjórn Háskólans í Reykjavík.

Tanya er með embættispróf frá lagadeild Háskóla Íslands og er evrópskur einkaleyfalögfræðingur.

Tanya á óbeint 0,00007% hlut í Íslandsbanka í gegnum eignarhaldsfélagið Tölur ehf. og telst óháð bankanum og stórum hluthöfum hans. Engin hagsmunatengsl eru við helstu viðskiptaaðila eða samkeppnisaðila Íslandsbanka.

Undirnefndir:  Nefndarmaður í áhættunefnd og stjórnarhátta- og mannauðsnefnd stjórnar.

Varamenn


Herdís Gunnarsdóttir, frá apríl 2016

Páll Grétar Steingrímsson, frá mars 2022

Undirnefndir stjórnar


Undirnefndir stjórnar eru þrjár og starfa þær samkvæmt erindisbréfi frá stjórn og starfsreglum stjórnar. Stjórn kýs nefndarmenn undirnefnda og skipar formenn þeirra . Við skipun nefndanna skal stjórn taka tillit til þess hvaða sérþekkingar, hæfni og reynslu starf í viðkomandi undirnefnd krefst. Nefndirnar eru allar skipaðar stjórnarmönnum.

Endurskoðunarnefnd

Endurskoðunarnefnd sem skipuð er þremur stjórnarmönnum aðstoðar stjórn við að uppfylla eftirlitsskyldur sínar vegna fjárhagsupplýsinga, innra eftirlits, endurskoðunar og eftirlits við fylgni við lög og reglur ásamt siðareglum bankans.

Erindisbréf (pdf)

Áhættunefnd stjórnar

Áhættunefnd stjórnar sem skipuð er fjórum stjórnarmönnum sinnir ráðgjafar- og eftirlitshlutverki fyrir stjórn bankans, m.a. vegna mótunar og innleiðingar á áhættustefnu og áhættuvilja bankans. Verkefni áhættunefndar stjórnar ná til móðurfélagsins, dótturfélaga þess og samstæðunnar í heild sinni.

Erindisbréf (pdf)

Stjórnarhátta- og mannauðsnefnd

Stjórnarhátta- og mannauðsnefnd sem skipuð er þremur stjórnarmönnum aðstoðar stjórn bankans við að fylgjast með þróun og meta reglulega nálgun bankans í góðum stjórnarháttum og árangur stjórnarmanna.

Frekari upplýsingar um hlutverk og ábyrgð undirnefnda stjórnar má finna í kafla um stjórnarhætti í ársskýrslu bankans.

Erindisbréf (pdf)

Hæfismat stjórnar


Allir stjórnarmenn Íslandsbanka hafa staðist sérstakt hæfismat, sem allir stjórnarmenn félaga sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins verða að undirgangast.

Þetta ferli var innleitt af Fjármálaeftirlitinu til þess að styrkja eftirfylgni með lögum og reglum um hæfi stjórnarmanna og til þess að gera þá meðvitaða um þá ábyrgð og þekkingu sem krafist er af þeim sem stjórnarmönnum. Fjármálaeftirlitið hefur skipað ráðgefandi nefnd sem boðar stjórnarmenn til viðtals til að kanna og meta þekkingu þeirra og skoðanir á málefnum sem tengjast starfsemi bankans sem og ábyrgð þeirra sem stjórnarmanna.

Starfsreglur stjórnar


Starfsreglur stjórnar eru settar á grundvelli 70. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.