Samkeppni og eign­ar­hlutir

Hér er hægt að lesa sér til um samkeppnisréttaráætlun Íslandsbanka, eignarhluti og sáttir.

Eign­ar­hlutir


Íslandsbanka er heimilt samkvæmt 22. gr. laga nr. 161 frá 2002 að yfirtaka tímabundið eignarhluti í fyrirtækjum í óskyldum rekstri vegna endurskipulagningar þeirra eða til fullnustu kröfu. 

Íslandsbanki á nú enga eignarhluti í óskyldum rekstri skv. skilgreiningu ofangreindra laga.

Íslandsbanki á 30,1% hlut í Reiknistofu Bankanna hf. sem ekki telst starfsemi í óskyldum rekstri. Samkvæmt sátt Íslandsbanka, sem og annarra hluthafa Reiknistofu Bankanna, við Samkeppniseftirlitið nr. 14/2012 skal Íslandsbanki bjóða til sölu eignarhluti í Reiknistofu Bankanna þar til þriðjungur eignarhluta Íslandsbanka í Reiknistofu Bankanna hefur verið seldur.

Íslandsbanki hefur ákveðið að bjóða til sölu þriðjung af eignarhluti sínum eða 10% hlut. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka í gegnum netfangið fyrirtaekjaradgjof@islandsbanki.is.

Samkeppn­is­réttaráætlun


1. Stefnuyfirlýsing og gildissvið

Stjórn Íslandsbanka samþykkir eftirfarandi samkeppnisréttaráætlun fyrir bankann og dótturfélög hans. Það er stefna bankans að ástunda virka samkeppni á þeim mörkuðum sem hann starfar og starfsemin samrýmist þeim skyldum sem leiða af samkeppnislögum á hverjum tíma. Framkvæmdastjórn Íslandsbanka ber ábyrgð á innleiðingu stefnunnar.

2. Markmið og tilgangur samkeppnisréttaráætlunar

Markmið samkeppnisréttaráætlunarinnar er að starfsmenn bankans þekki og fylgi samkeppnislögum og með viðeigandi þekkingu og markvissri fylgni við áætlunina sé komið í veg fyrir hugsanleg samkeppnislagabrot í starfseminni. Tilgangur áætlunarinnar er að vandað og raunhæft mat á áhættu af samkeppnislagabrotum í starfseminni sé framkvæmt með reglubundnum hætti og að allir starfsmenn bankans séu vel upplýstir um viðkomandi áhættuþætti hvað þeirra starfssvið varðar. Þannig séu starfsmenn í stakk búnir til þess að taka viðeigandi skref til þess að tryggja fylgni við samkeppnisréttaráætlun bankans. Með skipulegri fræðslu öðlist starfsmenn viðeigandi þekkingu um þær reglur sem gilda um samkeppni fyrirtækja á markaði og virðing við reglur samkeppnislaga myndi þannig órjúfanlegan hluta fyrirtækjamenningar bankans.

3. Mat á áhættu

Framkvæma skal heildstætt mat á því hvar í starfsemi bankans hætta á samkeppnislagabrotum er einna helst fyrir hendi og greint hvar sú áhætta er lítil og mikil. Dæmi um starfssvið þar sem áhættan er mikil er svið þar sem starfsmenn eru í samskiptum við keppinauta en áhættan er til dæmis lág hjá starfsmönnum í bakvinnslu. Við framkvæmd áhættumats skal taka sérstakt tillit til stöðu bankans og keppinauta hans á viðkomandi markaði hverju sinni og mögulegum aðgangshindrunum á viðkomandi mörkuðum. Gerð og framkvæmd áhættumats er á ábyrgð umsjónaraðila samkeppnisréttaráætlunar. Slíkt áhættumat er lagt til grundvallar við mat Regluvörslu á hlítingaráhættu þar sem samkeppnislög eru ávallt hluti af áhættuflokkum hlítingaráhættu. Niðurstöður áhættumatsins skulu kynntar framkvæmdastjórn bankans af umsjónaraðila samkeppnisréttaráætlunar. Niðurstöðurnar skulu vera grunnur endurskoðunar á fræðsluþörf og leiðbeiningum til starfsmanna í tengslum við samkeppnismál. Framangreint mat skal framkvæmt árlega og aðlagað til að endurspegla breytingar í starfseminni.

4. Umsjón og framkvæmd samkeppnisréttaráætlunar

Umsjónaraðili samkeppnisréttaráætlunar hefur umsjón með og ber ábyrgð á framkvæmd samkeppnisréttaráætlunar. Forstöðumaður á sviði stjórnarhátta og innri mála, lögfræðideild, er umsjónaraðili samkeppnisréttaráætlunar eða í umboði hans staðgengill á því sviði. Hlutverk umsjónaraðilans er að vera stjórnendum og starfsmönnum til stuðnings og ráðgjafar varðandi álitaefni sem upp kunna að koma í tengslum við áætlun þessa. Helstu verkefni umsjónaraðila eru eftirfarandi: - Fræðsla skv. 5. gr. áætlunar þessarar. - Samskipti við Samkeppniseftirlitið fyrir hönd bankans og gagnaöflun vegna slíkra samskipta í samstarfi við viðeigandi svið bankans hverju sinni. - Samskipti við óháða kunnáttumenn sem tilnefndir eru til eftirlits með framfylgni sátta sem bankinn hefur gert við Samkeppniseftirlitið, fyrir hönd bankans. - Ráðgjöf og leiðbeining til starfsmanna um samkeppnisréttarleg málefni, þ. á m. varðandi uppfyllingu skilyrða sátta sem bankinn hefur gert við Samkeppniseftirlitið, samskipti við keppinauta, yfirtökur og samruna. - Mat á niðurstöðum áhættumats skv. 3. gr. m.t.t. áherslna í fræðslu um samkeppnismál til starfsmanna í samstarfi við Regluvörslu. - Sjá til þess að innan bankans séu til staðar uppfærðar upplýsingar um ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins og þær skyldur sem á bankanum hvíla vegna þeirra. - Gæta að sjónarmiðum er varða samkeppnismál í tengslum við vörustjórnunarferli bankans. - Upplýsa yfirlögfræðing, framkvæmdastjóra áhættustýringar, regluvörð og bankastjóra þegar í stað ef grunur vaknar um að alvarleg brot á samkeppnislögum hafi átt sér stað í starfseminni. - Úrvinnsla tilkynninga frá Regluvörslu vegna hlítingaráhættu vegna samkeppnislaga.

Umsjónaraðili samkeppnisréttaráætlunar skal gefa framkvæmdastjórn skýrslu um framkvæmd áætlunarinnar fyrir lok maí ár hvert.

5. Fræðsla

Stjórn bankans leggur áherslu á að allir starfsmenn bankans þekki samkeppnisréttaráætlun bankans og hafi viðeigandi þekkingu á reglum samkeppnislaga og hættu á mögulegum samkeppnislagabrotum í starfseminni. Til að gera starfsmönnum grein fyrir mikilvægi þess að fylgja samkeppnislögum og tryggja fylgni við samkeppnisréttaráætlun bankans skulu stjórnendur og allir starfsmenn fá nauðsynlega fræðslu og þjálfun í reglum samkeppnislaga og hættu á brotum í starfseminni.

Fræðsla samkvæmt áætlun þessari skal fela í sér:

  • Almenna fræðslu um reglur samkeppnislaga og samkeppnisréttaráætlun bankans á kynningum fyrir nýja fastráðna starfsmenn.
  • Almenna reglubundna fræðslu um reglur samkeppnislaga, samkeppnisréttaráætlun bankans og skyldur og ábyrgð starfsmanna í samkeppnismálum fyrir viðeigandi starfsmenn.
  • Sérsniðna fræðslu fyrir viðeigandi starfsmenn einstakra sviða bankans um samkeppnismál þar sem lögð er sérstök áhersla á leiðbeiningar til að koma í veg fyrir samkeppnislagabrot í starfseminni.
  • Fræðsla fyrir viðeigandi starfsmenn bankans um gildandi sáttir sem bankinn hefur gert við Samkeppniseftirlitið, skv. 17. gr. a samkeppnislaga og þau skilyrði sem bankinn hefur undirgengist í því skyni.

Umsjónaraðili samkeppnisréttaráætlunar ber ábyrgð á fræðslu skv. þessari samkeppnisréttaráætlun og heldur skrá yfir veitta fræðslu sem viðeigandi starfsmenn staðfesta með undirritun sinni um að þeir hafi setið tiltekna fræðslu í hvert sinn.

6. Verklag

Almennar leiðbeiningar fyrir starfsmenn þar sem kveðið er á um helstu reglur samkeppnislaga sem hafa þýðingu fyrir starfsemi bankans skulu gerðar aðgengilegar fyrir starfsmenn á innraneti bankans. Leiðbeiningarnar skulu m.a. kveða á um gildissvið samkeppnislaga, viðurlög við samkeppnislagabrotum og samskipti við keppinauta.

7. Ferli við tilkynningu mögulegra samkeppnislagabrota

Til þess að styðja við fylgni við samkeppnisréttaráætlun þessa er mikilvægt að til staðar sé skilvirkt ferli við tilkynningu á mögulegum samkeppnislagabrotum. Verði starfsmaður var við háttsemi eða samskipti sem gætu falið í sér brot á samkeppnislögum skal viðkomandi upplýsa um slíkt athæfi án tafar með því að senda inn ábendingu í gegnum rafrænt tilkynningakerfi á innraneti bankans. Umsjónaraðili samkeppnisréttaráætlunar skal bregðast skjótt við og framkvæma nauðsynlega athugun í tilefni af tilkynningu/ábendingu skv. framangreindu. Umsjónaraðili skal hafa aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum við athugun mögulegs brots. Sé grunur um mögulegt brot að athugun lokinni skal yfirlögfræðingi, framkvæmdastjóra áhættustýringar, regluverði og bankastjóra gerð grein fyrir niðurstöðum hennar sem svo meta út frá umfangi og eðli málsins hvort ástæða sé til frekari aðgerða, s.s. aðkomu stjórnar bankans og/eða Samkeppniseftirlitsins. Sé ábending þess eðlis að minnsti grunur leiki á um að um alvarlegt brot á samkeppnislögum og samkeppnisréttaráætlun sé að ræða skal upplýsa yfirlögfræðing, framkvæmdastjóra áhættustýringar, regluvörð og bankastjóra þegar í stað.

8. Afleiðingar brota gegn samkeppnislögum

Með því að tileinka sér góða viðskiptahætti í samræmi við áætlun þessa og samkeppnisreglur getur bankinn komið í veg fyrir eða takmarkað verulega hættuna á þeim alvarlegu afleiðingum sem brot á samkeppnislögum geta haft í för með sér. Brot gegn samkeppnislögum sporna gegn heilbrigðri samkeppni og valda neytendum tjóni. Þá geta brot gegn lögunum skaðað orðspor bankans og valdið honum miklu fjárhagstjóni. Verði starfsmaður uppvís að því að brjóta gegn samkeppnislögum í störfum sínum af ásetningi eða stórfelldu gáleysi varðar það viðurlögum í starfi, auk þess sem því kann að fylgja ábyrgð samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga.

9. Eftirlit og endurskoðun

Skal samkeppnisréttaráætlun þessi vera endurskoðuð árlega. Upp kunna að koma aðstæður sem valda því að endurskoða þurfi hana að styttri tíma liðnum. Regluvarsla ber ábyrgð á eftirliti með fylgni við stefnu þessa og skal gera grein fyrir því í skýrslu sinni til stjórnar.

10. Gildistaka og birting

Samkeppnisréttaráætlun þessi skal taka gildi 7. júní 2018 og skal vera birt á heimasíðu bankans www.islandsbanki.is.

Sáttir


Íslandsbanki og Samkeppniseftirlitið hafa gert með sér eftirfarandi sáttir í samræmi við 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Ákvæðið kveður á um að hafi fyrirtæki gerst brotlegt við ákvæði laganna sé Samkeppniseftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt. Í 22. gr. reglna um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins nr. 880/2005 segir að Samkeppniseftirlitinu sé heimilt á öllum stigum máls að ljúka því með sátt. Jafnframt hefur Samkeppniseftirlitið veitt Íslandsbanka undanþágu frá ákvæðum 10. og 12. gr. með ákvörðun á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga.

Undanþágubeiðni vegna starfsemi Reiknistofu Bankanna hf. og samruni við Teris

2. júlí 2012

Með ákvörðun nr. 14/2012 gerði Reiknistofa Bankanna og allir hluthafar hennar, þar á meðal Íslandsbanki hf., sátt við Samkeppniseftirlitið. Með sáttinni undirgengust aðilar ítarleg skilyrði sem eiga að tryggja virkari samkeppni á fjármálamarkaði. Jafnframt eiga skilyrðin að tryggja að önnur upplýsingatæknifyrirtæki geti boðið fjármálafyrirtækjum þjónustu sína í samkeppni við Reiknistofu Bankanna.

Verklagsreglur um framkvæmd útboða og verðkannana vegna kaupa Íslandsbanka á upplýsingatækniþjónustu

Breytingar á skipulagi og framkvæmd á greiðslukortamarkaði

30. apríl 2015

Með ákvörðun nr. 8/2015 gerðu Íslandsbanki hf. og Samkeppniseftirlitið með sér sátt til breytingar á skipulagi og framkvæmd á greiðslukortamarkaði. Með sáttinni féllst Íslandsbanki á að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir sem eru til þess fallnar að efla samkeppni. Megintilgangur sáttarinnar er að stuðla að aukinni hagkvæmni í greiðslukortaþjónustu með því að skapa grundvöll fyrir sterkara aðhald viðskiptavina, að stuðla að samkeppnislegu jafnræði keppinauta á sviði færsluhirðingar og greiðslukortaútgáfu, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum í starfsemi fjármálafyrirtækja á greiðslukortamarkaði og að öðru leyti stuðla að virkari samkeppni á sviði kortaútgáfu og færsluhirðingar.

Framsal Glitnis hf. á 95% hlutafjár Íslandsbanka hf. til ríkissjóðs Íslands

11. mars 2016

Með ákvörðun nr. 9/2016 heimilaði Samkeppniseftirlitið yfirtöku íslenska ríkisins á Íslandsbanka hf. Eftir yfirtöku Ríkissjóðs Íslands á hlut Glitnis hf. í Íslandsbanka hf. fer Bankasýsla ríkisins með allan eignarhlut í bankanum, jafnframt því sem Bankasýslan fer með 98,2% eignarhlut í Landsbankanum og 49,5% hlut í Sparisjóði Austurlands. Með sáttinni hafa stjórnvöld nú skuldbundið sig til þess að fylgja reglum og grípa til aðgerða sem stuðla að því að bankarnir verði reknir sem sjálfstæðir keppinautar. Íslandsbanki hf. hefur einnig skuldbundið sig til þess að fylgja skilyrðum sem ætlað er að koma í veg fyrir að hið sameiginlega eignarhald hafi skaðleg áhrif á samkeppni.

 

Aðgerðir til að efla samkeppni í almennri viðskiptabankaþjónustu við einstaklinga og lítil fyrirtæki, ákvörðun nr. 25/2017

4. júlí 2017

Með ákvörðun nr. 25/2017 gerðu Íslandsbanki hf. og Samkeppniseftirlitið með sér sátt til þess að efla samkeppni í almennri viðskiptabankaþjónustu. Þær aðgerðir sem kveðið er á um í sáttinni miða einkum að því að draga úr kostnaði sem viðskiptavinir verða fyrir þegar skipt er um viðskiptabanka, stuðla að virkara samkeppnisaðhaldi af hálfu einstaklinga og lítilla fyrirtækja með þeim sem veita viðskiptabankaþjónustu á Íslandi og vinna gegn aðstæðum sem rennt gætu stoðum undir þögla samhæfingu á markaði fyrir viðskiptabankaþjónustu.

Undanþága vegna stofnunar og reksturs sameiginlegs seðlavers

19. desember 2017

Með ákvörðun nr. 46/2017 veitti Samkeppniseftirlitið Íslandsbanka, Arion banka, Landsbankanum og Seðlabankanum undanþágu til stofnunar og reksturs sameiginlegs seðlavers gegn ákveðnum skilyrðum sem fram koma í sáttinni. Skilyrðum sáttarinnar er m.a. ætlað að tryggja jafnt aðgengi allra bærra fjármálafyrirtækja að hinu sameiginlega seðlaveri, vinna gegn því að starfsemi félagsins skerði samkeppni á milli eigenda félagsins á markaði fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu, tryggja að sú hagræðing sem af sameiningu seðlaveranna leiðir viðhaldist til framtíðar og stuðla að því að hagræðingin komi öllum haghöfum til góða.