Samkeppni og eignarhlutir

Hér er hægt að lesa sér til um samkeppnisréttaráætlun Íslandsbanka, eignarhluti og sáttir.

Eignarhlutir


Íslandsbanka er heimilt samkvæmt 22. gr. laga nr. 161 frá 2002 að yfirtaka tímabundið eignarhluti í fyrirtækjum í óskyldum rekstri vegna endurskipulagningar þeirra eða til fullnustu kröfu. 

Íslandsbanki á hlut í einu félagi sem fellur undir skilgreiningu ofangreindra laga en um er að ræða 18,25% hlut í Bakkastakki slhf.

Íslandsbanki á 30,1% hlut í Reiknistofu Bankanna hf. sem ekki telst starfsemi í óskyldum rekstri. Samkvæmt sátt Íslandsbanka, sem og annarra hluthafa Reiknistofu Bankanna, við Samkeppniseftirlitið nr. 14/2012 skal Íslandsbanki bjóða til sölu eignarhluti í Reiknistofu Bankanna þar til þriðjungur eignarhluta Íslandsbanka í Reiknistofu Bankanna hefur verið seldur.

Íslandsbanki hefur ákveðið að bjóða til sölu þriðjung af eignarhluti sínum eða 10% hlut. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka í gegnum netfangið fyrirtaekjaradgjof@islandsbanki.is.

Samkeppnisréttaráætlun


Markmið samkeppnisréttaráætlunarinnar er að starfsmenn bankans þekki og fylgi samkeppnislögum og með viðeigandi þekkingu og markvissri fylgni við áætlunina sé komið í veg fyrir hugsanleg samkeppnislagabrot í starfseminni.

Lesa samkeppnisréttaráætlun

Sáttir


Íslandsbanki og Samkeppniseftirlitið hafa gert með sér eftirfarandi sáttir í samræmi við 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Ákvæðið kveður á um að hafi fyrirtæki gerst brotlegt við ákvæði laganna sé Samkeppniseftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt. Í 22. gr. reglna um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins nr. 880/2005 segir að Samkeppniseftirlitinu sé heimilt á öllum stigum máls að ljúka því með sátt. Jafnframt hefur Samkeppniseftirlitið veitt Íslandsbanka undanþágu frá ákvæðum 10. og 12. gr. með ákvörðun á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga.

Undanþágubeiðni vegna starfsemi Reiknistofu Bankanna hf. og samruni við Teris

2. júlí 2012

Með ákvörðun nr. 14/2012 gerði Reiknistofa Bankanna og allir hluthafar hennar, þar á meðal Íslandsbanki hf., sátt við Samkeppniseftirlitið. Með sáttinni undirgengust aðilar ítarleg skilyrði sem eiga að tryggja virkari samkeppni á fjármálamarkaði. Jafnframt eiga skilyrðin að tryggja að önnur upplýsingatæknifyrirtæki geti boðið fjármálafyrirtækjum þjónustu sína í samkeppni við Reiknistofu Bankanna.

Verklagsreglur um framkvæmd útboða og verðkannana vegna kaupa Íslandsbanka á upplýsingatækniþjónustu

Breytingar á skipulagi og framkvæmd á greiðslukortamarkaði

30. apríl 2015

Með ákvörðun nr. 8/2015 gerðu Íslandsbanki hf. og Samkeppniseftirlitið með sér sátt til breytingar á skipulagi og framkvæmd á greiðslukortamarkaði. Með sáttinni féllst Íslandsbanki á að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir sem eru til þess fallnar að efla samkeppni. Megintilgangur sáttarinnar er að stuðla að aukinni hagkvæmni í greiðslukortaþjónustu með því að skapa grundvöll fyrir sterkara aðhald viðskiptavina, að stuðla að samkeppnislegu jafnræði keppinauta á sviði færsluhirðingar og greiðslukortaútgáfu, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum í starfsemi fjármálafyrirtækja á greiðslukortamarkaði og að öðru leyti stuðla að virkari samkeppni á sviði kortaútgáfu og færsluhirðingar.

Framsal Glitnis hf. á 95% hlutafjár Íslandsbanka hf. til ríkissjóðs Íslands

11. mars 2016

Með ákvörðun nr. 9/2016 heimilaði Samkeppniseftirlitið yfirtöku íslenska ríkisins á Íslandsbanka hf. Eftir yfirtöku Ríkissjóðs Íslands á hlut Glitnis hf. í Íslandsbanka hf. fer Bankasýsla ríkisins með allan eignarhlut í bankanum, jafnframt því sem Bankasýslan fer með 98,2% eignarhlut í Landsbankanum og 49,5% hlut í Sparisjóði Austurlands. Með sáttinni hafa stjórnvöld nú skuldbundið sig til þess að fylgja reglum og grípa til aðgerða sem stuðla að því að bankarnir verði reknir sem sjálfstæðir keppinautar. Íslandsbanki hf. hefur einnig skuldbundið sig til þess að fylgja skilyrðum sem ætlað er að koma í veg fyrir að hið sameiginlega eignarhald hafi skaðleg áhrif á samkeppni.

 

Aðgerðir til að efla samkeppni í almennri viðskiptabankaþjónustu við einstaklinga og lítil fyrirtæki

4. júlí 2017

Með ákvörðun nr. 25/2017 gerðu Íslandsbanki hf. og Samkeppniseftirlitið með sér sátt til þess að efla samkeppni í almennri viðskiptabankaþjónustu. Þær aðgerðir sem kveðið er á um í sáttinni miða einkum að því að draga úr kostnaði sem viðskiptavinir verða fyrir þegar skipt er um viðskiptabanka, stuðla að virkara samkeppnisaðhaldi af hálfu einstaklinga og lítilla fyrirtækja með þeim sem veita viðskiptabankaþjónustu á Íslandi og vinna gegn aðstæðum sem rennt gætu stoðum undir þögla samhæfingu á markaði fyrir viðskiptabankaþjónustu.

Undanþága vegna stofnunar og reksturs sameiginlegs seðlavers

19. desember 2017

Með ákvörðun nr. 46/2017 veitti Samkeppniseftirlitið Íslandsbanka, Arion banka, Landsbankanum og Seðlabankanum undanþágu til stofnunar og reksturs sameiginlegs seðlavers gegn ákveðnum skilyrðum sem fram koma í sáttinni. Skilyrðum sáttarinnar er m.a. ætlað að tryggja jafnt aðgengi allra bærra fjármálafyrirtækja að hinu sameiginlega seðlaveri, vinna gegn því að starfsemi félagsins skerði samkeppni á milli eigenda félagsins á markaði fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu, tryggja að sú hagræðing sem af sameiningu seðlaveranna leiðir viðhaldist til framtíðar og stuðla að því að hagræðingin komi öllum haghöfum til góða.