Fráfall

Á þessari síðu finnur þú upplýsingar um atriði sem tengjast meðferð á dánarbúum.

Ferlið


Við andlát lýkur skattskyldu einstaklings og til verður sérstakur lögaðili, dánarbú, sem tekur við öllum eignum og skuldum hins látna.


Fyrsta skrefið í skiptingu dánarbús er að tilkynna sýslumanni um andlátið í því umdæmi þar sem hinn látni bjó. Afhenda þarf sýslumanni dánarvottorð og sýslumaður gefur út leyfi og umboð sem eru nauðsynleg fyrir frágang á dánarbúum. Algengasta meðferð dánarbúa eru einkaskipti en sýslumaður getur einnig gefið út leyfi til setu í óskiptu búi og þá er það eftirlifandi maki sem fer með forræði dánarbúsins. Oft er gefið út bráðabirgðaleyfi til úttekta vegna útfararkostnaðar o.þ.h. Sá sem hefur fengið slíkt leyfi þarf að framvísa reikningum vegna útfararkostnaðar til að fá þá greidda.

Mikilvægt er fyrir erfingja/eftirlifandi maka að fá eftirfarandi upplýsingar hjá bankanum:

  • Allar innstæður, þ.m.t. lífeyrissparnað
  • Verðbréfaeignir á vörslureikningum
  • Allar skuldir
  • Allar ábyrgðir og lánsveð
  • Tilvist bankahólfs

Til þess að fá þær upplýsingar er hægt að hafa samband með því að senda tölvupóst, bóka símtal, eða gegnum netspjallið. Gæta þarf þess að framvísa leyfi (staðfestingu) sýslumanns og sanna á sér deili til að hægt sé að veita upplýsingar um fjármál dánarbús. Einnig er hægt að bóka tíma með ráðgjafa.

Frekari upplýsingar um ferlið má finna á síðu sýslumanns

Hvað geri ég næst?

    Tilkynning

    Tilkynning andláts og dánarvottorð

    Tilkynna þarf andlát til sýslumanns. Við tilkynningu andláts þarf að hafa meðferðis dánarvottorð, sem fengið er á sjúkrahúsi þar sem hinn látni lést eða frá lækni sem annaðist hinn látna.

    Sýslumaður gefur út vottorð um að andlát hafi verið tilkynnt og er vottorðið afhent tilkynnanda. Vottorð er síðan afhent presti eða öðrum þeim sem annast útför hins látna.

    Sýslumaður

    Meðferð eigna

    Eftir andlát má ekki hreyfa við inneignum, sem sá látni lætur eftir sig á bankareikningum, nema með heimild sýslumanns. Öll umboð sem hinn látni hefur gefið öðrum til úttekta falla niður við andlát hans. Hægt er að leita til sýslumanns til að fá sérstaka skriflega heimild til úttektar af bankareikningi á nafni þess látna til að greiða útfararkostnað

    Umboð

    Erfingi getur, ef hann svo kýs, veitt öðrum aðila umboð til að koma fram fyrir sína hönd við þær aðgerðir sem þörf er á við skipti á dánarbúi. Tveir eða fleiri erfingjar geta haft sama umboðsmann ef þeir vilja.

    Dánarbú

    Sýslumaður gefur út leyfi til einkaskipta, opinberra skipta eða leyfi til setu í óskiptu búi. Erfingjar eða umboðsmenn dánarbúsins geta þá sinnt fjármálunum og gengið formlega frá skiptum á dánarbúinu. Yfirleitt er gefinn út tiltekinn frestur til þess.

    Ljúka frágangi

    Ljúka frágangi mála

    Ganga þarf formlega frá skiptum á dánarbúi innan tiltekinna fresta frá andláti, sem eru þó mislangir eftir því hvernig atvik þróast. Í meginatriðum verður leitað til sýslumanns til að ljúka máli, en það verður þá nánar tiltekið gert hjá sýslumanninum í umdæminu, þar sem sá látni átti síðast lögheimili samkvæmt þjóðskrá.

    Frekari upplýsingar

    Frekari upplýsingar

    Við sýslumannsembættin er hægt að fá nánari upplýsingar um það sem þarf að gera til að ljúka frágangi mála við skipti á dánarbúi. Erfingjar geta hins vegar ekki reiknað með að fá þar frekari aðstoð, til dæmis við skjalagerð eða framkvæmd aðgerða við einkaskipti. Til slíkra þarfa verður því að leita annað, til dæmis til lögmanns.

    Hér má finna nánari lýsingu á ferlinu í leiðbeiningum frá Sýslumanni

Verðbréfaeignir á vörslureikningum


Sá sem hefur umboð f.h. erfingja getur ráðstafað verðbréfaeignum. Gegn skriflegri beiðni umboðsmanns er heimilt að framkvæma flutning á verðbréfum fyrir lok dánarbússkipta. Ef erfingi/erfingjar/eftirlifandi maki er ekki með vörslureikning þá þarf að stofna slíkan reikning áður en verðbréfaeign er færð yfir á eftirlifandi maka eða ráðstafað samkvæmt beiðni.

Ráðstöfun og útborgun á séreignarsparnaði


Séreignarsparnaður erfist að fullu og af honum er ekki greiddur erfðafjárskattur. Inneign fellur til erfingja hins látna og skiptist á milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Fylla þarf út umsókn um ráðstöfun á séreignarsparnaði vegna fráfalls sem snýr að skiptingu inneignar milli erfingja. Þegar búið er að ráðstafa inneigninni á milli erfingja geta allir erfingjar 18 ára og eldri með rafræn skilríki sjálfir sótt um útborgun á séreignarsparnaði vegna fráfalls á sjóðfélagavef Framtíðarauðs. Það er einnig hægt að fylla út umsókn um útborgun á séreignarsparnaði vegna fráfalls og skila inn í næsta útibú Íslandsbanka. Útborgun á séreignarsparnaði vegna fráfalls er skattlögð samkvæmt lögum um tekjuskatt.

Bankahólf

Bankinn veitir upplýsingar um tilvist bankahólfs gegn leyfi sýslumanns til upplýsingaöflunar. Þegar gefið hefur verið út leyfi til einkaskipta eða dánarbúið verið tekið til opinberra skipta getur skiptastjóri eða sá sem hefur umboð erfingja fengið aðgang að hólfinu. Hið sama gildir um maka sem hefur fengið leyfi til setu í óskiptu búi.

    Umboðshafar

    Öll umboð sem hinn látni hefur gefið öðrum til úttekta falla niður við andlát hans, þetta tekur einnig til aðgangs að netbanka.

      Úttektarheimildir


      Með beiðnum um greiðslur og úttektir þarf að framvísa staðfestingu frá viðkomandi sýslumanni um hver hefur úttektarheimild og að hvaða marki. Þeir sem hafa forræði yfir dánarbúi hafa einir heimild til úttekta. Það þarf ávallt að sanna forræði sitt á dánarbúinu með því að framvísa leyfi frá sýslumanni, auk þess að sanna á sér deili með skilríkjum.

      Greiðsluþjónusta og greiðslukort


      Við andlát er greiðsluþjónustu, beingreiðslum, reglulegum millifærslum og greiðslukortum hins látna lokað. Þetta þýðir að ógreiddir reikningar skuldfærast ekki lengur sjálfkrafa og því gott fyrir erfingja að fylgjast með hefðbundnum útgjöldum hins látna til að forðast vanskil á meðan gengið er frá leyfum hjá sýslumanni.

      Stuðningssamtök


      Hér má finna nánari upplýsingar sem gætu gagnast aðstandendum á þessum erfiðu tímum.

      Það getur verið gott að fá andlegan stuðning frá öðrum sem eru að ganga í gegnum sömu erfiðleika. Ljónshjarta er til staðar fyrir þá sem missa ástvin í blóma lífsins.

      Vefsíða Ljónshjarta

      Sorgarmiðstöð

      Bóka tíma í ráðgjöf


      Stundum er gott að tala við einhvern og fá ráðgjöf. Veldu dagsetningu og tíma sem hentar þér.

      Fyrirvari


      Íslandsbanki veitir ekki skattaráðgjöf. Skattlagning ræðst af aðstæðum hverju sinni og getur tekið breytingum í framtíðinni. Viðskiptavinum er bent á að leita sér utanaðkomandi skattaráðgjafar þegar við á.