Skipulagsskrá

Fyrir Frumkvöðlasjóð Íslandsbanka


1. gr. Heiti, heimili og varnarþing

Nafn sjóðsins er Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka, heimili sjóðsins og varnarþing er Hagasmári 3, 210 Kópavogur.

2. gr. Tilgangur

Tilgangur sjóðsins er að styrkja frumkvöðlaverkefni og nýsköpun í íslensku samfélagi sem hafa heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi.

3. gr. Umsjónaraðili

Íslandsbanki hf., kt.: 491008-0160, Hagasmári 3, 210 Kópavogur, er umsjónaraðili sjóðsins. Sjóðurinn var upphaflega stofnaður af Glitni banka hf., kt. 550500-3530.

4. gr. Stjórn sjóðsins

Umsjónaraðili kýs þrjá einstaklinga í stjórn sjóðsins til tveggja ára í senn, þar af skal einn vera formaður. Stjórnarstörf skulu ekki vera launuð. Stjórnin skiptir með sér verkum.

5. gr. Stofnfé og tekjur

Stofnfé sjóðsins er að fjárhæð kr. 10.000.000,- í reiðufé. Tekjur sjóðsins eru framlög umsjónaraðila og viðskiptavina hans til sjóðsins sem og ávöxtun af eignum sjóðsins.

6. gr. Fjárvarsla og ávöxtun sjóðsins

Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á að móta og taka ákvörðun um fjárfestingastefnu sjóðsins. Umsjónaraðili ber ábyrgð á fjárvörslu og eignastýringu sjóðsins hverju sinni. Ávöxtun stofnfjár verður á hverjum tíma samkvæmt ákvörðun stjórnar, þó ávallt með tilgang sjóðsins að leiðarljósi.

7. gr. Úthlutun

Sjóðstjórn skal úthluta fé árlega til verkefna. Heimilt er að úthluta fé oftar ef sérstakt tilefni gefst til. Stjórn getur einnig skipað sérstakar úthlutunarnefndir og veitt þeim fullt umboð til úthlutana. Stjórnin skal setja sér verklagsreglur um úthlutun styrkja.

8. gr. Endurskoðun

Starfsár og reikningsár stofnunarinnar er almanaksárið. Fyrsta reikningsár sjóðsins er frá stofnun hans til næstu áramóta. Reikningar sjóðsins skulu áritaðir af skoðunarmanni eða af endurskoðanda sem stjórn sjóðsins velur. Stjórn sjóðsins skal eigi síðar en 30. júní ár hvert senda Ríkisendurskoðun reikning sjóðsins fyrir næstliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé sjóðsins hefur verið ráðstafað á því ári.

9. gr. Breytingar á skipulagsskránni

Skipulagsskrá þessari verður breytt eða sjóðnum slitið með ákvörðun meirihluta stjórnar sem hljóti samþykki umsjónaraðila enda fái skipulagsskráin þannig breytt samþykki viðeigandi stjórnvalds.

10. gr. Staðfesting á skipulagsskrá

Um starfsemi sjóðsins gilda að öðru leyti ákvæði laga nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Leita skal staðfestingar á Norðurlandi vestra á skipulagsskrá þessari.

Við staðfestingu á skipulagsskrá þessari fellur úr gildi eldri skipulagsskrá nr. 875/2008 með síðari breytingu nr. 145/2012.