Sáttin við Seðlabanka Íslands - spurt og svarað frá hluthöfum


Spurningar frá hluthöfum sem hafa borist stjórn bankans í aðdraganda fyrirhugaðs hluthafafundar þann 28. júlí 2023, sem óskað hefur verið eftir að verði birtar hluthöfum fyrir fundinn.

Í 3. kafla samkomulagsins kemur fram að bankinn hafi ekki með fullnægjandi hætti uppfyllt kröfur laga um ráðstafanir vegna hagsmunaárekstra.

Í 4. kafla samkomulagsins er fjallað um eftirlitskerfi bankans með áhættuþáttum í starfsemi hans og hvernig þeim er beitt í framkvæmd. Það er niðurstaða fjármálaeftirlitsins að bankinn hafi ekki farið að ákvæðum laga við starfrækslu kerfisins.

Í 5. kafla samkomulagsins er fjallað um skort á skráningu og varðveislu símtala og annarra rafrænna samskipta. Sú tölfræði sem birtist í kaflanum er sláandi og umfjöllun um skort á úrbótum vegna athugasemda innri endurskoðanda og regluvarðar bera vott um mikið andvaraleysi stjórnenda og útbreiddan hegðunarvanda meðal starfsmanna.

Í 6. kafla samkomulagsins er fjallað um flokkun viðskiptavina. Af umfjölluninni má draga þær ályktanir að starfsmenn bankans hafi umgengist reglur sem ætlað er að tryggja neytendavernd af léttúð og sýnt af sér aga- og skeytingarleysi gagnvert hagsmunum þeirra.

Í 7. kafla samkomulagsins er fjallað um upplýsingagjöf til viðskiptavina. Af umfjölluninni virðist sem starfsmenn bankans hafi af ásetningi beitt blekkingum gagnvart viðskiptavinum bankans - seljendum og kaupendum í útboðinu.

Í 8. kafla samkomulagsins er fjallað um brot bankans á skyldum sínum til að starfa af heiðarleika, sanngirni og fagmennsku auk eðlilegra og heilbrigðra viðskiptahátta og venja. Þá er í 9. kafla fjallað um stjórnarhætti málsaðila með heildstæðum hætti. Niðurstöður þessa kafla bera stjórn og stjórnendum bankans dapurlegt vitni. Í ljósi þessa hafa fyrrverandi bankastjóri og undirmenn hans vikið úr störfum sínum og einsýnt að stjórn bankans sitji ekki áfram án þess að endurnýja umboð sitt hjá hluthöfum.

Af lestri samkomulagsins má draga þær ályktanir að staða regluvarðar hafi verið veik innan félagsins og að athugasemdir og ábendingar regluvörslu hafi ekki fengið það vægi sem ætla má að þær hefðu.