Sagan

Íslandsbanki er fyrirtæki með djúpar rætur í íslenskri atvinnusögu.


  1875

  Sparisjóður Álftaness

  Sparisjóður Álftaness var stofnaður árið 1875. Nafni hans var síðar breytt og sameinaðist hann Sparisjóði Hafnarfjarðar við stofnun hans árið 1902.

  1904

  Íslandsbanki

  Gamli Íslandsbanki var opnaður árið 1904, á upphafsári heimastjórnarinnar, og var fyrsti hlutafélagsbanki landsins. Hann lagði grunn að eflingu sjávarútvegs og varð lyftistöng fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf.

  1905

  Fiskveiðasjóður Íslands

  Fiskveiðasjóður Íslands var stofnaður árið 1905 til að efla fiskveiðar og útveg. Sjóðurinn lánaði fé til kaupa á skipum og veiðarfærum og studdi margvíslegar aðgerðir til að bæta fiskveiðarnar.

  Sparisjóður Arnarneshrepps

  Sparisjóður Arnarneshrepps var stofnaður en hann sameinaðist Sparisjóði Akureyrar (stofnuðum 1932) árið 1988 í Sparisjóð Akureyrar og Arnarneshrepps. Árið 1908 var sparisjóður Glæsibæjarhrepps stofnaður sem sameinaðist síðar Sparisjóði Arnarneshrepps og Akureyrar í Sparisjóð Norðlendinga.

  1930

  Útvegsbanki Íslands

  Útvegsbanki Íslands hf. var stofnaður í apríl 1930 og yfirtók eignir og skuldir gamla Íslandsbanka sem var lokað skömmu áður. Útvegsbankinn átti sérstaklega að styðja sjávarútveg, iðnað og verslun.

  1935

  Iðnlánasjóður

  Í kreppunni milli 1930 og 1940 var Iðnlánasjóður stofnaður til að renna stoðum undir innlendan iðnað. Hann átti að lána til kaupa á vélum og stærri áhöldum en veitti einnig rekstrarlán.

  1953

  Iðnaðarbanki Íslands

  Iðnaðarbanki Íslands hf. var opnaður árið 1953 og hafði það hlutverk að styðja við verksmiðjuiðnað í handiðn í landinu.

  1954

  Sparisjóður Kópavogs

  Sparisjóður Kópavogs var stofnaður árið 1954.

  1961

  Sparisjóður vélstjóra

  Sparisjóður vélstjóra var stofnaður árið 1961.

  Verzlunarbanki Íslands

  Vegur verslunar jókst eftir því sem leið á 20. öldina og var Verzlunarbanki Íslands stofnaður árið 1961 að frumkvæði íslenskra kaupmanna.

  1971

  Iðnþróunarsjóður Íslands

  Árið 1970 ákváðu ríkisstjórnir Norðurlanda að stofna iðnþróunarsjóð fyrir Ísland til að auðvelda íslenskum iðnaði að aðlagast nýjum markaðsaðstæðum í kjölfar aðildar að EFTA.

  Alþýðubankinn

  Íslenskt verkafólk eignaðist eigin banka árið 1971 þegar Alþýðubankinn hf. var opnaður. Markmið bankans var meðal annars að treysta atvinnuöryggi launafólks og efla atvinnuþróun.

  1980

  Kreditkort

  Nokkrir frumkvöðlar tóku sig saman og stofnuðu fyrsta greiðslukortafyrirtæki á Íslandi, Kreditkort hf. Fyrstu útgefnu kortin voru Eurocard kort sem að síðar breyttust í Mastercard en fyrirtækið hefur ávallt verið leiðandi á markaði.

  1990

  Íslandsbanki

  Tímamót urðu í fjármálalífi Íslendinga í ársbyrjun 1990 þegar stærsti einkabanki landsins leit dagsins ljós. Íslandsbanki hf. varð til við sameiningu Alþýðubanka, Iðnaðarbanka, Útvegsbanka og Verzlunarbanka.

  1997

  Sparisjóður Norðlendinga

  Sparisjóður Norðlendinga var stofnaður við sameiningu Sparisjóðs Glæsibæjarhrepps og Sparisjóðs Arnarneshrepps og Akureyrar.

  1998

  FBA

  Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. hóf starfsemi sína árið 1998. Hann tók við starfsemi Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Markmiðið með stofnun FBA var að styrkja stoðir fjármálamarkaðarins og draga úr eignarhaldi ríkisins.

  2000

  Íslandsbanki og FBA

  Árið 2000 sameinuðust Íslandsbanki og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins. Með samrunanum varð til öflugasta fyrirtækið á íslenskum fjármálamarkaði og leiðandi afl í viðskiptalífinu.

  2001

  Íslandsbanki

  Nafnið Íslandsbanki var tekið upp fyrir starfsemi bankans í heild árið 2001. Íslandsbanki var í fararbroddi við að innleiða nýjungar á íslenskum fjármálamarkaði. Í kjölfarið kaupir Íslandsbanki Sjóvá — Almennar tryggingar.

  2004

  Alþjóðlegur vöxtur

  Íslandsbanki hóf sókn á erlenda markaði árið 2004 með kaupum á Kreditbanken í Noregi. Starfsemin erlendis óx á næstu árum m.a. í Noregi og Svíþjóð. Opnaðar voru skrifstofur eða útibú í London, Kaupmannahöfn og víðar.

  2006

  Glitnir

  Íslandsbanki varð Glitnir árið 2006 og var bankinn með starfsemi víða um heim, t.d. á Norðurlöndum, í Bretlandi, Lúxemborg, Kína og Bandaríkjunum. Bankinn stækkaði ört ásamt íslenska bankakerfinu í heild. Bankinn seldi Sjóvá — Almennar tryggingar.

  2007

  Byr sparisjóður

  Sparisjóður Hafnarfjarðar og Sparisjóður vélstjóra sameinuðust árið 2006 og árið 2007 var nafninu breytt í Byr Sparisjóður. Árið 2007 sameinaðist Sparisjóður Kópavogs við Byr og ári síðar sameinaðist Sparisjóður Norðlendinga sömuleiðis við Byr.

  2008

  Nýr banki verður til

  Nýr Glitnir var stofnaður í nóvember 2008. Öll innlend starfsemi fluttist úr gamla bankanum í þann nýja og var bankinn í fullri eign íslenska ríkisins. Birna Einarsdóttir varð bankastjóri nýja bankans.

  2009

  Íslandsbanki

  Nýi Glitnir varð Íslandsbanki í febrúar 2009. Íslandsbanki var í fararbroddi við að bjóða úrlausnir til fyrirtækja og einstaklinga vegna fjárhagsvanda og fyrsti íslenski bankinn til að ljúka samningum við kröfuhafa á eins árs afmæli sínu. Ný stjórn var skipuð reynslumiklum erlendum og íslenskum sérfræðingum og var Birna Einarsdóttir áfram bankastjóri.

  2011

  Íslandsbanki og Byr sameinast

  Íslandsbanki keypti Byr hf. og bankarnir sameinuðust undir merkjum Íslandsbanka í lok árs 2011. Sameinaður banki byggði annars vegar á ríkri sögu sparisjóða á Íslandi og hins vegar sögu gamla Íslandsbanka frá 1904.

  Kreditkort

  Kreditkort var stofnað árið 1980 og var fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem bauð upp á kreditkort. Fyrirtækið varð sjálfstæður kortaútgefandi árið 2008, þegar fyrirrennara þess var skipt upp í Kreditkort og Borgun. Árið 2011 keypti Íslandsbanki Kreditkort.

  2013

  Auður Capital og Íslandsbanki

  Auður Capital og Íslandsbanki komust að samkomulagi um að sameina séreignarsparnaðarvörur sínar, FramtíðarAuði og Lífeyrissparnað Íslandsbanka, undir heitinu Framtíðarauður VÍB. Sjóðfélagar í Framtíðarauði VÍB urðu um 15.800 talsins eftir sameininguna.