Ávarp bankastjóraVið getum verið stolt af árangri Íslandsbanka á árinu 2022. Rekstur bankans er traustur og við höfum náð að halda kostnaði í skefjum þrátt fyrir verðlagshækkanir. Gæði eigna eru mikil og lánasafn bankans gott. Íslenskt efnahagslíf heldur áfram að vera þróttmikið á umbrotatímum og bankinn mikilvægt hreyfiafl á slíkum tímum. 

Erum í fararbroddi 

Bankinn leggur sig fram um að vera í fararbroddi í notkun nýjustu tækni, en stafrænir ferlar bankans eru leiðandi á evrópskan mælikvarða. Þannig tók vörusala og þjónusta bankans stakkaskiptum þegar bankinn kynnti til leiks nýjan söluvef fyrir vörur sínar, þar sem viðskiptavinir gátu með einni auðkenningu hafið viðskipti með innlána-, kredit- og útlánavörur bankans. Þá var Íslandsbanki fyrstur til að innleiða Google Pay sem greiðslulausn á íslenskum markaði. Við kynntum einnig sjálfbæran sparnaðarreikning fyrir einstaklinga á árinu og fyrsta alstafræna innlánareikninginn, Ávöxtun. Við höfum fundið fyrir miklum áhuga á Ávöxtun og hafa innlán þar margfaldast frá því við hófum markaðsstarf. 

Hugbúnaðarþróun Íslandsbanka í Varsjá hóf fulla starfsemi á síðasta ári og við sjáum aukinn slagkraft með þeirri einingu sem styður við Upplýsingatæknisvið bankans. Á árinu 2023 verður stafræn áhersla Íslandsbanka á nýtingu gagna til ákvarðanatöku og aukna sjálfsafgreiðslu á sviði útlána og í þjónustu við fyrirtæki. Með auknu samstarfi sviða og með aukinni nýtingu gagna sjáum við mikil tækifæri í stafrænni en persónulegri þjónustu.  

Staða bankans er sterk 

Innlán eru stærsti einstaki fjármögnunarþáttur bankans og héldu þau áfram að vaxa á árinu. Bankinn fjármagnar sig jafnframt með útgáfu skráðra skuldabréfa hér heima sem og á erlendum mörkuðum. Í kjölfar stríðsátaka í Úkraínu, aukinnar verðbólgu og versnandi efnahagsástands í heiminum versnuðu aðstæður á erlendum skuldabréfamörkuðum til muna og hafa þær ekki verið jafn krefjandi í áratugi. Bankinn sýndi engu að síður styrk sinn og náði að dreifa heildsölufjármögnun sinni enn frekar meðal annars með sinni fyrstu útgáfu á sértryggðum skuldabréfum í evrum, með lántöku frá Norræna fjárfestingarbankanum (NIB) og með sinni fyrstu útgáfu á víkjandi skuldabréfum í íslenskum krónum. 

Við fögnuðum ýmsum sigrum stórum sem smáum á árinu. Lok sölu Símans á Mílu til Ardian France SA var stór áfangi fyrir okkur því þar var Íslandsbanki í lykilhlutverki. Það gekk vel í fjárfestingarbankastarfsemi og var salan stærsta verkefni bankans á árinu og endurspeglaði hún getu bankans til að leiða og samþætta fjölþætt verkefni, því um var að ræða einu stærstu erlendu fjárfestingu sem átt hefur séð stað á Íslandi um árabil. 

Á árinu var mikill vöxtur í húsnæðislánum hjá Íslandsbanka. Raunar merktum við mikinn þrótt og eftirspurn eftir nýjum lánum jafnt hjá öllum sviðum bankans og hjá Ergo, fjármögnunarþjónustu bankans. Yfir árið jukust ný útlán til viðskiptavina bankans um 9,2%, en í þeirri aukningu vega húsnæðislán, lán til ferðaþjónustu og framkvæmdafjármögnun þyngst. Eins var vöxtur innlána kraftmikill, eða um 6%, og hafa innlán bankans þá vaxið um 28% frá árslokum 2019.  

Á árinu lögðum við líka áherslu á að hækka hlutfall UFS áhættumetinnar útlánaáhættu úr 34% í 70%, en þá er horft til lána til stærri fyrirtækja, en ekki einstaklinga. UFS stendur fyrir umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti. Þessu markmiði náðum við á árinu. 

Markaðshlutdeild Íslandsbanka í þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki hefur í gegnum árin endurspeglað sterka stöðu bankans á því sviði. Við hófum á árinu nýja herferð til kynningar á þjónustu okkar við lítil og meðalstór fyrirtæki undir yfirskriftinni „Þitt fyrirtæki í aðalhlutverki“ og vísum til þess hvernig árangur bankans og viðskiptavina hans fer saman.  

Á árinu gerðum við skipulagsbreytingar þar sem öll miðlun verðbréfa og ráðgjafar voru sameinuð á einn stað undir merkjum Verðbréfamiðlunar með það að markmiði að auka slagkraft bankans á verðbréfamarkaði og efla vöruþróun. Þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður hefur stórsókn bankans í Eignastýringu gengið vel og sjáum við stöðugt fleiri nýta sér þá þjónustu bankans.  

Við veittum fyrstu lánin í samstarfi við Fyrirtækjalánasjóð á vegum Íslandssjóða, sem uxu og juku umsvif sín á árinu. Áskrifendum í sjóðum fjölgaði um 25% og eru nú um 2.800, samanborið við 2.200 árið 2021. Sparnaður heimila hefur haldið áfram að aukast og hefur töluverður hluti af þeim sparnaði komið inn í sjóði, en eignir í stýringu Íslandssjóða hafa aldrei verið meiri. Rafræn viðskipti jukust um 7% á árinu hjá Íslandssjóðum, en nærri helmingur viðskipta fer nú fram í gegnum Íslandsbankaappið. Þá eru Íslandssjóðir leiðandi í ábyrgum fjárfestingum og voru tölur um fjármagnaðan útblástur þeirra í fyrsta sinn gefnar út á árinu.  

Leggjum áherslu á jafnréttismál 

Jafnréttismál í víðum skilningi skipta Íslandsbanka máli. Þar er undir jafnrétti kynjanna, þátttaka og aðgengi allra. Á árinu hafa sést fréttir af bakslagi í viðhorfi til minnihlutahópa. Við þurfum að vera á varðbergi og sporna gegn mögulegu bakslagi á sviði jafnréttismála – ekki bara þegar kemur að mannauði bankans heldur líka gagnvart viðskiptavinum og vöruframboði.  

Bankinn vinnur markvisst að því að auka þekkingu, færni og áhuga á fjármálum með því að bjóða upp á aðgengilega og áhugaverða fræðslu um fjármál. Hún er líka í boði á ensku, auk þess sem haldnir hafa verið sérstakir fræðslufundir fyrir flóttafólk. Þá var fræðslu beint sérstaklega að fólki á aldrinum 16 til 25 ára á fjarfundanámskeiði í byrjun ársins. Íslandsbanki leggur sig líka fram um þjónustu við innflytjendur og að hægt sé að nota bæði app og netbanka Íslandsbanka á ensku og pólsku.  

Eins hefur Íslandsbanki beitt sér fyrir því að auka hlut og áhuga kvenna á sviði fjárfestinga. Bankinn hlaut á árinu viðurkenningu Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu fjórða árið í röð sem var mikill heiður. Þetta hvetur okkur áfram á þeirri braut að hlúa að jafnréttismálum. Jafnframt var einstaklega ánægjulegt að sjá fullan sal gesta á fundi okkar um konur og fjármál. Bankinn hefur haldið reglulega fundi tengda jafnréttismálum síðan 2015 og hafa þeir verið sóttir af yfir tvö þúsund konum.  

Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka vann á árinu að því markmiði sínu að hvetja til nýsköpunar og þróunar og úthlutaði í byrjun desember 40 milljónum króna til 15 frumkvöðlaverkefna. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að verkefnin stuðli að þeim fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki hefur valið að leggja sérstaka áherslu á. Á undanförnum árum hefur sjóðurinn  styrkt margvísleg verkefni um 165 milljónir króna. 

Sjálfbærni er lykiláhersla 

Saga Íslandsbanka nær allt aftur til ársins 1875, en á upphafsárum starfseminnar átti bankinn meðal annars þátt í að efla sjávarútveg og var lyftistöng fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf. Bankinn hefur því frá upphafi verið hreyfiafl í samfélaginu og frá 2014 hefur sjálfbærni verið ein af stefnuáherslum bankans. Niðurstaða stefnumótunarvinnu árið 2019 setti svo sjálfbærni og jákvæð samfélagsáhrif sem hlutverk bankans; að vera hreyfiafl til góðra verka.  

Tengslin milli sjálfbærni og þjónustu eru að styrkjast og æ fleiri fyrirtæki hafa farið í naflaskoðun og gert breytingar til að þau geti, líkt og Íslandsbanki, verið hreyfiafl til góðra verka. Það skiptir máli að öll leggi sitt á vogarskálarnar en það gladdi okkur sérstaklega að sjá Íslandsbanka skara fram úr þegar horft er til sjálfbærnimála. Um 55% nefndu Íslandsbanka sem leiðandi á sviði sjálfbærni í könnun meðal 300 stærstu fyrirtækja landsins og sífellt fleiri fyrirtæki líta á þetta sem mikilvægan hlut í rekstrinum.  

Áhugi viðskiptavina á sjálfbærnivörum sést víða í bankanum. Könnun Gallup í byrjun árs sýnir þetta greinilega. Spurt var hvort það skipti fólk máli að aðalviðskiptabanki þess væri leiðandi á sviði sjálfbærni. Í síðustu könnun sögðu sex af hverjum tíu, að það skipti miklu máli, sem er nærri tvöföldun frá fyrra ári þegar þrír af hverjum tíu sögðu svo vera. Þetta er vitanlega gríðarlega hvetjandi fyrir okkur.  

Kolefnishlutleysi er markmiðið 

Vörumerkið Íslandsbanki er sterkt og ímynd bankans jákvæð, raunar svo að bankinn var undir lok árs tilnefndur sem eitt af bestu vörumerkjunum landsins í vali Brandr meðal fyrirtækja á einstaklingsmarkaði með yfir 50 starfsmenn. 

Frammistaða Íslandsbanka á sviði sjálfbærni hélt líka áfram að batna í UFS mati Reitunar síðasta sumar þar sem bankinn fékk hæstu einkunn þrátt fyrir að kröfur hefðu aukist á milli ára. Afar ánægjulegt var að sjá einkunn bankans fyrir umhverfisþætti hækka um 12,9% á milli ára. Góður árangur Íslandsbanka í matinu endurspeglar viljann til að vera til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi. Áherslur sjálfbærni eru hluti af öllum verkferlum og vinnulagi í bankanum og mikil vitund meðal bæði starfsfólks og stjórnenda um að gera vel á því sviði. Við látum okkur umhverfið varða og vinnum áfram að markmiði bankans um að ná að fullu kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.  

Íslandsbanki er líka stofnaðili alþjóðlegs samstarfs banka, Net-Zero Banking Alliance, sem sett hafa sér markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2050. Við erum stolt af þeirri þátttöku þar sem saman koma bankar hvaðanæva að og deila með sér reynslu og þekkingu á vegferð sinni að sameiginlegu marki. 

Samhliða útgáfu fjárhagsuppgjörs fyrir þriðja fjórðung síðasta árs birtum við skýrslu um vörður okkar að kolefnishlutleysi, On the Road to Net-Zero. Ein af helstu niðurstöðum skýrslunnar er að losun frá útlánastarfsemi muni minnka um 60% fyrir árið 2030 og um 85% fyrir árið 2040. Útgáfa kolefnishlutleysisskýrslu Íslandsbanka sýnir að þó markmið um kolefnishlutleysi lánasafns árið 2040 séu verulega metnaðarfull. Leiðin að settu marki er hvorki auðveld né að fullu kortlögð. En stefnuna þarf að marka til að ljóst verði hvaða skref þarf að taka af hugrekki og staðfestu. Við viljum sýna í verki að við séum tilbúin að styðja við viðskiptavini okkar á þeirra vegferð í átt að minni útblæstri.  

Traustur rekstur Íslandsbanka  

Íslandsbanki var á árinu í fimmta sinn valinn besti bankinn af alþjóðlega tímaritinu Euromoney. Í niðurstöðu dómnefndar var horft til árangurs í rekstri, tekjuvaxtar og kostnaðarlækkunar. Verðlaun sem þessi eru okkur ávallt hvatning. 

Á árinu 2022 nam hagnaður Íslandsbanka 24,5 milljörðum króna og arðsemi bankans var 11,8% sem er umfram markmið bankans. Frá fyrra ári jukust tekjur bankans um 14,1%. Þar af jukust vaxtatekjur um tæp 27% milli ára vegna stækkunar lánabókarinnar og hærra vaxtastigs. Kostnaðarhlutfall var 42,1% sem er lækkun frá fyrra ári þegar það var 46,2%. Jákvæð virðisbreyting útlána að upphæð 1,6 milljarður króna hækkaði hagnað bankans enn frekar. Útlán til viðskiptavina jukust um rúma 100 milljarða króna eða um 9,2% milli ára sem dreifðist jafnt til einstaklinga og fyrirtækja. Innlán til viðskiptavina jukust um tæpa 47 milljarða króna eða um 6,2%. 

Þar að auki var markvisst unnið með viðskiptavinum að sem hagkvæmastri fjármagnsskipan, til dæmis með skuldabréfaútgáfum í bland við hefðbundin útlán. Það gekk vel hjá gjaldeyrismiðlun á árinu og er Íslandsbanki leiðandi á þeim markaði.  

Á árinu hélt ríkið áfram að selja sinn hlut í bankanum og í mars var selt 22,5%, eignarhluturinn stendur því í 42,5% um áramótin. Mikil umræða spannst um fyrirkomulag sölunnar og þátt bankans sem söluráðgjafa. Opinberir aðilar hafa gert úttekt á vinnunni og við bíðum niðurstöðu þeirra vinnu. 

Þakkir til viðskiptavina og starfsfólks  

Þegar horft er til baka getum við verið stolt af árangri bankans á árinu 2022, sem endurspeglar gildi okkar um eldmóð, samvinnu og fagmennsku. Mig langar að þakka starfsfólki bankans sem af fagmennsku hefur lagt sig fram um að veita viðskiptavinum Íslandsbanka afburða þjónustu.  

Síðustu ár höfum við með þjóðinni tekist á við margvíslega erfiðleika, hvort sem það hefur verið vegna heimsfaraldurs COVID-19, áhrifa erlendra stríðátaka og þar með verðlag hér, eða óvissu um þróun efnahagsmála. Við stöndum með viðskiptavinum okkar og samstarfsaðilum jafnt á krefjandi tímum sem betri tímum og hlökkum til að gera það áfram.  

Eigendahópur bankans hefur orðið enn fjölbreyttari með síðustu sölu á hlut ríkisins í bankanum en hvernig sem eignarhaldi er háttað þá stendur bankinn styrkum fótum, með góð gildi og skýra stefnu, bæði eigendum og samfélagi til hagsbóta, hreyfiafl til góðra verka.