Ávarp stjórnarformanns


Síðastliðið starfsár Íslandsbanka var viðburðarríkt, annasamt og árangursríkt. Hlutabréf bankans voru skráð á markað eftir sölu ríkisins á hluta af eign þess í bankanum. Þetta krafðist mikillar vinnu af hálfu bankans. Þá voru áfram miklar annir tengdar breyttu viðskipta- og þjónustuumhverfi af völdum faraldursins. Rekstur bankans gekk vel og skilaði ágætum arði.

Þróun efnahagsmála hefur verið nokkuð jákvæðari en vænta mátti í ársbyrjun 2021. Hagvöxtur hefur glæðst meira, atvinnuleysi hjaðnað hraðar og krónan styrkst nokkuð. Ferðaþjónustan tók hratt við sér þegar ferðatakmörkunum var aflétt að hluta, en það gefur til kynna að við eigum mikið inni í þessari mikilvægu atvinnugrein. Sjávarútvegurinn sýndi á árinu hversu öflugur hann er og það voru ánægjuleg tíðindi þegar tilkynnt var á haustmánuðum um loðnukvóta fyrir árið 2022, sem allt bendir til að færi þjóðarbúinu umtalsverðar tekjur. Þá má nefna að íslenskt hugvit heldur áfram að blómstra. Við megum vænta þess að sjá nýja starfsemi verða til í hugverkaiðnaði, fjölbreytni atvinnulífsins á enn eftir að aukast og sú áhersla sem lögð hefur verið á nýsköpun og rannsóknir mun skila sér í auknum hagvexti, nýjum tækifærum og framþróun.

Þó svo að íslenskt hagkerfi hafi orðið fyrir töluverðum skaða til skamms tíma höfum við samt sem áður fullt tilefni til að vera bjartsýn á framtíðarhorfur landsins.

Mikilvægt skref og vel heppnað útboð

Bankasýsla ríkisins lagði fram tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra í lok árs 2020 um sölu á hluta af eign ríkisins í Íslandsbanka. Í byrjun árs 2021 tók ráðherra ákvörðun um að hefja sölumeðferð í samræmi við þá tillögu. Vönduðu söluferli lauk um miðjan júní með stærsta frumútboði hlutabréfa sem fram hefur farið hér á landi þegar íslenska ríkið seldi ríflega þriðjungshlut sinn í bankanum. Heildarsöluandvirði útboðsins var rúmir 55 milljarðar króna. Margföld umframeftirspurn var í útboðinu á endanlegu útboðsverði og sýndu bæði almennir fjárfestar og fagfjárfestar, innlendir sem erlendir, útboðinu mikinn áhuga. Heildareftirspurn nam samtals 486 milljörðum króna, en markaðsvirði bankans, miðað við útboðsverð, var þá um 158 milljarðar króna. Fjöldi hluthafa eftir útboðið var um 16 þúsund, sem er mesti fjöldi hluthafa allra skráðra fyrirtækja á Íslandi.

Hlutabréf Íslandsbanka voru tekin til viðskipta í kauphöll Nasdaq Iceland 22. júní 2021, þegar Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, hringdi inn viðskiptin við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum bankans. Í árslok 2021 hafði gengi bankans hækkað um tæp 60%. Það felur í sér aukið markaðsvirði bankans til hagsbóta fyrir hluthafa.

Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar kemur fram að ríkissjóður muni halda áfram að draga úr eignarhaldi í fjármálakerfinu og nýta ábatann til uppbyggingar innviða. Það er skynsamleg ráðstöfun af hálfu hins opinbera og í ljósi þess hversu vel útboð ríkisins á hlutum þess í bankanum gekk á árinu og jákvæðum vexti á virði bankans, má ætla að tilefni sé til þess að hefja á ný söluferli á þeim hlut ríkisins sem eftir stendur.

Aðgerðir hins opinbera

Umtalsverðar stýrivaxtalækkanir Seðlabanka Íslands á árinu 2020 skiluðu sér í hagkvæmari lánum til viðskiptavina bankanna. Eðli málsins samkvæmt fól það í sér aukið hagræði fyrir fyrirtækin í landinu og aukna kjarabót fyrir heimilin, sem mörg hver nýttu tækifærið til að endurfjármagna húsnæðislán sín. Íslendingar hafa í raun aldrei búið við hagstæðari vaxtakjör en á liðnum 18 mánuðum. Stýrivaxtalækkanir Seðlabankans hafa að hluta gengið til baka en enn eru vextir þó lægri en þeir voru við upphaf faraldursins. Það er mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins sem og hið opinbera leggi sitt af mörkum til að halda verðbólgu í skefjum þannig að ekki þurfi að koma til umtalsverðra vaxtahækkana, með tilheyrandi kostnaði fyrirtækja og heimila.

Lækkun bankaskatts var samþykkt á Alþingi árið 2019. Skatturinn var þá 0,376% af bókfærðu virði skulda viðskiptabanka og til stóð að lækka hann í 0,145% í þremur áföngum á árunum 2021 til 2024. Lækkuninni var flýtt í kjölfar faraldursins og var hlutfallið komið niður í 0,145% í lok árs 2020 og er óbreytt fyrir árið 2022. Bankaskatturinn er þó enn um fimmfalt hærri en í nágrannaríkjum okkar. Hann leggst á útlán bankanna og skekkir því samkeppni á markaði gagnvart fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum sem veita lán en eru undanþegin skattinum. Þá heftir skatturinn erlenda fjárfestingu í landinu og skekkir þannig samkeppnisstöðu Íslands. Lækkun skattsins myndi fela í sér enn frekari hagræðingu og kjarabót fyrir þá sem bera hinn endanlega kostnað af honum.

Traustur rekstur

Íslandsbanki vinnur markvisst að því að vera hreyfiafl til góðra verka í íslensku samfélagi. Stjórn bankans er afar stolt af þeim markmiðum sem sett hafa verið í þeim efnum sem og fjölþættri þjónustu bankans.

Rekstur Íslandsbanka gekk vel á árinu 2021 og arðsemi eigin fjár var yfir fjárhagslegum markmiðum og spám greiningaraðila. Samhliða auknum tækniframförum hefur þjónustu bankans við viðskiptavini fleygt fram, hvort sem er við fyrirtæki eða einstaklinga, og er almenn bankaþjónusta nú mun aðgengilegri en áður. Þetta er í samræmi við aukna áherslu bankans á góða og skilvirka þjónustu við viðskiptavini. Sífellt er unnið að nýjum fjártæknilausnum og mun Íslandsbanki leitast við að verða áfram leiðandi á því sviði.

Þakkir til starfsfólks

Ég vil að lokum þakka stjórn bankans gott samstarf á árinu. Þá vil ég þakka Birnu Einarsdóttur og öðrum stjórnendum bankans fyrir trausta forystu á árinu, hvort heldur við söluferli bankans og við öflugan rekstur bankans. Að lokum vil ég færa starfsfólki bankans sérstakar þakkir fyrir störf þeirra á árinu 2021. Árið var í senn spennandi við undirbúning og framkvæmd söluferlisins og skráningu bankans á markað en um leið krefjandi vegna faraldursins og þeirra ráðstafana sem grípa þurfti til víðsvegar í bankanum til að veita viðskiptavinum sem besta þjónustu. Stjórnendur og starfsfólk bankans hafa sýnt mikla þrautseigju í gegnum þessa umrótartíma. Það gefur til kynna við getum horft björtum augum til framtíðar hvað snertir vöxt og viðgang Íslandsbanka.