Ávarp stjórnarformannsÁrið 2020 verður vafalaust lengi í minnum haft. Snemma árs gerði COVID-19 faraldurinn vart við sig og strax í marsmánuði fór afleiðinga hans að gæta um nær alla heimsbyggð. Áhrifanna gætti helst hér á landi þegar eftirspurn eftir alþjóðaflugi snarminnkaði samhliða því sem hvert ríkið á fætur öðru setti á ýmsar ferðahömlur. Ferðamannaiðnaðurinn í heiminum lagðist af á örfáum dögum og íslenska hagkerfið fann fljótt fyrir þeim afleiðingum. Aðrar sóttvarnaraðgerðir og fjöldatakmarkanir settu svip sinn á hagkerfið og raunar á allt þjóðlífið. 

Öflug gjaldeyrisstaða ríkissjóðs og skynsöm hagstjórn síðustu ára vó þó á móti þeim samdrætti sem blasti við hagkerfinu. Með ýmsum úrræðum tókst að takmarka stigvaxandi atvinnuleysi og verja hagkerfið í heild sinni fyrir stórum áföllum. Mörg fyrirtæki höfðu svigrúm til að bregðast við samdrætti, heimilin í landinu gátu sýnt viðnám og eins og fram kom í nýútkominni Þjóðhagsspá Íslandsbanka má ætla að viðspyrnan verði kröftug á næstu árum. 

Öflugt atvinnulíf með sterkum innviðum

COVID-19 faraldurinn hefur valdið miklum efnahagslegum skaða, einkum í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Það er þó mikilvægt að hafa í huga að ólíklegt er að sá skaði verði langvarandi. Við búum yfir öflugu atvinnulífi og mikilli þekkingu í sterkum greinum á borð við orkuiðnað, sjávarútveg og tækniframleiðslu svo dæmi séu nefnd. 

Ferðaþjónustan hefur alla burði til að taka fljótt við sér þegar ferðalög milli landa aukast á ný. Íslensk náttúra verður til staðar að faraldrinum loknum og á undanförnum árum hefur átt sér stað gífurleg uppbygging á innviðum ferðaþjónustunnar; hótelum, veitingastöðum, afþreyingarfyrirtækjum, tengslanetum erlendis og þannig mætti áfram telja. Allt er þetta enn til staðar og mun skapa gjaldeyristekjur til lengri tíma. Hið sama á við um sjávarafurðir landsins, stóriðju og íslenskt hugvit. Áherslan á nýsköpun og frumkvöðlastarf hefur sjaldan verið meiri en nú og sú áhersla mun skila sér í uppbyggingu nýrra fyrirtækja og atvinnugreina, nýjum störfum og nýjum tekjuskapandi verkefnum. Fjölbreytnin í atvinnulífinu fer vaxandi og allar líkur eru á að hún aukist enn frekar á næstu árum. 

Einfaldari og betri þjónusta 

En áhrif faraldursins hafa ekki öll verið slæm. Faraldurinn flýtti að hluta til fyrir þróun sem þegar var hafin með rafrænum samskiptum, og tækniframfarir og hagnýting nýrrar tækni hefur orðið örari en margan hefði grunað. Sú þróun hefur jafnframt áhrif á fjármálaþjónustu, einfaldar samskipti og afgreiðslu mála og er til þess fallin að bæta þjónustu bankans enn frekar með aukinni sjálfvirkni og einfaldari ferlum. 

Með hnitmiðaðri og einfaldari þjónustu styrkir bankinn sig í samkeppni við fjártæknifyrirtæki og aðra nýja aðila á fjármálamarkaði. Á þetta reyndi þegar bregðast þurfti með fjölbreyttum hætti við COVID-19 faraldrinum. Ljóst er að bankinn hefur styrkt stöðu sína sem skilvirkt, alhliða fjármálafyrirtæki. 

Viðbrögð bankans við faraldrinum hafa breytt hegðun viðskiptavina hans á þann hátt að nú finnst þeim mun sjálfsagðara að sinna helstu bankaviðskiptum í síma og tölvu en að koma í bankann til að fá nánari ráðgjöf eða aðstoð. Þessi þróun var þegar hafin en ljóst er að faraldurinn hefur flýtt henni svo um munar. Þetta er mjög jákvætt og gefur bankanum og starfsfólki hans færi á að veita viðskiptavinum enn betri og persónulegri þjónustu við meiri háttar ákvarðanir. 

Nauðsynleg lækkun bankaskatts 

Lækkun bankaskattsins var samþykkt á Alþingi árið 2019. Skatturinn var þá 0,376% af bókfærðu virði skulda viðskiptabanka og til stóð að lækka hann í 0,145% í þremur áföngum á árunum 2021 til 2024. Í kjölfar COVID-19 faraldursins var lækkuninni flýtt og var hlutfallið komið niður í 0,145% í lok ársins. 

Lengi hefur verið beðið eftir þessari lækkun sem skilar aukinni hagræðingu og betri rekstri. Skatturinn er þó enn hár eða um fimmfalt hærri en í nágrannaríkjum okkar. Skatturinn leggst á útlán bankanna og skekkir því samkeppni á markaði gagnvart fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum sem veita lán en eru undanþegin skattinum. Bankaskattur er því í raun skattur á lántöku heimila og fyrirtækja í landinu. Í ljósi aðstæðna hefði mátt ganga enn lengra í lækkun skattsins í þeim tilgangi að örva hagkerfið og gera því kleift að veita öflugri viðspyrnu. 

Bankaskattur og önnur gjöld sem eru hærri hér á landi en í löndunum í kringum okkur minnka líkurnar á því að laða að erlenda fjárfestingu. Það á ekki síst við um mögulega sölu Íslandsbanka á næstu árum. Í litlu hagkerfi á alþjóðavísu og með sjálfstæðan gjaldmiðil er ekki þörf á sköttum og gjöldum sem að lokum verða til þess að skekkja samkeppnishæfni Íslands. 

Í lok síðasta árs lagði Bankasýsla ríkisins fram tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um að hefja sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka og í lok janúar á þessu ári ákvað ráðherra að hefja sölumeðferð í samræmi við þá tillögu. Það er því ljóst að það er viðburðarríkt ár í vændum hjá bankanum við undirbúning á því ferli. 

Sjálfbærni tvinnuð inn í starfsemi bankans 

Á árinu náði bankinn miklum árangri í innleiðingu á sjálfbærnistefnu sinni sem samþykkt var í lok árs 2019. Aukin áhersla á sjálfbærni rímar vel við arðsemismarkmið og önnur fjárhagsleg markmið bankans, en hefur fyrst og fremst styrkt bæði rekstur og stöðu bankans í samfélaginu. Sem dæmi um þá áfanga sem við erum stolt af má nefna birtingu og beitingu sjálfbærs fjármálaramma og vel heppnaðar útgáfur sjálfbærra og grænna skuldabréfa í kjölfarið. Þá setti bankinn sér metnaðarfull sjálfbærnimarkmið sem varða bæði útvíkkun á sjálfbæru vöruúrvali og kolefnishlutleysi í rekstri. Við viljum vera fyrirmynd þegar kemur að sjálfbærni í okkar eigin rekstri auk þess að vera hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu. 

Lokaorð 

Friðrik Sophusson lét af störfum sem stjórnarformaður Íslandsbanka á árinu 2020 eftir að hafa gegnt því starfi í áratug. Ég vil þakka honum sérstaklega fyrir allt það góða starf sem hann hefur unnið fyrir bankann í tíð sinni sem stjórnarformaður, oft við krefjandi verkefni og aðstæður. Þau Auður Finnbogadóttir, Tómas Már Sigurðsson og Flóki Halldórsson viku einnig úr stjórn á árinu og er þeim þakkað fyrir þeirra framlag. Frosti Ólafsson, Guðrún Þorgeirsdóttir og Herdís Gunnarsdóttir tóku sæti í stjórn bankans og vil ég þakka þeim ásamt öðrum stjórnarmönnum, þeim Önnu Þórðardóttur, Árna Stefánssyni og Heiðrúnu Jónsdóttur, fyrir gott samstarf á árinu. 

Á COVID-árinu 2020 hefur mikið mætt á stjórnendum og starfsfólki bankans sem lengst af hafa sinnt störfum sínum við óvenjulegar og oft krefjandi aðstæður og kallað hafa á sértæk viðbrögð og vinnuframlag. Ég vil að lokum færa stjórnendum og starfsfólki bankans sérstakar þakkir fyrir mikil og góð störf þeirra á þessu erfiða ári. Með hinu góða starfsfólki sínu getur Íslandsbanki horft björtum augum til framtíðar.