Ávarp Bankastjóra



Það er óhætt að segja að árið 2020 verði eftirminnilegt fyrir margar sakir. Heimsfaraldurinn, COVID-19, litaði daglegt líf okkar með heilsuáhrifum og tilheyrandi samkomutakmörkunum. Áhrif á efnahags- og atvinnulíf munu skýrast smám saman en ljóst er að fyrirtæki og einstaklingar hafa staðið frammi fyrir stórum áskorunum á árinu. 

Áhrif á rekstur bankans er þar engin undantekning en áherslur okkar tóku miklum breytingum með tilkomu heimsfaraldursins. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Við lögðum enn meira kapp á að auka upplýsingaflæði til viðskiptavina og starfsfólks sem er lykilatriði á tímum sem þessum. Til að vernda báða hópa þurftum við að takmarka heimsóknir í útibú að miklu leyti og biðja nær allt starfsfólk að vinna heima. Þetta flýtti enn frekar fyrir þeirri þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum og fleiri viðskiptavinir nýttu sér stafrænar lausnir fyrir öll helstu viðskipti. Með kennslu og reglubundnum skilaboðum fjölgaði virkum notendum í Íslandsbankaappinu og nýjum viðskiptavinum sem hefja viðskipti stafrænt hefur fjölgað um 40% milli ára. 

Áskorunin samhliða þessum breytingum var að veita einnig persónulega þjónustu við stærri ákvarðanir en framtíðarsýn bankans er að veita bestu bankaþjónustuna. Meðal þess sem við vildum leggja sérstaka áherslu á var að hlúa vel að eldri borgurum og þeim sem ekki geta nýtt sér stafræna þjónustu. Við settum í loftið nýtt símanúmer fyrir þann hóp og okkur berast þúsundir símtala í hverjum mánuði með tilheyrandi ánægju viðskiptavina. Þjónusta er okkar hjartans mál og þegar við horfum til baka kemur það vonandi í ljós að okkur tókst að styðja vel við bakið á okkar viðskiptavinum. 

Stafrænt stökk

Árið var vel nýtt við þróun á nýjum lausnum og nýtt vörumiðað skipulag Upplýsingatæknisviðs spilaði þar mikilvægt hlutverk. Segja má að heimsfaraldurinn hafi flýtt fyrir rafrænum undirritunum sem einfaldaði samskipti við viðskiptavini til muna. Einnig var kynnt til leiks nýtt spjallmenni, Fróði, sem er fyrsta spjallmenni sinnar tegundar hér á landi. Fróði afgreiðir rúmlega helming allra fyrirspurna sjálfur á hvaða tíma sólahringsins sem er. Viðskiptavinir sem hafa kosið samtöl við ráðgjafa hafa fengið beint samband en mælingar sýna að viðskiptavinir eru mjög ánægðir með afgreiðslu og svör Fróða. 

Mikil þróun átti sér stað í stafrænum lausnum á fyrirtækjahliðinni en nýtt app fyrir fyrirtæki leit dagsins ljós og fyrirtæki geta komið í viðskipti með stafrænum hætti á örfáum mínútum. Þetta mun einfalda bankaviðskipti fyrirtækja verulega og það er ánægjulegt að bæta þjónustustigið við þau. 

Stuðningur á erfiðum tímum

Í byrjun árs 2019 var farið í stefnuvinnu og hlutverk bankans skilgreint sem hreyfiafl til góðra verka. Þetta hefur átt vel við á tímum sem þessum þar sem er mikilvægt að bankar aðstoði sína viðskiptavini við að komast í gegnum erfitt tímabil. Samkvæmt Þjóðhagsspá bankans er horft með jákvæðum augum til efnahagsbata þegar bólefni er í augsýn og gerum við ráð fyrir að viðspyrnan verði kröftug á nýju ári ef áfram heldur sem horfir. 

Á árinu veittum við nokkur hundruð stuðnings – og viðbótarstuðningslán með ríkisábyrgð og unnið var að frystingum með fyrirtækjum og einstaklingum eins og þörf var á. Staða fyrirtækja áður en heimsfaraldurinn skall á var almennt sterk sem skipti miklu máli og skuldavandi því ekki áskorunin heldur lausafjárskortur vegna tímabundins áfalls. 

Íslandsbanki vann náið með Icelandair að fjárhagslegri endurskipulagningu og sá fyrirtækjaráðgjöf bankans meðal annars um hlutafjárútboð félagsins. Verkefnið var ekki aðeins mikilvægt fyrir Icelandair og Íslandsbanka heldur er mikilvægt að tryggja flugsamgöngur til og frá landinu með öflugum hætti og að félagið verði tilbúið til að tryggja öfluga viðspyrnu. 

Sameinuð þjónusta í fyrirtækjamiðstöðvar

Þjónusta við lítil og meðalstór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu var á árinu sameinuð í eina fyrirtækjamiðstöð í Norðurturni, höfuðstöðvum Íslandsbanka. Markmið sameiningarinnar var að auka slagkraft og skilvirkni og bjóða öfluga þjónustu. Það er okkar trú að hægt sé að bjóða persónulega og góða þjónustu þar sem viðskiptavinurinn er. Fyrirtækjamiðstöð á Akureyri var einnig sett á laggirnar fyrir allt Norður- og Austurland. 

Íslandsbanki hefur verið leiðandi á markaði lítilla og meðalstórra fyrirtækja með mestu markaðshlutdeildina og hefur árleg þjónustukönnun bankans meðal þessara fyrirtækja aldrei komið jafn vel út og í ár. Við viljum halda áfram á þessari vegferð og þjónusta fyrirtæki með persónulegri en einnig öflugri stafrænni þjónustu. 

Um leið og við höfum stutt við bakið á fyrirtækjunum okkar í þeirra áskorunum hefur einnig verið mikill kraftur í nýjum útlánum. Bílamarkaðurinn tók sérstaklega við sér, bæði í nýjum og notuðum bílum, og íslensk verslun hefur á mörgum sviðum notið góðs af því að velta landsmanna er meiri innanlands en áður þó vöntun sé mikil á heimsóknum ferðamanna. Það var ánægjulegt að sjá þá miklu aukningu sem varð í grænum bílalánum hjá Ergo þar sem viðskiptavinir eru að fjármagna vistvænar bifreiðar. Ergo var einnig fyrst á markaði til að fjármagna rafmagnshjól og hleðslustöðvar fyrir vistvænar bifreiðar. Þetta er í takt við sjálfbærnistefnu okkar og markmið okkar um að auka hlutdeild slíkrar fjármögnunar í lánasafni okkar. 

Öflug fjárfestingabankastarfsemi

Fyrirtæki og fjárfestar eiga öflugt ár að baki með vel heppnuðu útboði Icelandair en metár var hjá fyrirtækjaráðgjöf bankans. Bankinn var einnig leiðandi í gjaldeyrismiðlun og átti mestu viðskiptin í kauphöllinni á árinu. 

Íslandssjóðir, dótturfyrirtæki bankans, náði þeim árangri á árinu að sjóðir í stýringu eru orðnir 200 milljarðar króna að stærð og er félagið með 35% markaðshlutdeild, sem gerir Íslandssjóði að stærsta aðilanum á innlendum sjóðamarkaði. Vegur þar þyngst Lausafjársafn Íslandssjóða sem er stærsti sjóðurinn á íslenskum markaði með um 60 milljarða og nýtur mikilla vinsælda hjá þeim sem vilja ávaxta lausafé sem er vissulega krefjandi í því vaxtaumhverfi sem búum við núna. 

Aukning hefur verið í græna skuldabréfasjóðnum sem fjárfestir í skuldabréfum þar sem fjármögnuð eru sjálfbær verkefni sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Viðskiptavinir fá sérstaka áhrifaskýrslu sem sýnir hvað sparnaðurinn dregur úr mikilli losun á kolefni. Til gamans má geta að ein milljón sem fjárfest er í sjóðnum sparar á einu ári losun á kolefni sem nemur sjö flugferðum til London, fram og til baka. 

Tryggja áframhaldandi kolefnishlutleysi í rekstri

Í lok síðasta árs samþykkti stjórn bankans sjálfbærnistefnu sem er í samræmi við áherslur þeirrar stefnu sem var mótuð í upphafi árs 2019 fyrir bankann. Í samráði við starfsfólk bankans var ákveðið að vinna að fjórum heimsmarkmiðum SÞ; loftslagsmálum, jafnrétti, fræðslu og nýsköpun. Hafa verkefnin snúið að því að bankinn sé hreyfiafl til góðra verka en ekki síður fyrirmynd þegar kemur að sjálfbærni í samfélaginu. 

Eitt stærsta verkefni ársins var að móta ramma utan um sjálfbær lán í eignasafninu en bankinn var fyrstur íslenskra banka til þess. Ramminn nær til verkefna í umhverfismálum, sjálfbærra verkefna í sjávarútvegi og verkefna sem styðja við félagslega uppbyggingu. Stefnt er að því að auka enn frekar vægi þessara verkefna í lánasafni bankans. Við erum afar stolt af þessari vinnu sem mun skipta miklu máli í sjálfbærnivegferð bankans. 

Bankinn hefur einnig gerst aðili að alþjóðlegu samstarfsverkefni fjármálafyrirtækja um þróun og notkun á loftslagsmæli fyrir lána- og eignasafn bankans. Þá er stefnt að því að draga úr kolefnisspori tengdu rekstri bankans um 50% frá 2019 til 2024. Bankinn hefur frá árinu 2019 tryggt kolefnishlutleysi rekstrar með því að jafna þann hluta sem ekki hefur náðst að minnka með mótvægisaðgerðum. 

Við erum einnig afar stolt af því að hafa á árinu lokið við stærstu sjálfbæru skuldabréfaútgáfu íslensks félags frá upphafi þar sem áhugi fjárfesta var mikill, eftirspurn margföld og fjármögnunarkjörin hagstæð. Fjármögnunin verður að fullu nýtt í sjálfbær lán og fjárfestingar og hefur bankinn nú þegar ráðstafað um 25 milljörðum króna til sjálfbærra verkefna. Samanlagt komu þessi verkefni í veg fyrir losun sem samsvarar 5.800 tonnum af kolefni á árinu 2020. 

Síðast en ekki síst vil ég þakka viðskiptavinum okkar fyrir góð samtöl er varða þessi mál á árinu. Við kynntum siðareglur birgja þar sem við opnuðum á samtal um jafnréttis- og umhverfismál við okkar stærstu birgja. Það er ljóst samkvæmt þeim samtölum að það stefna allir í sömu átt sem mun skila okkur fjölbreyttara og enn öflugra atvinnulífi. 

Krefjandi rekstrarár

Líkt og ég hef komið inn á var rekstur Íslandsbanka á árinu ekki með hefðbundnu sniði í ljósi aðstæðna og urðu margir okkar viðskiptavina fyrir tímabundnu tekjufalli. Bankinn tók þátt í almennu samkomulagi lánveitenda á Íslandi um að veita þeim viðskiptavinum greiðsluhlé og nýttu um 1500 heimili og 650 fyrirtæki sér þessa leið. Þrátt fyrir erfiða stöðu víða í íslensku efnahagslífi var árið 2020 sterkt ár fyrir bankann. Heildarkostnaður lækkaði um 13,6% og á sama tíma var vöxtur bæði í inn- og útlánum eða um 9,9% og 11,9% en mikil eftirspurn var eftir húsnæðislánum á árinu. Hagnaður samstæðunnar fyrir árið var 6,8 milljarðar króna, sem samsvarar 3,7% arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli og er undir langtímaarðsemismarkmiði bankans. Óvissa tengd COVID-19 endurspeglast í mikilli neikvæðri virðisbreytingu á fyrri hluta ársins, en afkoman var mun betri á seinni helmingnum og var arðsemi 7,6% á fjórða ársfjórðungi. Lausa- og eiginfjárhlutföll styrktust enn frekar á árinu og eru vel yfir innri markmiðum og kröfum eftirlitsaðila. 

Styrkur bankans sem alhliða banki með þjónustu í fyrirrúmi sýndi sig á árinu og skilar sér í sterkri fjárhagsstöðu bankans. Baráttunni við COVID-19 er ekki lokið en bankinn leggur áherslu á að vera til staðar fyrir viðskiptavini í gegnum tímabil óvissu með það að markmiði að ná góðri viðspyrnu þegar yfir lýkur. 

Eldmóður og samvinna einkennandi

Gildi okkar í Íslandsbanka eru eldmóður, samvinna og fagmennska. Þessi orð hafa svo sannarlega verið höfð að leiðarljósi allt þetta ár og óhætt að segja að þessi orð einkenni Íslandsbankahópinn. Starfsfólk hefur tekið þessum miklu breytingum sem hafa átt sér stað með jákvæðni og auðmýkt. Áður en starfsfólk fór heim að vinna vegna COVID-19 höfðum við gert tilraunir í þá átt til að draga úr kolefnisspori bankans. Starfsfólk mun því áfram vinna með sveigjanlegum hætti að hluta til í fjarvinnu en við sáum það í mælingum í ár að starfsánægja hefur aldrei mælst hærri sem skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Mig langar að þakka starfsfólki fyrir að halda áfram af fullum krafti í aðstæðum sem eiga sér svo sannarlega enga hliðstæðu. 

Ég hlakka mikið til nýja ársins þar sem við horfum fram á veginn með viðskiptavinum okkar og starfsfólki.