5 atriði til að hafa á hreinu fyrir starfslok

Persónulegir hagir okkar og ekki síst fjármálin geta tekið margvíslegum breytingum þegar við hættum að vinna.


Því er afar mikilvægt að þekkja þær breytingar, vita hverju við eigum von á og hvernig best sé að bregðast við. Þetta þarf að gera fyrir starfslok, ekki eftir að hætt er að vinna.

Fjármálaráðgjafar eru vanir því að heyra viðskiptavini sína andvarpa „ég vildi að ég hefði vitað þetta áður en ég hætti að vinna.“ Með lítilli fyrirhöfn hefði oft mátt fyrirbyggja mistök og því miður virðist afar algengt að fólk hafi lítið sem ekkert kynnt sér mikilvæg atriði varðandi lífeyri, séreignarsparnað, skatta, bætur, ávöxtun og fleira sem mun skipta okkur afar miklu máli og stýra því hver afkoma okkar verður á eftirlaunaaldrinum.

Mikilvægt er að setjast niður með ráðgjafa, t.d. hjá Íslandsbanka, áður en starfsævi líkur og þá er gott að hafa þessi 5 atriði á hreinu:

 1. Hvaða réttindi áttu hjá lífeyrissjóðnum þínum?
  Hafðu samband við lífeyrissjóðinn þinn og fáðu yfirlit yfir réttindi þín. Ef þú vilt skoða möguleika þess að hefja úttekt fyrr eða síðar getur starfsfólk sjóðsins auðveldlega sagt þér hversu mikið réttindin munu aukast eða minnka. Það er algjört lykilatriði að vita hvaða greiðslum þú átt von á.
 2. Hver er staða þín í séreignarsparnaði?
  Hvar og hvernig er séreignarsparnaðurinn ávaxtaður? Ef þú ert ósátt(ur) er yfirleitt lítið mál að færa sig eða skipta um ávöxtunarleið. Sparnaðurinn (sem er undanskilin fjármagnstekjuskatti) er laus við 60 ára aldur en það er ekki þar með sagt að það borgi sig alltaf að taka hann strax út. Tekjuskattur er greiddur við úttekt og því þarf m.a. að hafa skattþrep í huga.
 3. Hverju áttu von á frá Tryggingastofnun?
  Við 67 ára aldur öðlumst við rétt á bótum frá Tryggingastofnun. Heimilt er að fresta úttekt og auka þannig réttindi en skoða þarf vandlega hvernig tekjur úr ýmsum áttum (t.d. laun, vextir og lífeyrir) koma mögulega til með að skerða greiðslur. Lífeyrisráðgjafar Íslandsbanka þekkja þessi mál afar vel, en ítarlegar upplýsingar er einnig að finna á vefsíðu Tryggingastofnunar, www.tr.is.
 4. Náðu yfirsýn yfir skuldir heimilisins
  Yfirdráttarlán og aðrar dýrar skuldir er best að reyna að losa sig við sem fyrst. Heildartekjur okkar lækka yfirleitt við starfslok og getur greiðslubyrði lána því orðið okkur þyngri en áður. Fáðu upplýsingar um skilmála lánanna þinna, t.d. varðandi uppgreiðsluheimildir og vexti.
 5. Hvernig viltu ávaxta sparnaðinn þinn?
  Þeir vextir og ávöxtunarkostir sem henta fara eftir því hver ætlunin er með sparnaðnum. Ef við höfum svigrúm til að binda fjármagn fjölgar kostum og við getum bundið fé á talsvert hærri vöxtum. Ríkisskuldabréf og hlutabréf henta sumum en þau krefjast þolinmæði og góðrar dreifingar. Reyndu að skipta sparnaðnum þínum niður eftir því hversu lengi má binda hann. Ráðgjafar geta bent þér á kosti sem henta best viðkomandi tímalengd.

  Dýrmætir fjármunir eru í húfi og því er mikilvægt að gefa sér tíma og undirbúa sig vel.

Ráðgjöf

Hægt er að panta ráðgjöf hjá lífeyrisráðgjafa hér eða með tölvupósti á sereign@islandsbanki.is.