Vöruskiptahalli á seinni helmingi ársins mun væntanlega reynast töluvert meiri en þeim fyrri þar sem ekki er von á frekari flugvélasölu. Gjaldeyrisflæði vegna vöruskiptanna verður hins vegar með svipuðu móti, enda fylgdi sáralítið flæði framangreindri flugvélasölu á sínum tíma.
Í þjóðhagsspá okkar sem birt var í júní spáðum við því að vöruskiptahalli myndi minnka nokkuð á milli ára og reynast í námunda við 155 ma.kr. í ár samanborið við 178 ma.kr. halla í fyrra. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) yrði hallinn í ár þá 5,4% og yrði það minnsti vöruskiptahalli frá árinu 2016. Minni vöruskiptahalli hjálpar til að vega gegn minnkandi afgangi af þjónustuviðskiptum vegna samdráttar í ferðaþjónustu. Í heild eigum við von á að viðskiptaafgangur reynist 1,5% af VLF í ár.
Lækkandi raungengi krónu hjálpar hér til, enda leiðir það bæði til þess að landið verður eftirsóknarverðara í augum ferðamanna og samkeppnishæfara hvað varðar aðrar útflutningsgreinar, auk þess sem lægra raungengi ætti að draga nokkuð úr ferðagleði landans og kaupgleði á innfluttum varningi. Við áætlum að raungengi krónu verði að jafnaði ríflega 9% lægra í ár en það var árið 2017 þrátt fyrir að verðbólga hafi verið öllu meiri hérlendis en í nágrannalöndum síðustu misserin.