Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Vöruskiptahalli í júní sá mesti í hálft annað ár

Þrátt fyrir mikinn vöruskiptahalla í júní er útlit fyrir öllu minni vöruskiptahalla á árinu í heild en í fyrra. Lægra raungengi krónu hefur þar talsverð áhrif.


Þrátt fyrir mikinn vöruskiptahalla í júní er útlit fyrir öllu minni vöruskiptahalla á árinu í heild en í fyrra. Lægra raungengi krónu hefur þar talsverð áhrif.

Vöruviðskipti við útlönd voru með óhagstæðasta móti í júnímánuði síðastliðnum. Vöruskiptahallinn nam 22,8 mö.kr. samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Hefur hallinn ekki verið meiri frá desembermánuði árið 2017. Þó ber að hafa í huga að gengi krónu hefur lækkað umtalsvert undanfarin misseri. Reiknað á föstu gengi var vöruskiptahallinn í júní svipaður og í sama mánuði fyrir ári síðan.

Mikill vöruskiptahalli í júní er fyrst og fremst til kominn vegna óvenju lítils útflutnings miðað við mánuðina á undan. Vöruútflutningur nam alls 46,5 mö.kr. í mánuðinum og hefur hann ekki verið minni síðan í febrúar síðastliðnum. Sér í lagi var útflutningur sjávarafurða rýr, en hann nam 15,5 mö.kr. í júnímánuði og hefur ekki verið minni í krónum talið frá desembermánuði árið 2017. Er það enn merkilegra í ljósi þess að verð sjávarafurða í íslenskum krónum hækkaði um nærri 18% miðað við verðvísitölu sjávarafurða á tímabilinu des.17 – maí.19. Líklega skýrist þessi litli útflutningur sjávarafurða að hluta af tilfærslu milli mánaða þar sem maímánuður var óvenju myndarlegur hvað slíkan útflutning varðar. Gætu því næstu mánuðir orðið gjöfulli fyrir fiskútflutning.

Vöruinnflutningur nam alls 69,3 mö.kr. í mánuðinum og hefur ekki verið meiri í krónum talið síðan í nóvember 2018. Var það ekki síst vegna myndarlegs innflutnings á hrávörum og rekstrarvörum (22,6 ma.kr.) en einnig voru innfluttar fjárfestingarvörur (24,8 ma.kr.) með mesta móti í samanburði við undanfarna mánuði.

Lægra raungengi ýtir undir hagstæðari utanríkisviðskipti en ella

Á fyrri helmingi ársins nam vöruskiptahalli tæpum 41 ma.kr. Er það helmingi minni halli en á sama tíma í fyrra, þegar vöruskiptahallinn nam 83 mö.kr. Það litar þó verulega þær tölur að í janúar færði Hagstofan til bókar sölu 4 flugvéla WOW-Air, og var útflutningur á skipum og flugvélum nærri 21 ma.kr. í þeim mánuði einum og sér. Að skipum og flugvélum undanskildum nam vöruskiptahalli á fyrri helmingi ársins tæpum 60 mö.kr.

Vöruskiptahalli á seinni helmingi ársins mun væntanlega reynast töluvert meiri en þeim fyrri þar sem ekki er von á frekari flugvélasölu. Gjaldeyrisflæði vegna vöruskiptanna verður hins vegar með svipuðu móti, enda fylgdi sáralítið flæði framangreindri flugvélasölu á sínum tíma.

Í þjóðhagsspá okkar sem birt var í júní spáðum við því að vöruskiptahalli myndi minnka nokkuð á milli ára og reynast í námunda við 155 ma.kr. í ár samanborið við 178 ma.kr. halla í fyrra. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) yrði hallinn í ár þá 5,4% og yrði það minnsti vöruskiptahalli frá árinu 2016. Minni vöruskiptahalli hjálpar til að vega gegn minnkandi afgangi af þjónustuviðskiptum vegna samdráttar í ferðaþjónustu. Í heild eigum við von á að viðskiptaafgangur reynist 1,5% af VLF í ár.

Lækkandi raungengi krónu hjálpar hér til, enda leiðir það bæði til þess að landið verður eftirsóknarverðara í augum ferðamanna og samkeppnishæfara hvað varðar aðrar útflutningsgreinar, auk þess sem lægra raungengi ætti að draga nokkuð úr ferðagleði landans og kaupgleði á innfluttum varningi. Við áætlum að raungengi krónu verði að jafnaði ríflega 9% lægra í ár en það var árið 2017 þrátt fyrir að verðbólga hafi verið öllu meiri hérlendis en í nágrannalöndum síðustu misserin.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband