Þetta er jákvæðari niðurstaða en við, og líklega fleiri, þorðum að vona eftir ótíðindi á útflutningshliðinni í ársbyrjun 2019. Lækkun raungengis krónu á seinni helmingi síðasta árs er að okkar mati mikilvægur áhrifaþáttur í þessari þróun. Raungengið, sem mælir í stórum dráttum kaupmátt og samkeppnishæfni milli myntsvæða, var að jafnaði tæplega 7% lægra á síðasta ári en á árinu 2018. Lægra raungengi leiðir alla jafna til þess að innlend eftirspurn, þ.e. neysla og fjárfesting, færist í auknum mæli að innlendri vöru og þjónustu ásamt því að spurn erlendra aðila eftir útfluttum vörum og þjónustu eykst. Rannsóknir hafa raunar sýnt að þjónustuútflutningur er alla jafna næmari fyrir raungengisbreytingum en vöruútflutningur, eins og við höfum áður fjallað um. Lengri dvalartími ferðamanna og aukin útgjöld hvers þeirra að jafnaði hérlendis á árinu 2019 miðað við fyrri ár rennir stoðum undir þá kenningu.
Þessi áhrif lækkunar raungengisins virðast því hafa komið nokkuð sterkt fram í íslensku hagkerfi á nýliðnu ári og hjálpað verulega til við aðlögun hagkerfisins eftir áföll í útflutningsgreinum á fyrri helmingi ársins. Sú þróun hefur svo átt þátt í að styrkja stoðir krónunnar undanfarið og skýrir hún að hluta þann lygna sjó sem gengi krónu hefur siglt undanfarið ár þrátt fyrir ágjöf í efnahagslífinu. Við spáðum í haustspá okkar í lok september síðastliðins að viðskiptaafgangur á árinu 2019 myndi reynast u.þ.b. 100 ma.kr., eða sem svarar til 3,5% af VLF. Þær tölur og gögn sem birst hafa síðan hafa aukið líkur á að þarna hafi verið hóflega spáð og að viðskiptaafgangurinn á síðasta ári hafi verið eitthvað meiri. Útlit er einnig fyrir að viðskiptaafgangur verið allnokkur á árinu 2020, sem mun þá áfram renna stoðum undir krónuna að mati okkar.