Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Vöruskiptahalli 2019 sá minnsti í fjögur ár

Vöruskiptahalli á nýliðnu ári var að öllum líkindum sá minnsti frá árinu 2015. Meginástæða þessa er snarpur samdráttur í innflutningi en þróun útflutnings hefur einnig verið jákvæðari en vænst var. Ríflegur viðskiptaafgangur hefur stutt við gengi krónu og horfur eru á að svo verði enn um sinn.


Minni vöruskiptahalli á aðventunni

Hagstofan birti í morgun bráðabirgðatölur fyrir vöruskipti í desember síðastliðnum og þar með fyrstu tölur fyrir vöruskipti á árinu 2019 í heild. Vöruskiptahalli í desember reyndist 11,2 ma.kr. og þar með ríflega 3 mö.kr. minni en í sama mánuði árið áður. Talsvert dró úr bæði útflutningi (-17%) og innflutningi (-18,5%) milli ára, en samdrátturinn í innflutningi var þó ívið meiri í krónum talið. Á útflutningshliðinni munaði mest um minni útflutning sjávarafurða og iðnaðarvara, en innflutningsmegin vógu minni kaup á hrá- og rekstrarvörum þyngst. Vöruútflutningur nam alls 44,1 mö.kr. en vöruinnflutningur 52,4 mö.kr. í desember.

Hagfelldari vöruskipti í fyrra en vænst var

Óhætt er að segja að þróun vöruskipta á síðasta ári hafi komið ánægjulega á óvart eftir fremur dökkar horfur í ársbyrjun. Alls voru fluttar út vörur fyrir 643 ma.kr. á árinu 2019 og jafngildir það 7% aukningu í krónum talið frá árinu á undan. Í krónum mælt minnkaði hins vegar vöruinnflutningur um 3% milli ára þrátt fyrir veikari krónu og nam hann alls 752 mö.kr. Vöruskiptahalli á síðasta ári nam því rétt rúmum 109 mö.kr. miðað við framangreindar tölur.

Gengi krónu var að jafnaði tæplega 8% veikara á síðasta ári en árið 2018. Því má áætla að virði vöruinnflutnings í erlendum gjaldeyri hafi verið u.þ.b. 11% minna árið 2019 en árið á undan. Hagstofan birti nýverið greiningu á vöruinnflutningi og -útflutningi þar sem þróun verðs og magns er metin til og með nóvember 2019. Miðað við þá greiningu skrapp innflutningur saman í magni mælt um nærri 8% á fyrstu 11 mánuðum síðasta árs frá sama tímabili 2018. Sá samdráttur átti sér rót í flestum helstu vöruflokkum en þó var hann hvað skarpastur í flokkum á borð við flugvélar (-75%), ökutæki til atvinnurekstrar (-34%), ökutæki til einkanota (-25%) og eldsneyti og olíur (-22%).

Engum blöðum er um að fletta að hér hefur samdráttur í ferðaþjónustu haft mikil áhrif. Auk þess eru allskýrar vísbendingar um að neysla landsmanna hafi í auknum mæli beinst að innlendum vörum og þjónustu í kjölfar gengislækkunar á seinni hluta ársins 2018 og skýrir það væntanlega ríflega 8% samdrátt í innfluttu magni neysluvara að hluta.

Sambærilegar tölur fyrir útflutning sýna tæplega 1% magnaukningu á milli ára á tímabilinu janúar-nóvember. Hér hefur þó sala flugvéla WOW-Air á fyrsta fjórðungi ársins talsverð áhrif, en sé litið fram hjá skipum, flugvélum og öðrum óreglulegum liðum skrapp útflutningur saman um tæp 3% í magni mælt. Þar hafa bæði áhrif loðnubrestur í upphafi ársins og vandamál með einn kerskála Rio Tinto álversins í Straumsvík á seinni hluta ársins. Góðu heilli var hins vegar verðþróun sjávarafurða tiltölulega hagstæð á síðasta ári, eins og lesa má um í nýlegri grein á vef SFS. Varð það, ásamt lægra gengi krónu, til þess að verðmæti útfluttra sjávarafurða reyndist tæplega 9% meira á árinu 2019 en ári á undan.

Vöruskiptin bregðast við raungengislækkun

Eins og að framan kom fram nam vöruskiptahalli á síðasta ári 109 mö.kr. miðað við bráðabirgðatölur. Það samsvarar tæplega 4% af áætlaðri landsframleiðslu (VLF) ársins 2019. Til samanburðar var vöruskiptahalli á árinu tæplega 6% af VLF og raunar hefur vöruskiptahalli ekki verið minni á þennan kvarða frá árinu 2015.

Þetta er jákvæðari niðurstaða en við, og líklega fleiri, þorðum að vona eftir ótíðindi á útflutningshliðinni í ársbyrjun 2019. Lækkun raungengis krónu á seinni helmingi síðasta árs er að okkar mati mikilvægur áhrifaþáttur í þessari þróun. Raungengið, sem mælir í stórum dráttum kaupmátt og samkeppnishæfni milli myntsvæða, var að jafnaði tæplega 7% lægra á síðasta ári en á árinu 2018. Lægra raungengi leiðir alla jafna til þess að innlend eftirspurn, þ.e. neysla og fjárfesting, færist í auknum mæli að innlendri vöru og þjónustu ásamt því að spurn erlendra aðila eftir útfluttum vörum og þjónustu eykst. Rannsóknir hafa raunar sýnt að þjónustuútflutningur er alla jafna næmari fyrir raungengisbreytingum en vöruútflutningur, eins og við höfum áður fjallað um. Lengri dvalartími ferðamanna og aukin útgjöld hvers þeirra að jafnaði hérlendis á árinu 2019 miðað við fyrri ár rennir stoðum undir þá kenningu.

Þessi áhrif lækkunar raungengisins virðast því hafa komið nokkuð sterkt fram í íslensku hagkerfi á nýliðnu ári og hjálpað verulega til við aðlögun hagkerfisins eftir áföll í útflutningsgreinum á fyrri helmingi ársins. Sú þróun hefur svo átt þátt í að styrkja stoðir krónunnar undanfarið og skýrir hún að hluta þann lygna sjó sem gengi krónu hefur siglt undanfarið ár þrátt fyrir ágjöf í efnahagslífinu. Við spáðum í haustspá okkar í lok september síðastliðins að viðskiptaafgangur á árinu 2019 myndi reynast u.þ.b. 100 ma.kr., eða sem svarar til 3,5% af VLF. Þær tölur og gögn sem birst hafa síðan hafa aukið líkur á að þarna hafi verið hóflega spáð og að viðskiptaafgangurinn á síðasta ári hafi verið eitthvað meiri. Útlit er einnig fyrir að viðskiptaafgangur verið allnokkur á árinu 2020, sem mun þá áfram renna stoðum undir krónuna að mati okkar.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband