Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Vörum við sviksamlegum QR kóða öppum og auglýsingum

Óprúttnir aðilar hafa sett upp sviksamleg öpp á Playstore og Appstore til þess að lesa QR kóða í yfirskini þess að stela kortanúmerum.


Svikin ganga þannig fyrir sig að sviksamlega appinu er hlaðið niður og svo notað til að lesa QR kóða, en í staðinn fyrir að lesa QR kóðann og skila þér á réttan stað þá fer appið með þig á sviksamlega greiðslusíðu þar sem þú ert beðinn um kortaupplýsingar. Einnig höfum við séð það sama gerast með sviksamlega auglýsingaglugga sem reyna að villa um fyrir réttum stað til að slá inn greiðsluupplýsingar í netviðskiptum.

Ef kortanúmerið lendir í höndum þessa svikahrappa fara fljótlega lágar, en tíðar færslur að mjatla af kortinu frá seljendaheitum sem minna helst á stafarugl. Séu vefsíðurnar heimsóttar sem seljendanöfnin vísa á þá tekur við óhjálpsamt þjónustuver og tilraunir til að fá nýtt kortanúmer uppgefið til að „endurgreiða“ en það eru endurheimtarsvik. Ef þú lendir í svona svikum þá þarftu að loka greiðslukortinu og henda út sviksamlega QR kóða appinu.

Það sem þú getur gert til að verjast þessum svikum:
Notaðu myndavélina í símanum til að lesa QR kóða – allir nýlegir símar eru með innbyggða virkni í myndavélinni til að lesa QR Kóða. Beindu bara myndavélinni að QR kóðanum og þá birtist hlekkur til að opna sem þú smellir á. Það er mikilvægt að hafa í huga að QR kóðar eru ekki sviksamlegir í eðli sínu, heldur eru þetta sviksamleg öpp sem fara með þig á rangan stað eftir að þú reynir að lesa QR kóða.

Hér fyrir neðan er mynd af dæmigerðum sviksamlegum QR kóða öppum og auglýsingum sem ber að varast: