Vöru- og þjónustuviðskipti vógu salt í fyrra

Vöruskiptahalli og afgangur af þjónustuviðskiptum vógust á í fyrra. Samdráttur bæði í vöruinnflutningi og -útflutningi eftir því sem leið á síðasta ár er til marks um minnkandi spennu í hagkerfinu. Útlit er fyrir þokkalegt jafnvægi á utanríkisviðskiptum næsta kastið.


Vöruskiptahalli í desember var 29,5 ma.kr. samkvæmt nýlega birtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Samdráttur var bæði í vöruinnflutningi og -útflutningi í krónum talið, hvort sem miðað er við mánuðinn á undan eða jólamánuðinn ári fyrr. Útflutningur nam alls ríflega 72 ma.kr. en vörur voru á sama tíma fluttar inn fyrir tæplega 102 ma.kr.

Útflutningur var á svipuðu róli og verið hefur undanfarna fjórðunga ef litið er fram hjá mánaðarsveiflum. Útflutningur sjávarafurða var raunar með minnsta móti, eða tæpir 24 ma.kr. og svipaða sögu má segja af iðnaðarvörum að áli undanskildu. Útflutningur á slíkum vörum nám tæpum 12 ma.kr. og hefur ekki verið minni síðan í apríl sl. , en á móti kom allmyndarlegur álútflutningur. Alls var flutt út ál og álafurðir fyrir rétt rúma 30 ma.kr. og hefur útflutningsverðmæti áls ekki verið meira frá því í júní síðastliðnum. Hér má nefna að talsverð sveifla varð á álverði innan desembermánaðar en að jafnaði var verðið í desember miðað við algenga samninga sem miðað er við hjá Trading Economics rétt rúmir 2.380 Bandaríkjadollarar á hvert tonn og hefur ekki verið hærra síðan í mars sl.

Innflutningur hefur heldur látið undan síga undanfarna mánuði að jafnaði þótt mánaðarsveiflur séu of miklar til að draga sterka ályktun um undirliggjandi þróun. Af einstökum liðum má nefna að innflutningur fólksbíla nam tæpum 12 ma.kr. og hefur ekki verið meiri í krónum talið frá mars sl.

Í því sambandi má nefna að Bílgreinasambandið sendi í ársbyrjun frá sér uppfærðar tölur um sölu nýrra fólksbíla í desember þar sem töluverður fólksbíla var skráður á lokametrum síðasta árs. Vafalítið hefur þar verið á ferð kapphlaup við tímann þar sem fólk og fyrirtæki hafa viljað festa kaup á nýjum rafbílum áður en breytingar á gjaldtöku vegna þeirra tóku gildi um áramótin. Kom á daginn að nærri 92% af seldum nýjum bílum í desember til einstaklinga og fyrirtækja að bílaleigum undanskildum voru rafbílar og tæp 5% til viðbótar voru einhvers konar tvinnbílar.

Innflutningur á almennum neysluvörum var hins vegar með minna móti í samanburði við mánuðina á undan og sama má segja um innflutning á eldsneyti og almennum fjárfestingarvörum.

Vöruskiptin fylgja hagsveiflunni

Ef við leitumst við að horfa í gegn um mánaðarsveiflur og áhrif af gengisþróun krónu og vöruskiptatölurnar má sjá nokkuð greinilegan viðsnúning í þróun bæði á innflutningi og útflutningi. Eftir kröftugan vöxt frá því snemma árs 2021 fram undir árslok 2022 dró hratt úr vextinum á báðum hliðum vöruskiptajafnaðarins. Útflutningurinn gaf þó fyrr og meira eftir en innflutningur og var vöruskiptahalli til að mynda með mesta móti í fyrrasumar, meðal annars vegna vaxandi aðfangaþarfar ferðaþjónustunnar. Á lokafjórðungi ársins skrapp bæði innflutningur og útflutningur hins vegar umtalsvert saman á þennan mælikvarða. Nam samdrátturinn tæpum 13% á útflutningshliðinni en innflutningur minnkaði um tæp 9% á sama tíma.

Þessi þróun endurspeglar nokkuð vel hagsveifluna undanfarin misseri þar sem hagvöxtur var hraður árin 2021 og 2022 en jafnt og þétt dró úr vextinum eftir því sem leið á síðasta ár. Þótt verðlag á helstu útflutningsvörum og innfluttum aðföngum spili hér einnig hlutverk helst þessi þróun i hendur við viðsnúning í þróun einkaneyslu og fjárfestingar, sem og breyttan takt í magni vöruútflutnings þar sem samdráttur í kvóta ýmissa botnfisktegunda og minni veiðar á uppsjávarfiski hafa ekki síst áhrif.

Þjónustuafgangur og vöruskiptahalli vógust á í fyrra

Vöruskiptahalli á síðasta ári nam alls 394 ma.kr. og var þar með 93 ma.kr. meiri en árið 2022. Meiri halli skrifast nær alfarið á minna verðmæti vöruútflutnings sem var 914 ma.kr. árið 2023 og skrapp saman um 91 ma.kr. í krónum talið milli ára. Þar munaði mestu um 13% samdrátt í verðmæti útfluttra iðnaðarvara og 4% minna verðmæti útfluttra sjávarafurða í krónum talið milli ára.

Vöruinnflutningur í fyrra nam hins vegar 1.308 ma.kr. og var þar með 2 ma.kr. meiri í krónum talið en árið 2022. Þar vógust á meiri innflutningur á fjárfestingavörum, flutningatækjum og mat- og drykkjarvörum annars vegar, en samdráttur í innflutningi á hrá- og rekstrarvörum sem og jarðefnaeldsneyti og skyldum vörum hins vegar.

Vaxandi vöruskiptahalli segir hins vegar ekki nema hluta sögunnar um þróun utanríkisviðskipta undanfarin misseri. Þar vegur til að mynda þungt stóraukinn afgangur af þjónustuviðskiptum með batnandi hag ferðaþjónustunnar eftir faraldur.

Hagstofan birtir tölur yfir vöru- og þjónustuviðskipti eftir ársfjórðungum og mánuðum og í þeim gögnum eru vöruskiptin færð til bókar á greiðslujafnaðargrunni, sem að jafnaði skilar heldur hagfelldari niðurstöðu en þegar stuðst er við svokallað fob/cif verðmæti innflutnings og útflutnings. Á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs nam afgangur af þjónustuviðskiptum til að mynda 262 ma.kr. og vó þar með upp 225 ma.kr. vöruskiptahalla á tímabilinu á fyrrgreindan mælikvarða, og gott betur.

Fyrirliggjandi tölur um októbermánuð ásamt grófu mati okkar á þróun þjónustuviðskipta á lokamánuðum ársins bendir til þess að afgangur á þjónustujöfnuði hafi verið á bilinu 40-45 ma.kr. á 4. fjórðungi síðasta árs. Sé það nærri lagi áætlum við að samanlagður halli á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd hafi verið í grennd við 45 ma.kr. á lokafjórðungi ársins 2023. Á síðasta ári í heild virðist því sem vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd hafi verið í þokkalegu jafnvægi.

Horfur eru á að áfram verði slík viðskipti nokkuð nærri jafnvægi. Líkt og í fyrra munu afgangur af þjónustujöfnuði og vöruskiptahalli vegast á og í krónum talið er útlit fyrir vöxt beggja þessara stærða. Vöruskiptahallinn endurspeglar að hluta vaxandi þjónustuútflutning sem kallar á meiri innflutt aðföng. Við teljum því að utanríkisviðskipti verði krónunni ekki verulegur fjötur um fót og líklegra er að gjaldeyrisflæði vegna þeirra verði jákvætt fyrir gengi gjaldmiðilsins okkar en hitt.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband