Viðsnúningur í vöruskiptum

Mikill vöruskiptahalli í mars skýrist líklega að stórum hluta af tímabundinni niðursveiflu í útflutningi. Vöruskiptatölur síðustu missera teikna hins vegar upp allskýra mynd af hagsveiflunni þar sem samdráttur í innflutningi jafnt sem útflutningi hefur tekið við af örum vexti. Merki eru um samdrátt í sumum tegundum einkaneyslu og fjárfestingar á fyrsta fjórðungi ársins.


Vöruskipti í marsmánuði voru óhagstæð um ríflega 33 ma.kr. samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofu. Er það mesti halli frá október í fyrra og skrifast mikill halli fyrst og fremst á óvenju rýran vöruútflutning í mánuðinum. Alls voru fluttar út vörur í mars fyrir rúmlega 64 ma.kr. sem samsvarar 28% samdrætti milli ára í krónum talið. Á sama tíma nam vöruinnflutningur tæplega 98 ma.kr. og skrapp saman um 17% í krónum talið milli ára.

Það er nánast sama hvar borið er niður í útflutningstölunum, samdráttur mælist í nær öllum helstu undirliðum. Útflutningur á sjávarfangi (23 ma.kr. í mars ‘24) skrapp þannig saman um þriðjung á milli ára, útflutningur á áli (22 ma.kr.) um 28% og útflutningur á eldisfiski (3 ma.kr.) um helming.

Gengi krónu var tæpri prósentu sterkara í síðasta mánuði en í mars í fyrra, svo ekki skýrir það nema lítinn hluta þessarar breytingar. Álverð var einnig heldur lægra í mars síðastliðnum en fyrir ári síðan, en aftur er munurinn ekki slíkur að hann skýri þennan samdrátt. Hugsanlega gætu páskarnir spilað þarna inn í, en páskafrí féll nær alfarið á marsmánuði þetta árið en var í apríl í fyrra. Þá sveiflast álútflutningur nokkuð milli mánaða eftir því hvernig stendur á skipakomum. Orkuskömmtun til álveranna yfir vetur hefur hér líka einhver áhrif.

Svipaða sögu má segja um þróun í útflutningi sjávarafurða. Ef leiðrétt er fyrir gengisbreytingum var verð þeirra miðað við verðvísitölu sjávarafurða 2% lægra á fyrstu mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra. Við það bætist að loðnubrestur varð þetta árið og því sáralítið flutt út af loðnu í febrúar og mars auk þess sem kvóti í ufsa og grálúðu var lækkaður milli fiskveiðiára þótt á móti vegi aukning á ýsukvóta og lítilsháttar aukning þorskkvóta.

Vöruskiptin fylgja hagsveiflunni

Í litlu, opnu hagkerfi eins og hinu íslenska er hægt að lesa talsvert í ganginn í efnahagslífinu með því að rýna í vöruskiptatölur. Hagsveifla undanfarinna missera endurspeglast til að mynda skýrt í þróun vöruinnflutnings sem og -útflutnings. Eftir hraðan vöxt frá vordögum 2021 fram undir árslok 2022 fór að draga verulega úr vextinum fyrir ári síðan og á seinni helmingi síðasta árs skrapp bæði vöruútflutningur og -innflutningur talsvert saman, reiknað á föstu gengi.

Á fyrsta fjórðungi þessa árs nemur samdráttur útflutnings tæpum 7% og samdráttur í innflutningi rúmum 2% frá sama tíma í fyrra, reiknað á föstu gengi krónu. Á útflutningshliðinni endurspeglar sá samdráttur meðal annars minni kvóta í ufsa og gráðlúðu sem og loðnubrest sem skilar sér í minni útflutningstekjum af sjávarafurðum sem og heldur lægra verð á sjávarafurðum og áli en á sama tíma í fyrra. Dróst útflutningur sjávarafurða saman um tæp 7% á þennan mælikvarða milli ára og útflutningur áls saman um tæp 15%. Það er hins vegar jákvætt að sjá yfir 75% aukningu í útflutningi á lyfjum og lækningatækjum á milli ára. Þær greinar hafa sem kunnugt er verið í sókn hérlendis og má í raun segja að þær endurspegli að verulegu leyti útflutning á hugviti og nýtingu mannauðs.

Innflutningsmegin má nefna að innflutningur fólksbíla skrapp saman um helming á fjórðungnum frá sama tíma í fyrra, reiknað á föstu gengi krónu. Rímar það við nýlegar tölur frá Bílgreinasambandinu sem hljóða upp á ríflega 60% samdrátt í nýskráningum fólksbíla á tímabilinu milli ára. Þá skrapp innflutningur á eldsneyti og olíum saman um 15% milli ára sem að hluta skýrist af orkuskiptum í bifreiðaflota landsmanna en trúlega líka af heldur minni umsvifum almennt. Allnokkur samdráttur mældist einnig í innflutningi á hálfvaranlegum neysluvörum (t.d. fatnaði og slíku) á þennan kvarða og á heildina litið óx innflutningur á neysluvörum aðeins um rúma prósentu milli ár á fyrsta ársfjórðungi.

Við lesum út úr þessum tölum að utanríkisviðskipti með vörur hafi líkast til verið nokkur dragbítur á hagvöxt í fjórðungnum og talsverðar líkur eru á að viðskiptahalli hafi einkennt hann líkt og lokafjórðung síðasta árs. Einnig eru skýr merki um kólnandi hagkerfi fólgin í innflutningstölunum hvað einkaneyslu og fjárfestingu varðar. Við spáðum því í janúarlok að hagvöxtur myndi sækja hægt og bítandi í sig veðrið þegar lengra liði á þetta ár en vöxturinn yrði þó einungis tæp 2% í ár. Ekki verður annað séð en framangreindar tölur, sem og aðrar nýlegar hagtölur, styðji við þá sögu.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband