Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Viðskiptaafgangur þegar orðinn meiri en í fyrra

Viðskiptaafgangur verður líklega meiri í ár en í fyrra þrátt fyrir áföll í ferðaþjónustu og loðnubrest. Erlend staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið sterkari, sem er dýrmætt veganesti inn í óvissutíma í þjóðarbúinu.


Minni viðskiptaafgangur á þriðja ársfjórðungi..

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans nam viðskiptaafgangur 63 mö.kr. á 3. fjórðungi ársins. Var það 11 ma.kr. minni afgangur en á sama fjórðungi í fyrra og skýrist munurinn fyrst og fremst af minni umsvifum í ferðaþjónustu. Þegar lá fyrir að afgangur af þjónustujöfnuði nam 101,4 mö.kr. (sbr. við 123 ma.kr. fyrir ári) og vöruskiptahalli var 45,9 ma.kr. (47,6 ma.kr. fyrir ári). Hins vegar var 13,4 ma.kr. afgangur af jöfnuði frumþáttatekna á fjórðungnum, en hann endurspeglar að mestu fjármagnstekjur og -gjöld milli landa. Hrein rekstrarframlög skiluðu 5,9 ma.kr. halla líkt og á sama tímabili í fyrra, en þar vega þungt liðir á borð við peningasendingar innan fjölskyldna og framlög til alþjóðastarfs.

..en talsvert meiri á fyrstu níu mánuðum ársins

Þótt afgangur 3. fjórðungs hafi skroppið saman milli ára er þó viðskiptaafgangurinn það sem af er ári býsna myndarlegur. Alls var tæplega 121 ma.kr. afgangur af viðskiptajöfnuði á fyrstu 9 mánuðum ársins. Er afgangurinn þegar orðinn meiri en hann var allt síðasta ár, en þá mældist hann 79 ma.kr. Hér hafa raunar óreglulegir liðir á borð við sölu flugvéla WOW-Air á fyrsta fjórðungi ársins talsverð áhrif, en sé leiðrétt fyrir slíkum liðum var afgangurinn 102 ma.kr. á fyrstu þremur fjórðungum ársins og afgangur síðasta árs 90 ma.kr. Er það engu síður býsna myndarlegur afgangur og mun hagfelldari niðurstaða en flestir bjuggust við fyrr á árinu í ljósi áfalla í ferðaþjónustu og loðnubrests. Umtalsverður samdráttur innflutnings á þar ekki síst hlut að máli ásamt myndarlegum hreinum fjármagnstekjum þetta árið.

Við spáðum í september að viðskiptaafgangur myndi nema u.þ.b. 100 mö.kr. í ár sem samsvarar 3,5% af vergri landsframleiðslu (VLF) ársins. Þótt enn vanti einn fjórðung upp á árið virðist líklegt að afgangurinn verði heldur meiri en sú spá hljóðaði upp á.

Hrein erlend staða jákvæð um ¼ af landsframleiðslu

Seðlabankinn birti einnig yfirlit um erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok september og er óhætt að segja að þær séu uppörvandi nú á aðventunni. Hrein staða þjóðarbúsins mældist jákvæð um 714 ma.kr. sem svarar til tæplega fjórðungs af VLF. Hefur staðan aldrei verið betri á þennan kvarða hvort sem reiknað er í krónum eða hlutfalli af VLF, en hún batnaði um 91 ma.kr. á fjórðungnum. Kemur fram í frétt Seðlabankans að þar hafi munað mestu um kaup innlendra aðila á erlendum verðbréfum sem námu um 80 ma.kr. Í septemberlok námu erlendar eignir 3.870 mö.kr. en erlendar skuldir 3.156 mö.kr.

Talsverður munur er á samsetningu eigna og skulda þjóðarbúsins. Þannig eru 1.624 ma.kr. af erlendum eignum í formi verðbréfaeigna og vegur þar þungt eign lífeyrissjóðanna í erlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum upp á 1.333 ma.kr. Þá telur 826 ma.kr. gjaldeyrisforði Seðlabankans drjúgt á eignahliðinni. Á skuldahliðinni vega hvað þyngst erlend eign á íslenskum verðbréfum sem nemur 1.339 mö.kr. og bein fjárfesting erlendra aðila hér á landi upp á 1.239 ma.kr. Rétt er að hafa í huga að þótt stærstur hluti verðbréfaeignar erlendra aðila sé í skuldabréfum ber minnihluti þeirra bréfa íslenska vexti. Vaxtamunur við útlönd vegur því ekki ýkja þungt í jöfnuði frumþáttatekna, sem endurspeglast í ágætum afgangi þessa liðar undanfarna fjórðunga.

Góð erlend staða styrkur á óvissutímum

Líklega hefði fáa órað fyrir því í upphafi áratugarins að erlenda staðan yrði jafn hagfelld undir lok hans og raun ber vitni. Eins og sjá má af myndinni hefur erlenda staðan farið frá því að vera neikvæð um 71% af VLF í árslok 2010 í núverandi jákvæða stöðu upp á nærri 25% af VLF. Í krónum talið hefur hreina erlenda staðan batnað um 1.778 ma.kr. á þessu tímabili og munar um minna. Auk myndarlegs viðskiptaafgangs hefur farsæl lausn á þeim áskorunum sem tengdust uppgjöri slitabúa gömlu bankanna vegið hér þungt.

Þessi jákvæða þróun er enn athyglisverðari í ljósi þess að raungengi krónu hefur verið allhátt í sögulegu ljósi síðustu ár, þótt það hafi raunar lækkað nokkuð undanfarið. Er það algert nýmæli í íslenskri hagsögu að landið fari í gegn um bæði uppgangstíma og fyrstu fjórðunga bakslags í útflutningi án þess að halli myndist á utanríkisviðskiptum og erlend staða þjóðarbúsins rýrni.

Þessi breyting til batnaðar endurspeglar að mati okkar ekki síst breytta hegðun heimila, fyrirtækja og hins opinbera þar sem góðærið undanfarin ár hefur verið meðhöndlað af meiri ráðdeild en áður var. Þjóðhagslegur sparnaður hefur því verið myndarlegur undanfarið og fyrir bragðið er styrkur hagkerfisins til að takast á við bakslag eins og orðið er þetta árið miklu meiri en ella. Það þýðir svo aftur að líkur á óróa á gjaldeyrismarkaði, miklum sveiflum í gengi krónu og meðfylgjandi verðbólguskoti verður miklu minni en áður og heimili og fyrirtæki geta tekist á við magrari tíð í umhverfi sem markast mun síður af óvissu en gjarnan hefur verið hér á landi. Þetta skiptir miklu um þá skoðun okkar að efnahagsbakslagið nú í lok áratugarins verði líklega talsvert léttbærara en oft hefur verið raunin í íslensku efnahagslífi.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband