Minni viðskiptaafgangur á þriðja ársfjórðungi..
Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans nam viðskiptaafgangur 63 mö.kr. á 3. fjórðungi ársins. Var það 11 ma.kr. minni afgangur en á sama fjórðungi í fyrra og skýrist munurinn fyrst og fremst af minni umsvifum í ferðaþjónustu. Þegar lá fyrir að afgangur af þjónustujöfnuði nam 101,4 mö.kr. (sbr. við 123 ma.kr. fyrir ári) og vöruskiptahalli var 45,9 ma.kr. (47,6 ma.kr. fyrir ári). Hins vegar var 13,4 ma.kr. afgangur af jöfnuði frumþáttatekna á fjórðungnum, en hann endurspeglar að mestu fjármagnstekjur og -gjöld milli landa. Hrein rekstrarframlög skiluðu 5,9 ma.kr. halla líkt og á sama tímabili í fyrra, en þar vega þungt liðir á borð við peningasendingar innan fjölskyldna og framlög til alþjóðastarfs.