Viðskiptaafgangur og stórbætt erlend staða þjóðarbúsins í fyrra

Viðskiptaafgangur nam 1% af landsframleiðslu í fyrra eftir tveggja ára viðskiptahalla. Jákvæð þróun utanríkisviðskipta endurspeglar aðlögun að betra jafnvægi eftir stutt þensluskeið. Hrein erlend eign þjóðarbúsins jókst umtalsvert á síðasta ári og horfur eru góðar fyrir ytra jafnvægi þjóðarbúsins á komandi árum.


Viðskiptahalli nam 28,6 ma.kr. á lokafjórðungi síðasta árs samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Þegar lá fyrir að vöruskiptahalli á fjórðungum var 77,5 ma.kr. og afgangur á þjónustujöfnuði 28,5 ma.kr. á fjórðungnum. Í tölum Seðlabankans bættust við jöfnuður frumþáttatekna, þar sem afgangur var 34 ma.kr., og rekstrarframlög milli landa sem voru neikvæð um 13,5 ma.kr. Niðurstaða fjórðungsins er nokkuð yfir væntingum okkar og vegur hagstæðari jöfnuður frumþáttatekna þar þyngst.

Þáttatekjujöfnuður sveiflast með álverði

Ávallt er fróðlegt að rýna í jöfnuð frumþáttatekna í tölum Seðlabankans en sá jöfnuður endurspeglar flæði tekna og gjalda vegna vinnuafls og fjármagns milli landa. Með öðrum orðum heldur hann utan um launagreiðslur til og frá landinu, sem og vaxtatekjur og -gjöld ásamt arði af beinni og óbeinni hlutafjáreign.

Eins og sjá má af myndinni ræður þróun arðs af beinni fjárfestingu landa á milli miklu um niðurstöðu jafnaðar frumþáttatekna í heild. Þar vegur þungt hagnaður eða tap af rekstri álfyrirtækjanna þriggja sem öll eru í erlendri eigu. Sveiflur í álverði eru ráðandi þáttur í rekstrarniðurstöðu álveranna á hverjum tíma. Af því leiðir að sterk fylgni hefur undanfarin ár verið á milli álverðs og jafnaðar frumþáttatekna eins og myndin sýnir. Til að mynda hækkaði álverð umtalsvert á árunum 2021-2022 og í kjölfarið óx arðsemi álveranna og að sama skapi versnaði jöfnuður frumþáttatekna. Með lækkun álverðs undanfarin misseri hefur svo hagur álveranna versnað en jöfnuður þáttatekna braggast á ný.

Það er þó auðvitað ekki svo að þjóðarbúið hagnist á lægra álverði. Lækkandi álverð kemur fram í minni útflutningstekjum og þar með auknum vöruskiptahalla. Þessi öfuga þróun álverðsins og þáttatekjujafnaðar endurspeglar fyrst og fremst þá staðreynd að virðisauki af álframleiðslunni hér á landi sveiflast miklu minna en rekstur álveranna. Við erum því í einhverjum skilningi að verulegu leyti varin fyrir áhrifum sveifla í álverði á íslenskt þjóðarbú.

Aftur viðskiptaafgangur eftir tvö hallaár

Alls var ríflega 41 ma.kr. afgangur á viðskiptajöfnuði á árinu 2023. Var það töluverð breyting til hins betra eftir tvö ár viðskiptahalla. Hallinn var til að mynda ríflega 65 ma.kr. á árinu 2022. Þessi jákvæða þróun endurspeglar ekki síst endurkomu ferðaþjónustunnar sem meginstoðar undir útflutningstekjur þjóðarbúsins auk þess sem annar þjónustuútflutningur hefur haldið áfram að sækja í sig veðrið, líkt og við fjölluðum nýlega um.

Í þjóðhagsspá okkar sem birt var í janúarlok gerðum við ráð fyrir því að jafnvægi hefði verið á utanríkisviðskiptum á síðasta ári. Niðurstaðan, viðskiptaafgangur sem nemur u.þ.b. 1% af vergri landsframleiðslu (VLF) er því nokkru hagfelldari en við töldum. Í spánni gerðum við ráð fyrir lítilsháttar viðskiptaafgangi á þessu ári sem og hinum næstu. Stendur sú mynd óbreytt eftir birtingu framangreindra talna.

Talsverð aukning á hreinum erlendum eignum

Seðlabankinn birti einnig í morgun tölur um hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins um síðustu áramót. Alls voru erlendar eignir að frádregnum skuldbindingum 1.614 ma.kr. í árslok 2023 en það samsvarar 37,7% af VLF ársins. Erlendar eignir voru alls 5.753 ma.kr. en erlendar skuldir 4.139 ma.kr. Á milli fjórðunga batnaði erlenda staðan um 326 ma.kr. þar sem erlendar eignir jukust langt umfram vöxt skulda á tímabilinu.

Verulegur munur er á samsetningu erlendra eigna og skulda þjóðarbúsins. Eins og myndin sýnir nam hrein erlend eign í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum 2.735 ma.kr. um áramótin og þá var liðurinn Annað, sem að mestu leyti endurspeglar hreinan gjaldeyrisforða Seðlabankans, jákvæður um 600 ma.kr.

Á móti voru erlendar vaxtaberandi skuldir umfram samsvarandi eignir 1.210 ma.kr. og bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi var 512 ma.kr. umfram beina fjárfestingu innlendra aðila í útlöndum.

Hreina eign landsmanna í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum er að stærstum hluta tilkomin vegna erlendra eigna lífeyrissjóðanna. Slíkar eignir námu 2.739 ma.kr. í árslok 2023 og höfðu þá aukist um 247 ma.kr. á lokafjórðungi ársins. Hér vegur þungt að erlendir hlutabréfamarkaðir voru á góðri siglingu á lokamánuðum síðasta árs eins og við fjölluðum nýlega um.

Til merkis um betra ytra jafnvægi

Heilt yfir er óhætt að segja að framangreindar tölur slái jákvæðan tón um ytra jafnvægi þjóðarbúsins. Þær endurspegla meðal annars viðsnúning í hagkerfinu frá þenslu yfir í aðlögun að jafnvægi. Eftir tveggja ára viðskiptahalla eru erlendar tekjur þjóðarbúsins aftur farnar að vega upp erlend útgjöld og gott betur.

Þá þarf vart að fara mörgum orðum um það hversu mikilvæg jákvæð erlend eignastaða þjóðarbúsins er fyrir lítið opið hagkerfi með smáan fljótandi gjaldmiðil. Eftir nánast samfellda sögu viðskiptahalla og erlendrar skuldasöfnunar á lýðveldistímanum urðu alger umskipti til hins betra eftir fjármálakreppuna 2008-2009. Þótt við teljum ólíklegt að aftur komi tímabil jafn mikils viðskiptaafgangs og hér var lengst af á síðasta áratug eru að okkar mati góðar líkur á að við munum áfram búa við allgott jafnvægi á utanríkisviðskiptum á komandi árum og að erlend staða þjóðarbúsins styrkist fremur en hitt. Það er öfundsverð staða að vera í meðal þjóða heims.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband