Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 1,1% í mars frá fyrri mánuði. Gangi spá okkar eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 6,8% en var 6,2% í febrúar. Verðbólga hefur ekki mælst svo mikil frá því í maí 2010. Við teljum að verðbólga verði umtalsverð næstu mánuði en vart þarf að taka fram að óvissan er mikil og aðstæður fljótar að breytast líkt og raunin hefur verið að undanförnu. Hagstofan birtir VNV fyrir mánuðinn þann 29. mars næstkomandi.
Við spáum 6,8% verðbólgu í mars
Útlit er fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 1,1% milli mánaða í mars. Ársverðbólga mælist 6,8% gangi spá okkar eftir. Innflutt verðbólga mun aukast enn frekar á komandi mánuðum en mikil óvissa ríkir um hversu langvinn hækkunin erlendis verður.
Íbúðaverð heldur áfram að hækka
Líkt og síðustu mánuði er það hækkandi íbúðaverð sem vegur þungt til hækkunar á vísitölunni í mars. Í heild hækkar húsnæðisliðurinn um 0,9% (0,3% áhrif á VNV) þar sem mestu munar um reiknuðu húsaleiguna. Við spáum því að reiknuð húsaleiga hækki um 1,5% milli mánaða (0,26% áhrif á VNV). Íbúðamarkaðurinn er enn á fleygiferð þar sem mikil eftirspurnarspenna ríkir á markaði og framboð er af skornum skammti. Samkvæmt Þjóðskrá hækkaði vísitala íbúðaverðs um 2,5% í febrúar. Vissulega gefur vísitalan ákveðna mynd af þróun íbúðaverðs en hafa verður í huga að mælingar Þjóðskrár og Hagstofunnar eru ólíkar. Mælingar Þjóðskrár ná einungis til höfuðborgarsvæðisins en Hagstofan reiknar þriggja mánaða hlaupandi meðaltal um allt landið.
Stýrivextir hafa hækkað og eru nú á sama stað og fyrir faraldur. Hingað til hefur hækkunin ekki haft teljandi áhrif á eftirspurn á íbúðamarkaði. Við teljum líklegt að vegna stýrivaxtahækkana auk annarra aðgerða Seðlabankans muni eftirspurnarþrýstingurinn minnka fyrr en síðar. Þessa dagana er enn mikilvægara fyrir þróun VNV að hægja taki á íbúðaverðshækkunum á næstunni þar sem hægari hækkunartaktur íbúðaverðs mun vega á móti aukinni innfluttri verðbólgu.
Innflutt verðbólga farin að láta á sér kræla
Í mælingu marsmánaðar er ljóst að innflutt verðbólga er farin að aukast. Ferðir og flutningar er sá liður sem vegur þyngst til hækkunar í mars. Liðurinn hækkar um 2,5% (0,35% áhrif á VNV) samkvæmt spá okkar. Þar munar mestu um eldsneytisverðið sem hækkar um 8% (0,25% áhrif á VNV). Eldsneytisverð hækkaði skarpt í kjölfar stríðsins í Úkraínu eftir að ýmis ríki beittu Rússland viðskiptaþvingunum. Verðið hefur sveiflast nokkuð að undanförnu en ljóst er samkvæmt mælingum okkar að þessar hækkanir hafi skilað sér hingað til lands.
Auk hækkunar á eldsneytisverði gerum við ráð fyrir að flutningar í lofti hækki á milli mánaða um 5,6% (0,09% áhrif á VNV). Erfitt hefur þó reynst að mæla flugverð síðustu misseri og lækkaði liðurinn nokkuð óvænt um 10% í febrúar. Líklegt þykir að flugverð muni hækka á næstu mánuðum bæði vegna aukinnar eftirspurnar og vegna hærra eldsneytisverðs.
Flestir aðrir liðir hækka á milli mánaða. Samkvæmt mælingu okkar hækka fatnaður og skór í verði um 5% (0,19% áhrif á VNV) vegna útsöluloka en liðurinn hækkaði einungis um 3% í febrúar eftir útsölurnar í janúar. Einnig hækkar verð á matar- og drykkjarvörum um 0,7% (0,10% áhrif á VNV) og hótel og veitingastöðum um 0,7% (0,03% áhrif á VNV).
Umtalsverð verðbólga áfram í kortunum
Verð á ýmsum hrávörum hefur rokið upp eftir að stríðið skall á í Úkraínu auk þess sem enn eru framboðshnökrar vegna faraldursins. Hækkun á hrávöru- og orkuverði mun að öðru óbreyttu þrýsta verðlagi talsvert upp hér á landi og líklegt er að innflutt verðbólga muni aukist frekar á komandi mánuðum.
Innfluttir liðir vega enn ekki ýkja þungt í 12 mánaða verðbólgutaktinum eins og myndin sýnir en það mun að öllum líkindum breytast hratt. Eins og mæling okkar í marsmánuði gefur til kynna verður áhrifanna fyrst vart í eldsneytis- og matvöruverði sem smitast í kjölfarið í meiri mæli yfir í flugfargjöld og annan ferðakostnað. Á endanum kemur þróunin fram í flestum innfluttum undirliðum VNV. Vitaskuld er enn gríðarleg óvissa um hversu langvinn hækkunin erlendis verður og í hvaða mæli styrking krónu gæti vegið á móti.
Húsnæðisliður og innfluttar vörur eru þessa dagana helstu hækkunarvaldar í vísitölu neysluverðs og verða það væntanlega áfram næsta kastið. Horfur eru á að verðbólga verði áfram mikil og ekki fari að draga úr henni að ráði fyrr en á næsta ári. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,7% hækkun VNV í apríl, 0,6% hækkun í maí og 0,5% í júní. Gangi sú spá eftir mælist verðbólga 7,3% í júní.
Höfundur
Lagalegur fyrirvari
Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).
Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.
Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.
Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.
Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.
Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).
BANDARÍKIN
Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.
KANADA
Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.
ÖNNUR LÖND
Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.