Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Vextir og verðbætur falla niður af íbúðalánum Grindvíkinga í þrjá mánuði

Vegna náttúruhamfara og óvissuástands í Grindavík hafa Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, í samvinnu við Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), gert samkomulag um að fella niður vexti og verðbætur af íbúðalánum Grindvíkinga í þrjá mánuði. Samkomulag þessa efnis var undirritað í dag, 22. nóvember.


Með þessu vilja bankarnir koma til móts við viðskiptavini sína í Grindavík sem standa frammi fyrir mikilli óvissu varðandi tekjur, útgjöld, húsnæði og afdrif eigna sinna. Með því að bankarnir þrír hafi komist að samkomulagi er stuðlað að jafnræði sé á milli lántaka bankanna í Grindavík.

Þessi aðgerð bankanna og SFF er liður í heildarstæðri úrlausn fyrir Grindvíkinga, með aðkomu stjórnvalda og fleiri aðila, sem gert er ráð fyrir að verði kynnt á næstu dögum.

Niðurfellingin verður á vöxtum og verðbótum fyrir nóvember og desember 2023 og janúar 2024 og mun hún takmarkast við vexti og verðbætur af láni að hámarki 50 milljónir króna. Ef lántaki er með hærra lán miðast niðurfelling við að fjárhæð lánsins sé 50 milljónir króna.

Nánari útfærsla á niðurfellingunni er í höndum hvers banka fyrir sig. Samkomulagið tekur til ákveðinna lágmarksviðmiða en felur ekki í sér nein höft á því að einstakir bankar geti veitt viðskiptavinum sínum frekari fyrirgreiðslu eða keppa að öðru leyti á grundvelli viðskiptaskilmála.

Auk niðurfellingar vaxta og verðbóta í 3 mánuði, hafa allir bankarnir hafa þegar boðið Grindvíkingum greiðsluskjól , þ.e. að fresta öllum afborgunum af íbúðalánum sínum, og fleiri úrræði.

Það er fullur vilji allra bankanna að vera hluti af heildarlausn og koma með sanngjörnum hætti til móts við Grindvíkinga. Ljóst er að enn ríkir mikil óvissa um framhaldið og munu bankarnir fylgjast vel með stöðu mála sinna viðskiptavina.