Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Veruleg hjöðnun verðbólgu í júlímánuði

Verðbólga í júlí er sú minnsta frá maí í fyrra og hefur árstakturinn nú hjaðnað um 2,6 prósentur undanfarna 5 mánuði. Viðsnúningur í íbúðaverði á stóran hluta að máli í hjöðnun verðbólgunnar í júlí. Verðbólguhorfur fyrir komandi mánuði hafa skánað og er útlit fyrir frekari hjöðnun verðbólgu á seinni árshelmingi.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,03% í júlí skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar í 7,6% en hún var 8,9% í júní síðastliðnum. Verðbólga hefur ekki verið minni en nú síðan í apríl 2022 en í maí fyrir ári síðan fór verðbólgan í 7,6% líkt og nú. Árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis hjaðnar úr 7,9% í 7,1% og er það minnsta verðbólga á þann mælikvarða frá nóvember í fyrra.

Mæling júlímánaðar er undir okkar spá. Við spáðum 0,2% hækkun VNV milli mánaða og voru aðrar upphaflega birtar spár áþekkar. Væntingar breyttust hins vegar nokkuð eftir nýjustu birtingu á vísitölu íbúðaverðs hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þar sem lækkun íbúðaverðs í júní á höfuðborgarsvæðinu mældist 1,1% milli mánaða. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu er reiknaða húsaleigan sem lækkar öfugt við væntingar okkar. Á móti hækkuðu flugfargjöld heldur meira en við væntum og útsöluáhrif voru óveruleg í verði á húsgögnum, heimilisbúnaði og raftækjum.

Snarpur viðsnúningur í þróun íbúðaverðs

Sá liður sem kom líklega flestum hvað mest á óvart í júlímælingu VNV er reiknaða húsaleigan. Sá liður, sem endurspeglar að mestu þróun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, lækkaði um 0,7% í júlí frá mánuðinum á undan (-0,14% áhrif á VNV). Þar af lækkaði markaðsverð íbúðarhúsnæðis um 1,3% en á móti hækkaði vaxtaþátturinn, sem endurspeglar vexti á verðtryggðum íbúðalánum, reiknuðu húsaleiguna um 0,6%. Greidd húsaleiga hækkaði hins vegar um 0,8% milli mánaða (0,03% í VNV) og verð á rafmagni og hita til heimilanna um 2,4% (0,08% í VNV).

Lækkun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis milli mánaða er sú mesta frá ársbyrjun 2011. Allir undirliðir vísitölu markaðsverðs lækkuðu milli mánaða. Mest lækkaði íbúðaverð á landsbyggðinni, eða um 2,8%. Á höfuðborgarsvæðinu lækkaði íbúðaverð í fjölbýli um 0,7% en verð á sérbýlum um 0,8% milli mánaða.

Óhætt er að segja að snarpur viðsnúningur hafi orðið í þróun íbúðaverðs það sem af er ári. Árshækkun íbúðaverðs mælist nú 3,8% og hefur ekki mælst minni í tæp 4 ár. Í ársbyrjun var hækkunartakturinn hins vegar 18,2% og mest fór hann í tæp 25% fyrir ári síðan. Árshækkun íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu mælist nú 2,0%, á sérbýlum á höfuðborgarsvæði mælist árstakturinn 6,5% og á landsbyggðinni hefur íbúðaverð hækkað um 6,1% undanfarna 12 mánuði.

Þessi viðsnúningur er að mati okkar skýrt merki um að vaxtahækkunarferli Seðlabankans ásamt aðhaldssamari lántökuskilyrðum er farið að hafa umtalsverð áhrif á eftirspurn og þar með efnahagsumsvif. Á sama tíma hefur framboð á íbúðarhúsnæði aukist talsvert á markaði og aðrir mælikvarðar á umsvif á markaði, svo sem meðal sölutími íbúða og hlutfall íbúða sem selst yfir ásettu verði, sýna skýrt að spenna á markaðinum hefur minnkað mikið síðasta árið. Við teljum líklegt að þróunin næsta kastið verði með áþekkum hætti og að íbúðaverðið haldi áfram að toga niður heildartaktinn í verðbólgu.

Útsöluáhrif minni en við væntum í júlí

Útsöluáhrif eru jafnan talsverð í júlímánuði þótt þau hafi raunar minnkað nokkuð á faraldurstímanum. Útsölutakturinn virðist þó hafa verið með nokkuð öðrum hætti en við væntum og koma áhrif útsalanna fyrst og fremst fram í 8,7% verðlækkun á fötum og skóm (-0,34% í VNV). Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði lækkaði lítillega (-0,03% i VNV) en tæki á borð við sjónvörp, tölvur og hljómflutningstæki hækkuðu hins vegar í verði. Eiga áhrif vegna útsala á þessum liðum líklega eftir að koma fram í ágústmælingu VNV.

Ferðakostnaður hækkar um hásumar

Nú er háönn ferðaþjónustunnar skollin á af fullum krafti og sjást þess merki í júlímælingu VNV líkt og oft áður. Þannig hækkuðu flugfargjöld um 12,5% (0,27% í VNV) og þjónusta hótela og veitingastaða um 1,2% (0,06% í VNV) á milli mánaða.

Auk flugfargjaldanna vó hækkun á bifreiðaverði og ýmsum kostnaði við rekstur bifreiða til 0,04% hækkunar VNV. Hins vegar lækkaði eldsneytisverð um 1,1% í júlí (0,03% í VNV).

Loks má nefna að matvælaverð hækkaði um 0,44% í júlí (0,06% í VNV). Er það minnsta mánaðarhækkun frá september í fyrra. Þar munar mestu að verð á innfluttum matvælum stóð nánast í stað en hækkunin milli mánaða skrifast nær alfarið á vörur á borð við kjöt, fisk og mjólkurvörur sem að stærstum hluta eru framleiddar innanlands.

Samsetning verðbólgunnar hefur breyst nokkuð frá því hún tók að hjaðna fyrir alvöru á vordögum. Þegar verðbólga mældist mest í febrúar sl. (10,2%) skýrði verð á innfluttum vörum alls 28% verðbólgunnar, húsnæðisliður tæpan þriðjung, verð á innlendum vörum rúmlega 17% og verð á þjónustu 22% heildarverðbólgunnar.

Í júlímánuði skrifaðist hins vegar 23% verðbólgunnar á innfluttar vörur, húsnæðisliður var að baki 30%, innlendar vörur skýrðu 20% og verðhækkun á þjónustu 28%. Verð á innlendum vörum og þjónustu skýrir því nokkru stærri hluta heildarverðbólgunnar nú en hlutur innfluttra vara og húsnæðisliðar hefur minnkað nokkuð. Þessi þróun rímar við væntingar okkar frá því fyrr á árinu um að draga myndi bæði úr innfluttri verðbólgu og verðhækkun á íbúðamarkaði eftir því sem liði á árið en verðbólga sem á rót sína í hækkun á innlendum kostnaði gæti reynst ansi þrálát.

Verðbólguhorfur fyrir seinni helming ársins hafa skánað

Í ljósi þróunar íbúðaverðs í síðustu mælingum höfum við uppfært bráðabirgðaspá okkar um verðbólgu komandi mánaða þar sem horfur eru á að húsnæðisliðurinn muni áfram vega til dempunar á verðbólgutaktinum. Hluti útsöluáhrifa (húsbúnaður, raftæki o.þ.h.) færist líka væntanlega yfir í ágústmælingu VNV en útsölulokin ættu eftir sem áður að skila sér að mestu í septembermælingunni.

Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,1% hækkun VNV í ágúst, 0,4% í september og 0,3% í október. Gangi spá okkar eftir mun verðbólgan mælast 7,4% í október. Í árslok eru horfur á að verðbólgan verði í kring um 7%. Verðbólguhorfur fyrir seinni árshelming hafa því skánað nokkuð.

Skuldabréfamarkaður tekur jákvætt í verðbólgutölurnar

Viðbrögð á markaði það sem af er degi endurspegla einmitt nokkuð breyttar væntingar markaðsaðila um þróun verðbólgu og vaxta. Þegar þetta er ritað hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa lækkað um 3 – 24 punkta en ávöxtunarkrafa flestra verðtryggðra ríkisbréfaflokka hækkað. Verðbólguálag á markaði hefur því lækkað. Endurspeglar munur á kröfu óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisbréfa nú verðbólguálag sem nemur u.þ.b. 4% að jafnaði til lengri tíma litið en þar ber að hafa í huga að óvissuálag er nokkur hluti þeirrar tölu. Langtímavæntingar um verðbólgu á markaði eru því eitthvað lægri en sem þessu nemur.

Hjöðnun verðbólgu síðustu mánuði eru Seðlabankanum væntanlega býsna kærkomin tíðindi eftir erfiðan verðbólguvetur og -vor. Næsta vaxtaákvörðun bankans er þann 23. ágúst næstkomandi og verður júlímæling verðbólgunnar sú nýjasta sem peningastefnunefndin hefur í höndum þá. Að öðru óbreyttu ætti verðbólguþróunin undanfarið að draga úr vilja nefndarfólks til mikillar viðbótarhækkunar stýrivaxta, sér í lagi ef einnig er tekin með í reikninginn þróun kortaveltu og annarra hagvísa sem benda til ákveðins viðsnúnings til meira aðhalds í heimilisrekstri landsmanna undanfarið.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband