Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Veruleg hækkun stýrivaxta og meira á leiðinni

Versnandi verðbólguhorfur og hækkandi verðbólguvæntingar voru helstu ástæður 1,0 prósentu vaxtahækkunar Seðlabankans í morgun. Bankinn kallar eftir almennri samstöðu um að vinna bug á verðbólgunni svo ekki þurfi að hækka vexti úr hófi fram. Útlit er fyrir talsverða viðbótarhækkun stýrivaxta á árinu.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun að peningastefnunefnd bankans hefði ákveðið að hækka stýrivexti um 1 prósentu. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 3,75%. Hafa vextirnir ekki verið svo háir síðan á 3F 2019. Hækkunin var meiri en við höfðum vænst og í efri kantinum á birtum spám sem voru á bilinu 0,5% - 1,0%. Stýrivextir hafa nú samtals hækkað um 3,0 prósentur frá því vaxtahækkunarferli bankans hófst fyrir ári síðan.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar þar sem vaxtaákvörðunin er rökstudd kemur meðal annars fram að efnahagshorfur hafi heldur versnað vegna Úkraínustríðs. Hins vegar eru vísbendingar um talsverðan þrótt innlendra umsvifa, slakinn í þjóðarbúinu virðist horfinn og spenna er tekin að myndast á vinnumarkaði. Þá eru verðhækkanir á breiðum grunni sem endurspeglast í hraðri aukningu á undirliggjandi verðbólgu upp í 5%. Þá hafa verðbólguhorfur versnað verulegu og verðbólguvæntingar hækkað á alla mælikvarða.

Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er einnig mikið breytt frá undanförnum yfirlýsingum og kveður þar við nokkuð harðan tón. Hún hljóðar svo:

Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar á næstu mánuðum til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.

Hagvaxtarhorfur versna lítillega á þessu ári

Ný hagspá var birt í Peningamálum samhliða stýrivaxtaákvörðuninni. Seðlabankinn spáir því að hagvöxtur verði örlítið minni í ár en spáð var í febrúar, meðal annars vegna stríðsins í Úkraínu sem hafi neikvæð áhrif á efnahagsumsvif um allan heim. Hagvaxtarspá bankans fer úr 4,8% í 4,6% í ár. Bankinn spáir þó meiri vexti á næsta ári eða 2,6% samanborið við 2,1% í febrúarspánni og óbreyttum hagvexti frá fyrri spá árið 2024 í 2,5%. Því má segja að hagvaxtarhorfur næstu þriggja ára hafa batnað á heildina litið frá síðustu spá en þar ber að halda til haga að samdrátturinn 2020 var meiri miðað við endurskoðaðar tölur Hagstofunnar en áður var áætlað.

Seðlabankinn spáir því einnig að atvinnuleysi hjaðni hraðar en áður var gert ráð fyrir. Bankinn áætlar að atvinnuleysi verði að meðaltali 4,5% á þessu ári samanborið við 4,9% í febrúarspánni. Í Peningamálum kemur fram að atvinnuleysi hafi hjaðnað hraðar en áður var gert ráð fyrir og eftirspurn eftir vinnuafli hafi verið mikil undanfarið en nær 40% stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins segjast ætla að fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum. Spáð er að atvinnuleysi verði komið í 3,6% í lok spátímans.

Við höfum viðrað þá skoðun að atvinnuleysisspár Seðlabankans hafi verið of svartsýnar á undanförnum misserum. Við teljum að þessi spá sé nærri lagi enda keimlík því sem Greining Íslandsbanka spáði í janúar síðastliðnum.

Verðbólguhorfur versna talsvert

Þrátt fyrir frekar litla breytingu á hagvaxtarspá Seðlabankans á þessu ári hafa verðbólguhorfur breyst talsvert að mati bankans. Seðlabankinn spáir nú töluvert meiri verðbólgu en í spánni í febrúar. Spáin fer úr 5,3% í 7,4% verðbólgu að meðaltali í ár þar sem bankinn gerir ráð fyrir að verðbólga muni halda áfram að aukast og ná hámarki á þriðja ársfjórðungi. Á næsta ári spáir bankinn því að verðbólga verði að meðaltali 5,0% og 2,9% að meðaltali árið 2024. Ástæður þess að bankinn spáir aukinni verðbólgu er aukin innflutt verðbólga vegna Úkraínustríðsins og íbúðaverðið sem hefur tekið lengri tíma að hjaðna en áður var gert ráð fyrir.

Horft til fasteignamarkaðar

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar er meðal annars nefnt að gert sé ráð fyrir að samspil vaxtahækkana og hertra lánþegaskilyrða muni hægja á verðhækkun húsnæðis og innlendri eftirspurn. Aðspurður um þetta á kynningarfundi sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að komið hefði á óvart að fyrrnefnd lánþegaskilyrði hefðu ekki haldið aftur af fasteignamarkaðnum enn sem komið er eins og stjórnendur bankans hefðu vonast til. Skilyrðin lúta að hámarki á hlutfalli íbúðalána af virði íbúðar og hámarki á greiðslubyrði slíkra slíkra lána í hlutfalli við ráðstöfunartekjur. Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri bætti við að ekki væri mikil reynsla af beitingu þessara skilyrða við núverandi aðstæður en merki væru um að hámark veðhlutfalls væri farið að hafa áhrif. Þá nefndu stjórnendur bankans að fjármálastöðugleikanefnd myndi hittast í júníbyrjun en framangreind þjóðhagsvarúðartæki eru á forræði hennar. Seðlabankinn hefði öll spil á hendi til að hafa hemil á þessum markaði og horfur væru á því að fasteignamarkaðurinn færi frá því að ýta upp verðbólgu í að halda aftur af henni á komandi misserum.

Ákall um samstöðu gegn verðbólgu

Peningastefnunefndin horfir til þess að auk bankans ráði ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum miklu um hvernig verðbólga þróast og í kjölfarið hversu hátt stýrivextir þurfi að fara. Á kynningarfundinum kom fram að seðlabankafólk vildi gjarnan sjá meira aðhald í ríkisfjármálum á komandi tíð. Einnig skipti máli að orðræðan á vinnumarkaði fari að snúast um að auka kaupmátt en ekki nafnlaun. Það hefði veruleg áhrif á langtíma verðbólguvæntingar. Auk heldur væri mikilvægt að þeir sem ákveða vöruverð nýti sér ekki aukna verðbólgu til þess að hækka verð umfram tilefni heldur velti fyrir sér hversu langt þeir þurfa að ganga í verðhækkunum vegna aukins kostnaðar. Sömuleiðis þurfi hið opinbera að gæta þess að hugsanlegar mótvægisaðgerðir vegna áhrif verðbólgu á heimilin séu sniðnar að þeim sem minnst bolmagn hafa til að mæta hækkun verðlags en verði ekki almennur stuðningur. Seðlabankinn leggur því áherslu á samstöðu allra þeirra sem áhrif geta haft á verðbólguþróunina um að ná böndum á verðbólgunni og undir það má heilshugar taka.

Meiri vaxtahækkun í kortunum

Sem fyrr segir telur peningastefnunefndin líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar á komandi mánuðum til þess að ná verðbólgu aftur niður að markmiði Seðlabankans á komandi misserum. Fram kom á kynningarfundinum að mat bankans á jafnvægis raunstýrivöxtum væri enn sem fyrr ríflega 1%. Raunstýrivextir væru hins vegar enn neikvæðir og væru því í raun að örva hagkerfið talsvert þrátt fyrir hækkunina nú.

Ljóst má vera að við höfum vanmetið vilja peningastefnunefndarinnar til að beita auknu peningalegu aðhaldi í baráttunni við verðbólgudrauginn á næstu fjórðungum. Útlit er að mati okkar fyrir talsverða frekari hækkun stýrivaxta það sem eftir lifir árs. Væntanlega mun bankinn stíga næsta hækkunarskref strax á seinni helmingi júnímánaðar og halda uppteknum hætti á seinni helmingi ársins. Því eru horfur á að stýrivextir verði komnir í að minnsta kosti 4,5% fyrir áramót og óvissan í þeirri bráðabirgðaspá okkar er fyrst og fremst upp á við.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband