Gengi krónu var tiltölulega stöðugt á síðasta ári þrátt fyrir nokkurn viðskiptahalla. Þótt skammtímasveiflur væru nokkrar á seinni helmingi ársins var gengið að jafnaði býsna svipað á árinu 2024 og á árinu þar á undan. Til að mynda var meðalgildi viðskiptaveginnar gengisvísitölu nánast það sama (195,23) í fyrra og það var árið 2023 (195,17). Sömu sögu má segja af evru og Bandaríkjadollar þótt innbyrðis gengi þessara tveggja stærstu mynta heims, hvað vægi í alþjóðaviðskiptum varðar, hafi raunar breyst talsvert á tímabilinu.
Verður krónan áfram fremur stöðug?
Þrátt fyrir nokkrar skammtímasveiflur hefur gengi krónu verið glettilega stöðugt undanfarin misseri. Útlit er fyrir nokkuð stöðuga krónu á komandi fjórðungum. Hækkandi raungengi eykur þó líkurnar á veikingu krónu þegar fram í sækir.
Gengi krónu styrktist talsvert frá septemberbyrjun til áramóta þrátt fyrir halla á vöru- og þjónustuviðskiptum á lokafjórðungi ársins. Innstreymi fjármagns til verðbréfafjárfestinga, breyttar væntingar og hóflegt fjárfestingaútflæði eiga líklega mestan þátt í þeirri styrkingu eins og við höfum áður fjallað um. Hins vegar virðist stöðutaka með krónu ekki hafa aukist framan af styrkingarfasanum heldur dró þvert á móti áfram úr hreinni framvirkri stöðu viðskiptavina bankanna með krónu a.m.k. fram til loka nóvembermánaðar sl.
Í nýlega birtu yfirliti Seðlabankans um gjaldeyrismarkað, gengisþróun og gjaldeyrisforða á árinu 2024 er fjallað um þróunina í fyrra. Þar er meðal annars bent á að bankinn greip aðeins einu sinni inn í gjaldeyrismarkað á árinu, en það gerðist samhliða umfangsmiklum kaupum erlendra aðila á ríkisbréfum í krónum í útboði Lánamála í febrúarmánuði.
Tiltölulega stöðugt gengi í kortunum á næstunni
Fjallað er um líklega gengisþróun krónu í nýlega birtri þjóðhagsspá okkar. Þar er meðal annars bent á að útlit er fyrir að utanríkisviðskipti verði í þokkalegu jafnvægi á spátímanum, þ.e. fram til ársloka 2027. Gjaldeyrisflæði vegna vöru- og þjónustuviðskipta eða annarra undirþátta viðskiptajafnaðar verða því líklega ekki að jafnaði ráðandi þáttur í gengisþróun krónu þótt vissulega geti þessir þættir kallað fram skemmri tíma sveiflur.
Aðrir áhrifaþættir munu væntanlega vegast á frá einum tíma til annars á gjaldeyrismarkaði. Til að mynda er líklegt að erlendir fjárfestar verði áfram áhugasamir um beinar eða óbeinar fjárfestingar í stórum sem smáum íslenskum fyrirtækjum sem og skuldabréfum. Þar ætti áframhaldandi vaxtamunur við útlönd einnig að virka hvetjandi. Slíkt flæði vegur þá á móti áframhaldandi kaupum lífeyrissjóða og annarra innlendra aðila á erlendum fjáreignum. Raunar gæti nýlegt uppgjör á kaupum bandaríska fyrirtækisins JBT á Marel dregið eitthvað úr gjaldeyriskaupum lífeyrissjóða næsta kastið þar sem þeir eiga eftir kaupin bæði meiri erlendar verðbréfaeignir í formi bréfa í JBT sem og lausafé í gjaldeyri.
Raungengi krónu er hátt
Þótt nafngengi krónu sé enn allnokkru lægra en það það varð hvað hæst upp úr miðjum síðasta áratug hefur raungengi krónu hækkað jafnt og þétt þar sem verðlag og launakostnaður hér á landi hefur hækkað hraðar en gerist og gengur í viðskiptalöndum okkar. Á þann mælikvarða er krónan trúlega að nálgast efri mörk þess gengisbils sem samrýmist þokkalegu jafnvægi á utanríkisviðskiptum. Veruleg frekari gengisstyrking mun þar af leiðandi á endanum segja til sín í lakari samkeppnisstöðu útflutningsgreina gagnvart sambærilegum geirum erlendis og meiri kaupmætti íslenskra heimila og fyrirtækja erlendis en innstæða er fyrir til lengdar.
Við gerum ráð fyrir lítilsháttar styrkingu krónu á fyrri hluta spátímans. Gagnvart evru gæti krónan til að mynda verið u.þ.b. 2% sterkari á seinni hluta næsta árs en hún var um síðustu áramót. Það samsvarar 143 krónum á hverja evru.
Eftir því sem frá líður aukast hins vegar líkurnar á einhverri veikingu krónu ef fram heldur sem horfir um að verðlag og launakostnaður hérlendis hækki hraðar en í nágrannalöndum. Við gerum því ráð fyrir lítilsháttar veikingu krónu á árinu 2027. Verði krónan hins vegar sterkari á seinni hluta spátímans vaxa að sama skapi líkur á að viðskiptahalli grafi um sig með tilheyrandi leiðréttingu í gegn um gengislækkun krónu síðar meir.