Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir mikla evrusölu Seðlabankans í fyrra er gjaldeyrisforði bankans enn býsna drjúgur. Okkur reiknast til að hann hafi numið nærri 5,3 mö.evra um nýliðin áramót. Til samanburðar var verðmæti alls vöru- og þjónustuinnflutnings á fyrstu 9 mánuðum síðasta árs u.þ.b. 4,9 ma.evra og í hlutfalli við landsframleiðslu var forðinn líklega rétt innan við 30% um síðustu áramót. Þar er því enn af nógu að taka. Sala úr forðanum var auk þess að talsverðum hluta tengd brotthvarfi erlendra fjárfesta úr kvikum krónueignum, en tilgangur forðans hefur að hluta til verið að mynda mótvægi við slíkar eignir. Eftir útflæði undanfarins árs eru slíkar skammtímaskuldbindingar þjóðarbúsins afar litlar og raunar er það okkur nokkurt áhyggjuefni hversu lítill áhugi erlendra fjárfesta á innlendum verðbréfafjárfestingum er um þessar mundir. Þörfin fyrir digra gjaldeyrissjóði á móti slíkum stöðum er að sama skapi með minnsta móti þessa dagana.
Væntanlega mun Seðlabankinn halda áfram reglulegri gjaldeyrissölu sinni enn um sinn þar til ferðaþjónusta tekur að rétta úr kútnum. Þá er líklegt að bankinn bregðist áfram við tímabundnu og afmörkuðu útflæði um gjaldeyrismarkað með óreglulegum inngripum. Við eigum hins vegar von á því að þegar ferðamönnum fer að fjölga hér á nýjan leik dragi bankinn sig í hlé á gjaldeyrismarkaði og að á seinni hluta ársins muni hann líkast til hafa fremur hægt um sig þar.
Verður 2021 ár ríkisbréfakaupa Seðlabankans?
Önnur tilkynning Seðlabankans um síðustu áramót sneri að fyrirkomulagi á magnbundinni íhlutun bankans. Seðlabankinn kynnti í lok mars á nýliðnu ári áform sín um kaup á ríkisbréfum fyrir allt að 150 ma.kr. í því skyni að tryggja miðlun peningastefnunnar út allt vaxtarófið eftir að ljóst varð að ríkissjóður þyrfti að ráðast í umfangsmikla sölu á ríkisbréfum til að fjármagna a.m.k. hluta af fyrirséðum halla vegna Kórónukreppunnar.
Í tilkynningunni kom fram að á fyrsta fjórðungi þessa árs gætu kaupin numið allt að 20 mö.kr. og myndu þau beinast að óverðtryggðum ríkisbréfum í krónum. Hingað til hefur umfang kaupanna þó verið til muna minna. Alls keypti bankinn ríkisbréf fyrir 7,6 ma.kr. á síðasta ári. Langstærsti hluti þeirra kaupa átti sér stað á mánaðar tímabili frá 9. nóvember fram til 9. desember sl. en þá keypti bankinn ríkisbréf fyrir u.þ.b. 6,5 ma.kr.