Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verður 2021 ár peningaprentunar í Seðlabankanum?

Seðlabankinn hyggst halda áfram inngripum á gjaldeyris- og skuldabréfamörkuðum næsta kastið. Umfangsmikil evrusala bankans á síðasta ári dró úr óstöðugleika og óvissu á viðkvæmum tíma. Líklega mun þunginn í markaðsaðgerðum Seðlabankans færast frá gjaldeyrismarkaði yfir á skuldabréfamarkað eftir því sem á árið 2021 líður.


Daginn fyrir gamlársdag sendi Seðlabankinn frá sér þrennu fréttatilkynninga. Tvær þeirra sneru að inngripum bankans á gjaldeyrismarkaði og skuldabréfamarkaði en sú þriðja varðaði hefðbundna uppfærslu á vogum gjaldmiðla í gengisvísitölum bankans.

Í frétt bankans um reglulega gjaldeyrissölu kom fram að hann mun á nýju ári halda áfram daglegri sölu sinni á 3 m. evra út janúarmánuð í það minnsta. Frá því Seðlabankinn hóf slíka reglulega sölu á gjaldeyri hefur hann samtals selt 234 m. evra í slíkum viðskiptum. Til viðbótar við þá sölu hefur bankinn raunar haldið áfram óreglulegum inngripum á gjaldeyrismarkaði.

Raunar var hrein gjaldeyrissala hans af síðarnefndu sortinni í desembermánuði heldur meiri en reglulega salan, eða 75 m.evra samanborið við 63 m. evra í reglulegum viðskiptum. Óreglulegu viðskiptin áttu sér hins vegar nær alfarið stað á tveggja daga tímabili þar sem bankinn seldi evrur fyrir samtals ríflega 14 ma.kr., að reglulegu viðskiptunum frátöldum. Fram hefur komið í fjölmiðlum að þar var bankinn væntanlega að kaupa aflandskrónur af bandaríska fjármálafyrirtækinu Loomis Sayles. Má því segja að reglulega sala bankans hafi nokkurn veginn nægt til að vega upp annað útflæði á gjaldeyrismarkaði á lokaspretti liðins árs enda var gengi krónu gagnvart evru nánast það sama í árslok og það var í desemberbyrjun.

Áttunda hver evra seld úr gjaldeyrisforðanum í fyrra

Á árinu 2020 seldi Seðlabankinn samtals ríflega 820 m.evra úr gjaldeyrisforðanum af gjaldeyriskaupum frátöldum. Þar af seldi bankinn 231 m.evra í reglulegum viðskiptum en bróðurparturinn, ríflega 590 m.evra, var hins vegar seldur í óreglulegum inngripum bankans. Þar munar mest um mikla gjaldeyrissölu á haustmánuðum þegar vogunarsjóðurinn BlueBay var að losa um stóra stöðu sína í ríkisbréfum á skömmum tíma. Að okkar mati hefði sú sala og gjaldeyriskaup sjóðsins í kjölfarið ella valdið mun skarpari veikingu krónu í fyrrahaust en raunin varð, að minnsta kosti tímabundið. Slíkt hefði aukið á óvissu í rekstri fyrirtækja, haft neikvæð áhrif á væntingar almennings og hugsanlega losað um kjölfestu verðbólguvæntinga á afar viðkvæmu tímabili. Við teljum því að hin umfangsmiklu inngrip bankans hafi verið skynsamleg þótt alla jafna sé heppilegra að ganga hægt um gleðinnar dyr í svo stórtækum afskiptum af mörkuðum.

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir mikla evrusölu Seðlabankans í fyrra er gjaldeyrisforði bankans enn býsna drjúgur. Okkur reiknast til að hann hafi numið nærri 5,3 mö.evra um nýliðin áramót. Til samanburðar var verðmæti alls vöru- og þjónustuinnflutnings á fyrstu 9 mánuðum síðasta árs u.þ.b. 4,9 ma.evra og í hlutfalli við landsframleiðslu var forðinn líklega rétt innan við 30% um síðustu áramót. Þar er því enn af nógu að taka. Sala úr forðanum var auk þess að talsverðum hluta tengd brotthvarfi erlendra fjárfesta úr kvikum krónueignum, en tilgangur forðans hefur að hluta til verið að mynda mótvægi við slíkar eignir. Eftir útflæði undanfarins árs eru slíkar skammtímaskuldbindingar þjóðarbúsins afar litlar og raunar er það okkur nokkurt áhyggjuefni hversu lítill áhugi erlendra fjárfesta á innlendum verðbréfafjárfestingum er um þessar mundir. Þörfin fyrir digra gjaldeyrissjóði á móti slíkum stöðum er að sama skapi með minnsta móti þessa dagana.

Væntanlega mun Seðlabankinn halda áfram reglulegri gjaldeyrissölu sinni enn um sinn þar til ferðaþjónusta tekur að rétta úr kútnum. Þá er líklegt að bankinn bregðist áfram við tímabundnu og afmörkuðu útflæði um gjaldeyrismarkað með óreglulegum inngripum. Við eigum hins vegar von á því að þegar ferðamönnum fer að fjölga hér á nýjan leik dragi bankinn sig í hlé á gjaldeyrismarkaði og að á seinni hluta ársins muni hann líkast til hafa fremur hægt um sig þar.

Verður 2021 ár ríkisbréfakaupa Seðlabankans?

Önnur tilkynning Seðlabankans um síðustu áramót sneri að fyrirkomulagi á magnbundinni íhlutun bankans. Seðlabankinn kynnti í lok mars á nýliðnu ári áform sín um kaup á ríkisbréfum fyrir allt að 150 ma.kr. í því skyni að tryggja miðlun peningastefnunnar út allt vaxtarófið eftir að ljóst varð að ríkissjóður þyrfti að ráðast í umfangsmikla sölu á ríkisbréfum til að fjármagna a.m.k. hluta af fyrirséðum halla vegna Kórónukreppunnar.

Í tilkynningunni kom fram að á fyrsta fjórðungi þessa árs gætu kaupin numið allt að 20 mö.kr. og myndu þau beinast að óverðtryggðum ríkisbréfum í krónum. Hingað til hefur umfang kaupanna þó verið til muna minna. Alls keypti bankinn ríkisbréf fyrir 7,6 ma.kr. á síðasta ári. Langstærsti hluti þeirra kaupa átti sér stað á mánaðar tímabili frá 9. nóvember fram til 9. desember sl. en þá keypti bankinn ríkisbréf fyrir u.þ.b. 6,5 ma.kr.

Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hækkaði umtalsvert á seinni hluta síðasta árs. Má þar nefna að krafa lengsta óverðtryggða ríkisbréfaflokksins fór lægst í 2,2% í lok maí 2020 en var um síðustu áramót 3,2%. Krafa lengsta verðtryggða markflokksins, RIKS30, náði hins vegar lágmarki í -0,2% í ágúst síðastliðnum en hafði hækkað aftur í 0,6% í árslok. Að okkar mati er ljóst að Seðlabankinn hefur síst verið of stórtækur í ríkisbréfakaupunum með hliðsjón af þessari þróun. Hér ber að hafa í huga að á meðan stýrivextir hafa lækkað úr 3,0% niður í 0,75% frá febrúarbyrjun eru langtímavextir í stórum dráttum þeir sömu þegar þetta er ritað og þeir voru í febrúarbyrjun. Það er í okkar huga nokkurt áhyggjuefni þar sem miklu skiptir um þessar mundir að fjármögnunarkjör á markaði séu sem hagstæðust þar til línur fara að skýrast um bata hagkerfisins eftir Kórónukreppuna. Þar er þó nokkur huggun harmi gegn að fjármögnun á breytilegum vöxtum er með hagstæðasta móti um þessar mundir og hefur það til að mynda stutt við bæði íbúðamarkað og einkaneyslu á seinni helmingi ársins að mati okkar.

Í kjölfar síðustu vaxtaákvörðunar Seðlabankans á liðnu ári var haft eftir Ásgeiri Jónssyni Seðlabankastjóra í fjölmiðlum að árið sem nú er nýhafið „..mun þá vera ár peningaprentunar að hálfu Seðlabankans“. Sú peningaprentun mun væntanlega felast að mestu eða öllu leyti í framangreindum kaupum á ríkisskuldabréfum.

Ef bankinn grípur á ný til stórfelldrar sölu á gjaldeyri úr forða sínum til þess að vega upp tímabundin áhrif af útflæði fjármagns gæti þó komið hlé í þessa peningaprentun. Þannig sá Seðlabankinn sér ekki fært að kaupa ríkisbréf á markaði á sama tíma og evrusalan mikla í fyrrahaust stóð yfir og benti þar á að með því stýfa gjaldeyrisinngripin, þ.e. skila aftur til baka í peningakerfið þeim krónum sem teknar væru út með gjaldeyrissölu, væru áhrif þeirra vegin upp. Vissulega getum við tekið undir með bankanum hvað það varðar að umfangsmikil stýfing gjaldeyrisinngripa deyfir á endanum áhrifin af inngripunum og séu þau stýfð að fullu leitar gengið fljótt aftur í fyrra far. Hins vegar senda viðskipti Seðlabankans einnig mikilvæg merki inn á markað og torséð er hvernig gjaldeyrisinngrip útiloka algerlega hófleg ríkisbréfakaup í því skyni að hafa áhrif á væntingar og minnka hættu á spíralmyndun og óstöðugleika á skuldabréfamarkaði. Viðskiptin í fyrrahaust voru þó æði sérstök hvað umfang og hraða varðar og ólíklegt er að bankinn þurfi að bregðast við viðlíka upphæðum á skömmum tíma og þá var.

Í öllu falli má taka undir með Seðlabankastjóra að því leyti að bæði er það líklegt og að okkar mati heppilegt að bankinn gefi verulega í við ríkisbréfakaupin á komandi fjórðungum. Þá þykir okkur líklegt að áfram muni bankinn selja gjaldeyri inn á markað í reglulegum viðskiptum svo lengi sem útflutningstekjur ferðaþjónustunnar láta á sér standa. Auk þess er trúlegt að bankinn muni áfram bregðast við óhóflegum skammtímasveiflum í gengi krónu með óreglulegum inngripum þar til gjaldeyrismarkaðurinn dýpkar á nýjan leik með vaxandi útflutningstekjum og auknum almennum umsvifum í hagkerfinu.

Tekur ár peningaprentunar við af ári evrusölu?

Samantekið er því nærtækt að álykta sem svo að Seðlabankinn verði nokkuð umsvifamikill í inngripum á mörkuðum framan af því ári sem nú er nýhafið, hvort sem litið er til skuldabréfa eða gjaldeyris. Um það má segja að óvenjulegir tímar kalla á óvenjuleg meðul. Kórónukreppan á meira skylt við náttúruhamfarir en snarpa leiðréttingu eftir mikið ójafnvægi í hagkerfinu. Hagstjórnaraðgerðir hér á landi í því skyni að bregðast við áfallinu hafa góðu heilli verið fremur vel heppnaðar á heildina litið hingað til. Síðasta ár var ár gjaldeyrisinngripa á Kalkofnsveginum en líklega og vonandi færist þunginn í markaðsaðgerðum bankans fremur yfir á skuldabréfamarkað á hinu nýhafna ári 2021.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband