Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólgutoppur í jólavikunni

Verðbólga mælist 5,1% í árslok eftir 0,45% hækkun neysluverðs í desember. Svo mikil hefur verðbólgan ekki verið frá miðju ári 2012. Verðbólguþróun hérlendis er áþekk þróuninni meðal OECD-landa og horfur eru á að verðbólga hjaðni að nýju á komandi ári hérlendis sem erlendis.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,45% í desember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 5,1% en var 4,8% í nóvember. Verðbólga hefur ekki verið meiri frá miðju ári 2012. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,37% í desember og miðað við þá vísitölu mælist 3,3% verðbólga undanfarna 12 mánuði. Það er því áfram talsverður munur á verðbólgu með eða án húsnæðis, en á hinn bóginn sýnir síðarnefnda mælingin að verðbólguþrýstingur er fremur almennur um þessar mundir.

Mæling desembermánaðar er samræmi við meðaltal birtra spáa.  Við spáðum 0,4% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,3% – 0,6% hækkun.  Helstu undirliðir þróuðust einnig í stórum dráttum í samræmi við væntingar okkar. Þó hækkuðu flugfargjöld meira en við væntum en á móti lækkaði verð á húsgögnum og heimilisbúnaði óvænt.

Hægir á hækkun íbúðaverðs?

Eins og fyrri daginn vó húsnæðisliður VNV allþungt í hækkun hennar nú. Alls hækkaði liðurinn um 0,6% (0,19% áhrif í VNV). Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga um 0,6% (0,10% í VNV). Viðhaldsþáttur húsnæðisliðarins hækkaði einnig um 1,4% (0,08% í VNV) og var hærri efniskostnaður meginástæða þess.

Reiknuð húsaleiga byggir að mestu á útreikningi Hagstofunnar á markaðsverði íbúðarhúsnæðis samkvæmt þinglýstum kaupsamningum. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar hækkaði íbúðaverð á þennan mælikvarða um 0,7% milli mánaða að þessu sinni, en undirliggjandi gögn ná yfir tímabilið september-nóvember. Þótt hækkunin sé myndarlega á flesta mælikvarða hefur hún ekki verið minni frá febrúarmánuði þessa árs. Hugsanlega eru hér merki um að farið sé að hægja á verðhækkunartaktinum á íslensku íbúðamarkaði.

Undanfarið ár hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um tæp 16% miðað við tölur Hagstofunnar. Mest er hækkunin á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (18%) en verð á landsbyggðinni hefur hækkað um 16,5% og verð íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um tæp 15% frá ársbyrjun.

Mjólk og flugfargjöld hækka, bensín og húsbúnaður lækkar

Af öðrum undirliðum VNV sem vógu til hækkunar hennar í desembermánuði eru þessir helstir:

  • Matur og drykkur hækkaði í verði um 0,7% (0,11% í VNV). Þar vó þungt að mjólkurvörur hækkuðu um 3,3% (0,09% í VNV) en verðlagsnefnd búvara tilkynnti nýverið um sambærilega hækkun á heildsöluverði mjólkurvara og virðist það hafa speglast nokkuð beint í smásöluverði þeirra.
  • Flutningar í lofti hækkuðu um 10,3% (0,15% í VNV). Jólamánuðurinn er oft hækkunartími í flugfargjöldum milli landa og hefur sú líka verið raunin að þessu sinni. Erfitt hefur verið að átta sig á verðþróun í fluginu undanfarið þar sem faraldurinn setti stórt strik í reikninginn í þeim geira allt þar til í sumar sem leið og hefur vitaskuld einnig sett mark sitt á síðustu mánuði.
  • Liðurinn Aðrar vörur og þjónusta hækkaði um 0,8% (0,06% í VNV). Þar munaði mestu um hækkun á snyrtingu og snyrtivörum, tryggingum og fjármálaþjónustu

Á móti vógu þessir liðir helst til lækkunar VNV að þessu sinni

  • Húsgögn og heimilisbúnaður lækkaði í verði um 1,3% (-0,09% í VNV).
  • Eldsneytisverð lækkaði um 1,0% (-0,03% í VNV). Er það í takti við talsverða lækkun á heimsmarkaðsverði frá því það var sem hæst í lok október síðastliðins.

Verðbólgan er víða

Eins og sjá má af myndinni leikur húsnæðisliðurinn stórt hlutverk í verðbólgutölunum þessa dagana. Af 5,1% verðbólgu í desember (og þar með hækkun verðlags yfir árið 2021) skrifast tæp 2,3% á húsnæðisliðinn, 1,2% á innlenda þjónustu, tæp 0,7% á innlendar vörur og tæplega 1% á innfluttar vörur. Það er þó ekki svo að hækkun húsnæðisliðar skýri frávik verðbólgunnar frá markmiði ein og sér, enda er verðbólga að honum frátöldum 3,3% sem fyrr segir. Þættir á borð við hækkun á innlendum kostnaði, ekki síst launakostnaði, hækkandi aðfangaverð erlendis frá og mikla hækkun á flutningskostnaði landa á milli leika þar einnig hlutverk.

Mikil verðbólga er einnig langt í frá séríslenskt fyrirbæri þessa dagana. Meðalverðbólga í aðildarríkjum OECD var 5,2% í októbermánuði og miðað við þær tölur sem komið hafa frá helstu OECD-ríkjunum síðan er hún líklega enn meiri nú í árslok. Þeir þættir sem upp eru taldir hér að ofan fyrir Ísland leika flestir einnig talsvert hlutverk í vaxandi verðbólgu meðal annarra OECD-ríkja þótt mjög mismunandi sé hvernig verðþróun á íbúða- og leigumarkaði er meðhöndlað. Víða er einnig mikil hækkun á orkuverði til heimila að þrýsta upp verðbólgunni. Þar er Ísland þó undantekningin þar sem hækkun á raforkuverði og heitu vatni til húshitunar hefur verið hófleg hérlendis undanfarið.

Teljum að verðbólga hjaðni á nýju ári

Við teljum að toppi verðbólgunnar kunni að vera náð nú í árslok og að framundan sé hjöðnunarskeið á komandi ári. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,2% lækkun vísitölunnar í janúar, 0,6% hækkun í febrúar og 0,4% hækkun VNV í mars. Ef sú spá gengur eftir mælist verðbólga 4,7% í mars. Í kjölfarið spáum við frekari hjöðnun verðbólgu eftir því sem krónan styrkist, betra jafnvægi skapast á íbúðamarkaði eðlilegra ástand kemst á í framleiðslu og flutningum neysluvara á heimsvísu. Kann verðbólgan að ná 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans á fyrsta fjórðungi ársins 2023 ef spá okkar gengur eftir.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband