Undanfarið ár hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um tæp 16% miðað við tölur Hagstofunnar. Mest er hækkunin á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (18%) en verð á landsbyggðinni hefur hækkað um 16,5% og verð íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um tæp 15% frá ársbyrjun.
Mjólk og flugfargjöld hækka, bensín og húsbúnaður lækkar
Af öðrum undirliðum VNV sem vógu til hækkunar hennar í desembermánuði eru þessir helstir:
- Matur og drykkur hækkaði í verði um 0,7% (0,11% í VNV). Þar vó þungt að mjólkurvörur hækkuðu um 3,3% (0,09% í VNV) en verðlagsnefnd búvara tilkynnti nýverið um sambærilega hækkun á heildsöluverði mjólkurvara og virðist það hafa speglast nokkuð beint í smásöluverði þeirra.
- Flutningar í lofti hækkuðu um 10,3% (0,15% í VNV). Jólamánuðurinn er oft hækkunartími í flugfargjöldum milli landa og hefur sú líka verið raunin að þessu sinni. Erfitt hefur verið að átta sig á verðþróun í fluginu undanfarið þar sem faraldurinn setti stórt strik í reikninginn í þeim geira allt þar til í sumar sem leið og hefur vitaskuld einnig sett mark sitt á síðustu mánuði.
- Liðurinn Aðrar vörur og þjónusta hækkaði um 0,8% (0,06% í VNV). Þar munaði mestu um hækkun á snyrtingu og snyrtivörum, tryggingum og fjármálaþjónustu
Á móti vógu þessir liðir helst til lækkunar VNV að þessu sinni
- Húsgögn og heimilisbúnaður lækkaði í verði um 1,3% (-0,09% í VNV).
- Eldsneytisverð lækkaði um 1,0% (-0,03% í VNV). Er það í takti við talsverða lækkun á heimsmarkaðsverði frá því það var sem hæst í lok október síðastliðins.
Verðbólgan er víða
Eins og sjá má af myndinni leikur húsnæðisliðurinn stórt hlutverk í verðbólgutölunum þessa dagana. Af 5,1% verðbólgu í desember (og þar með hækkun verðlags yfir árið 2021) skrifast tæp 2,3% á húsnæðisliðinn, 1,2% á innlenda þjónustu, tæp 0,7% á innlendar vörur og tæplega 1% á innfluttar vörur. Það er þó ekki svo að hækkun húsnæðisliðar skýri frávik verðbólgunnar frá markmiði ein og sér, enda er verðbólga að honum frátöldum 3,3% sem fyrr segir. Þættir á borð við hækkun á innlendum kostnaði, ekki síst launakostnaði, hækkandi aðfangaverð erlendis frá og mikla hækkun á flutningskostnaði landa á milli leika þar einnig hlutverk.