Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólgu-faraldur

Þrálát verðbólga er alþjóðlegt vandamál þessi dægrin, jafnvel í löndum sem áður áttu í basli með að halda verðbólgunni uppi. Helsta ástæða hækkandi verðlags er meiri eftirspurn en gert var ráð fyrir sem og framboðshnökrar í kjölfar faraldursins. Flestir eru þeirrar skoðunar að um tímabundið ástand sé að ræða. Þróun síðustu tveggja ára hefur dregið fram þá staðreynd að virðiskeðjur heimsins eru brothættar og þótt faraldurinn hafi komið öllum að óvörum er ekki gott að slíkt áfall geti sett vöruframboð á hliðina með þessum hætti.


Líklega er of snemmt að segja að COVID faraldurinn sé í baksýnisspeglinum en nú lítur þó út fyrir að talsvert bjartara sé framundan. Faraldurinn hefur í nær tvö ár skekið heimsbyggðina en vegna víðtækrar bólusetningar og minni óvissu er heimshagkerfið nú að taka við sér á nýjan leik. Útlit er fyrir að íslenska hagkerfið vaxi töluvert á þessu ári eftir snarpan samdrátt á því síðasta og þannig er útlitið sömuleiðis á heimsvísu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að heimshagkerfið vaxi um 6% í ár eftir 3% samdrátt árið 2020. En þrátt fyrir að það birti til og hagkerfi rétti úr kútnum ber nokkuð á eftirköstum faraldursins, ekki síst óheppilegri verðlagsþróun. Verðbólgan, bæði hér heima og erlendis, er því vel athyglinnar virði þessa dagana.

Verðbólga hér á landi

Verðbólga tók að aukast um mitt síðasta ár í kjölfar faraldursins og gengisfalls krónu. Hún óx jafnt og þétt og hefur nú verið yfir 4% efri þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans frá ársbyrjun. Verðbólga mældist í sínum hæstu gildum í nóvembermánuði þegar hún náði 4,8% og hefur ekki mælst meiri í heil 9 ár. Framan af vógu áhrif veikingar krónu þyngst í vaxandi verðbólgu en samsetning hennar hefur tekið þó nokkrum breytingum enda hefur krónan verið til friðs á þessu ári. Hækkandi íbúðaverð vegur þyngst í verðbólgunni um þessar mundir en innflutt verðbólga hefur þó verið að láta á sér kræla á ný að undanförnu.

Lítið lát hefur verið á íbúðaverðshækkunum frá því að faraldurinn skall á og hefur íbúðaverð hækkað um heil 16% undanfarið ár. Skiljanlega hefur athygli margra beinst að húsnæðislið vísitölu neysluverðs að undanförnu, enda skýrir liðurinn tæplega 50% verðbólgunnar um þessar mundir. Óhjákvæmileg hliðaráhrif viðbragða Seðlabanka og hins opinbera vegna áhrifa veirunnar voru hækkun íbúðaverðs. Við Íslendingar erum aldeilis ekki einsdæmi hvað það varðar, íbúðaverð hefur hækkað í flestum vestrænum ríkjum í faraldrinum. Stjórntækjum á sviði peningamála og þjóðhagsvarúðar hefur verið beitt af nokkru afli undanfarna mánuði til að hemja of hraðan hækkunartakt og gæti það hjálpað talsvert til að ná verðbólgunni niður. Það verður því afar áhugavert að fylgjast með þróun húsnæðisverðs á næstunni.

Það er þó fullmikil einföldun að líta eingöngu til húsnæðisverðs í verðbólgutölum síðustu mánaða. Þannig hefur innflutt verðbólga aukist að undanförnu vegna mikilla verðhækkana erlendis og aukins flutningskostnaðar og skýrir hún nú ríflega fimmtung verðbólgunnar.

Sama staða út í heimi

Það er af sem áður var þegar verðbólgan virtist séríslenskt vandamál. Þrálát verðbólga er nefnilega alþjóðlegt úrlausnarefni seðlabanka um þessar mundir. Verðlag hefur farið hækkandi í flestum vestrænum ríkjum í faraldrinum líkt og sést á mynd 1. Má þar nefna evrusvæðið þar sem verðbólga mælist 4,1% þegar þetta er skrifað. Þá er verðbólga í Bandaríkjunum skriðin yfir 6% og hefur ekki mælst svo mikil í yfir 30 ár. Þetta er ekki síst áhugavert í ljósi þess að fyrir faraldur hafa þessi ríki átt í basli með að halda verðbólgunni uppi. En hvað er að valda þessu?

Meiri eftirspurn en gert hafði verið ráð fyrir virðist hafa nokkur áhrif á hækkandi verðlag og framboðshnökrar í kjölfar faraldursins hafa bætt gráu ofan á svart. Þá hefur aukinn flutningskostnaður vakið verulega athygli, einkum yfir lengri vegalengdir.

Framboð og eftirspurn

Eins og áður segir hefur faraldurinn haft umtalsverð áhrif á bæði framboð og eftirspurn á sama tíma. Í byrjun faraldursins féll eftirspurn þegar fólk hélt að sér höndum í því óvissuástandi sem þá ríkti. Auk þess höfðu sóttvarnaraðgerðir þau áhrif að neytendur höfðu ekki aðgang að ýmiskonar vörum og þjónustu sem annars hefðu verið keyptar. Í takti við tilslakanir á sóttvarnaraðgerðum jókst síðan eftirspurn eftir vörum og þjónustu og það af talsverðum þunga.

Á sama tíma olli faraldurinn ýmsum framleiðsluhnökrum sem urðu til þess að truflanir urðu á virðiskeðjum um heim allan. Sem dæmi var fjölda framleiðslufyrirtækja í Kína lokað í byrjun faraldursins. Þar sem Kína er stór framleiðandi á ýmsum varningi varð það til þess að skortur á aðföngum fór að myndast um allan heim. Þessi skortur leiddi til þess að framleiðslutruflanir komu upp hjá fjölda fyrirtækja sem ekki náðu að framleiða vörur sínar. Þar að auki settu takmarkanir á landamærum og sóttvarnaraðgerðir í umskipunarhöfnum strik í reikninginn og trufluðu vöruflutninga milli landa. Þetta leiddi til þess að verð á ýmsum vörum hækkaði margfalt, enda heimshagkerfið að miklu leyti háð því að alþjóðlegar framleiðslukeðjur séu vel smurðar.

Þetta sést til að mynda í hrávöruverði sem hefur hækkað gífurlega síðustu misseri. Samkvæmt vísitölu Reuters hefur hrávöruverð hækkað um fjórðung það sem af er þessu ári. Til dæmis hefur heimsmarkaðsverð á olíu hækkað skarpt undanfarna fjórðunga eftir lækkun í byrjun faraldursins. Í byrjun dróst eftirspurn saman í takti við minni bíla- og flugumferð. Hún jókst á nýjan leik um mitt ár 2020 og hefur olíuverð hækkað töluvert síðan þá. Aðrar hrávörur á borð við timbur, málma og plast hafa einnig hækkað umtalsvert þótt í tilfelli timbursins sé verðið reyndar orðið talsvert skaplegra en það var þegar hæst bar.

Auk framleiðslutruflana hefur flutningskostnaður aukist til muna í faraldrinum. Dregið var úr afkastagetu flutningskerfisins við upphaf faraldursins. Þegar eftirspurn fór að glæðast myndaðist skortur á gámum sem hafði í för með sér að flutningskostnaður tók að hækka nokkuð skarpt í lok árs 2020. Samkvæmt Baltic Dry vísitölunni sem mælir flutningskostnað á hrávörum heimshorna á milli hækkaði flutningskostnaður um rúmlega 300% frá byrjun ársins til október þegar sem verðið náði hámarki.

Ljósi punkturinn, eins og sést á myndinni, er þó að flutningskostnaður hefur tekið að lækka á ný. Frá því verðið náði hámarki í byrjun október hefur það lækkað um rúmlega helming. Vonandi er þetta til marks um að afkastageta sé að aukast og jafnvægi sé að myndast í flutningakerfinu í heild. Þar sem við Íslendingar flytjum inn stóran hluta okkar neysluvara hefur flutningskostnaður talsvert að segja um verðlag hér á landi og eru þetta því kærkomin tíðindi.

Hvenær sér fyrir endann á þessu?

Ekki eru allir sammála um hvenær jafnvægi á mörkuðum náist. Flestir eru þó þeirrar skoðunar að um tímabundið ástand sé að ræða. Að lokum verði jafnvægi framboðs og eftirspurnar komið í fyrra horf og alþjóðlegar virðiskeðjur sömuleiðis. Þegar það gerist mun verðbólga hjaðna en hversu langan tíma það mun taka er erfitt að segja til um. Seðlabankinn telur að hægt og bítandi muni takast að vinda ofan af þessum framboðshnökrum eftir því sem líður á næsta ár samhliða því að eftirspurn færist í meiri mæli úr vörum yfir í þjónustu. Bankinn spáir því að verðbólga verði 3,5% á Íslandi á næsta ári en ef ekki tekst að stemma stigu við framboðshnökrum er hætt við að það muni leiða til enn þrálátari verðbólgu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur svipaða sögu að segja. Sjóðurinn telur að jafnvægi komist á fljótlega og þar af leiðandi muni verðbólga taka að hjaðna í byrjun næsta árs. Þau telja að verðbólga verði á svipuðum stað og fyrir faraldur um mitt næsta ár.

Við höfum aldrei gengið í gegnum viðlíka tímabil og það sem við erum að kveðja núna. Við höfum því aldrei hækkað vexti við sambærilegar aðstæður. Það verður áhugavert að fylgjast með áhrifum komandi vaxtahækkana á einstaka þætti verðbólgunnar ekki síst íbúðamarkaðinn.

Þróun síðustu tveggja ára hefur dregið fram þá staðreynd að virðiskeðjur heimsins eru brothættar og þótt faraldurinn hafi komið öllum að óvörum er ekki gott að slíkt áfall geti sett vöruframboð á hliðina með þessum hætti. Búa verður þannig um hnútana að slíkt endurtaki sig ekki. Að því sögðu má ljóst vera að hingað til hefur verið litið á langar, fjölþjóðlegar virðiskeðjur sem sjálfsagðan hlut sem hefur skilað sér í lægra vöruverði um allan heim og haldið aftur af verðbólgu síðustu áratugi. Séu keðjurnar styttar og einfaldaðar til muna gæti verðbólguþrýstingur á komandi árum því orðið meiri en ella. Ef við viljum ekki að þetta endurtaki sig verðum við að læra af reynslu undanfarinna missera en líkt og margoft hefur verið nefnt lifum við á fordæmalausum tímum og vonandi þurfum við ekki að upplifa heimsfaraldur aftur í bráð.

Greinin birtist fyrst í Vísbendingu

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband