Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólgan í júlí 9,9%, sú mesta í tæp þrettán ár

Verðbólga mældist 9,9% í júlí og hefur ekki verið meiri frá september 2009. Hækkandi íbúðaverð skýrir talsverðan hluta verðbólgunnar en verðbólguþrýstingur er þó útbreiddur. Horfur eru á að verðbólga verði á svipuðum slóðum út þetta ár en taki að hjaðna þegar líður á næsta vetur.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 1,17% í júlí skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 9,9% en var 8,8% í júní. Hefur verðbólga ekki mælst meiri hér á landi frá september árið 2009. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,94% í júlí og miðað við þá vísitölu mælist 7,5% verðbólga undanfarna 12 mánuði. Síðarnefnda mælingin sýnir að þótt hækkun íbúðaverðs skýri talsverðan hluta verðbólgunnar er verðbólguþrýstingur almennt umtalsverður um þessar mundir.

Mæling júlímánaðar er talsvert yfir birtum spám.  Við spáðum 0,6% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,6% – 0,7% hækkun milli mánaða. Munurinn á spá okkar og mælingu Hagstofunnar liggur að mestu í mun meiri hækkun á flugfargjöldum en við væntum, sem bæði skýrist af verulegri hækkun í júlí og leiðréttingu á tölum júnímánaðar. Þá hækkaði húsnæðisliðurinn heldur meira en við höfðum vænst. Á móti hækkaði matvara minna og útsölur á húsgögnum og heimilisbúnaði reyndust dýpri en við áætluðum.

Flugfargjöld og húsnæðisliður helstu hækkunarvaldar í júlí

Hækkun á flugfargjöldum til útlanda nam ríflega 38% (0,72% áhrif í VNV) í júlímælingu Hagstofunnar. Ríflega helmingur þeirrar hækkunar endurspeglar raunverulega verðhækkun í júlí. Afgangurinn skýrist af leiðréttingu á mistökum við útreikning þessa liðar í júní. Þau mistök leiddu til þess að verðbólga mældist 8,8% í júní en hefði með réttu átt að mælast 9,1%. Hagstofan endurskoðar hins vegar aldrei vísitölu neysluverðs aftur í tímann enda myndi það flækja verulega verðlagningu og uppgjör verðtryggðra eigna og skulda.

Þótt flugliðurinn hafi óvænt reynst stærsti einstaki hækkunarvaldur VNV í júlí lagði húsnæðisliðurinn þó til ríflegan skerf hækkunarinnar líkt og undanfarið. Alls hækkaði húsnæðisliðurinn um 1,9% milli mánaða (0,56% í VNV). Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga um 2,4% (0,47% í VNV) en hækkun á greiddri húsaleigu og hitunarkostnaði skýrir það sem út af stendur.

Lítið lát er á hækkun íbúðaverðs eins og Hagstofan mælir það. Í júlímælingu VNV mælist hækkunin milli mánaða 2,55% og árshækkunartaktur markaðsverðs íbúðarhúsnæðis 24,8% á landinu öllu. Athygli vekur að landsbyggðin tekur hressilega fram úr höfuðborgarsvæðinu í 12 mánaða taktinum. Undanfarið ár hefur íbúðaverð á landsbyggðinni hækkað um rúm 29% en íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um rúm 24% á sama tíma og verð á sérbýlum hækkað um tæp 22%. Talsverð uppsveifla hefur verið á fasteignamarkaði víða umhverfis höfuðborgarsvæðið, sem og í Eyjafirðinum svo nokkuð sé nefnt. Skýrir það líklega vaxandi skriðþunga í íbúðaverð utan höfuðborgarsvæði á sama tíma og framboð á nýjum íbúðum hefur víða verið töluvert.

Er að draga úr innfluttri verðbólgu?

Útsölur stóðu sem hæst um miðjan júlímánuð og komu þær nokkuð myndarlega fram í ýmsum undirliðum VNV. Föt og skór lækkuðu í verði um 6,8% (-0,24% í VNV) milli mánaða og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 2,6% (-0,17% í VNV). Lækkunaráhrif þessara liða verða þó skammgóður vermir enda hækka þeir væntanlega aftur í ágúst og september þegar útsölum lýkur og nýjar vörur koma í stað útsöluvaranna.

Meiri athygli vekur hófleg hækkun á matvælum og drykkjarvörum. Sá liður hækkaði einungis um 0,15% í júlí (0,02% í VNV) og hefur hann ekki hækkað minna síðan í júlí í fyrra. Verð á ýmsum aðföngum til matvælaframleiðslu hefur lækkað talsvert undanfarið á heimsmarkaði eftir mikla hækkun fyrr á árinu og vonandi eru þau áhrif að byrja að koma fram í stöðugra matvælaverði hérlendis.

Útbreiddur verðbólguþrýstingur

Verðbólgan er víða þessa dagana og verðbólguþrýstingur almennur. Af 9,9% verðbólgu í júlí skýrir húsnæðisliðurinn 4%, innfluttar vörur 2,2%, innlendar vörur 1,3% og þjónusta 2,4%. Allir eru þessir helstu þættir að hækka talsvert hraðar en sem samrýmist 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Íbúðaverðið, annar innlendur kostnaðarþrýstingur á borð við laun og innflutt verðbólga leggst því á eitt að þrýsta verðlagi hratt upp þessa dagana.

Horfur eru á að verðbólga mælist áfram umtalsverð næsta kastið og gæti hún slegið í tveggja stafa tölu strax í ágústmánuði. Bráðabirgðaspá okkar hljóðar upp á 0,6% hækkun VNV í ágúst, 0,4% í september og 0,5% hækkun í október. Gangi sú spá eftir mælist verðbólga 9,9% í október.

Í kjölfarið áætlum við að það fari að draga úr verðbólgunni með stöðugra innflutningsverði, sterkari krónu og betra jafnvægi á íbúðamarkaði. Rétt er þó að halda til haga að óvissan er mikil þessa dagana og ekki þarf mikið til að verðbólgan reynist þrálátari. Þar eru komandi kjarasamningar ekki síst áhrifaþáttur en einnig þróun framboðs á íbúðamarkaði sem og erlendir þættir á borð við stríðið í Úkraínu og faraldursþróunina í Kína.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband