Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,54% í maí skv. uppfærðum tölum Hagstofunnar en skekkja var í fyrstu tölum sem birtar voru í morgun. Verðbólga mælist nú 2,6% en var 2,2% í apríl. Verðbólga mælist því yfir markmiði Seðlabankans í fyrsta sinn frá því í nóvember. Verðbólga m.v. VNV án húsnæðis mælist einnig 2,6% undanfarna 12 mánuði.
Verðbólga yfir markmiði Seðlabankans
Snörp verðhækkun á innfluttum vörum er helsta ástæða þess að verðbólga mælist í maí á ný yfir markmiði Seðlabankans. Útlit er þó eftir sem áður fyrir hóflega verðbólgu á komandi fjórðungum.
Mæling maímánaðar er yfir okkar spá sem og öðrum birtum spám. Við spáðum 0,3% hækkun VNV milli mánaða. Krónan virðist hafa meiri áhrif á innfluttar vörur en við væntum í okkar spá en verð á bílum, mat og drykkjarvörum auk húsgagna voru þeir undirliðir sem hækkuðu meira en við væntum.
Mæling vísitölu neysluverðs
Samkvæmt Hagstofu gekk mæling á vísitölunni í maí vel fyrir sig, sérstaklega þar sem stjórnvöld náðu að aflétta miklu af þeim takmörkunum sem gripið var til í faraldrinum. Samkvæmt Hagstofu hafi nú í maí um 5% af grunni vísitölu neysluverðs verið metinn þar sem verðmælingum varð ekki við komið vegna tímabundinna lokanna.
Veiking krónu hefur áhrif á verð á innfluttum vörum
Frá áramótum hefur króna veikst talsvert gagnvart helstu gjaldmiðlum. Í apríl og maí hafa verðmælingar borið þess merki að áhrif þessa séu að koma fram í verði á innfluttum vörum. Helst má nefna verð á matar og drykkjarvörum sem hækkuðu í verði um 1,6% (0,24% áhrif í VNV). Þar hækkaði verð á brauði og kornvörum mest innan liðarins eða um 2,8% (0,06% í VNV). Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækkaði um 2,9% (0,16% í VNV) á milli mánaða og hefur þessi liður hækkað á síðustu tveimur mánuðum um tæp 4,6%. Þá hækkaði liðurinn tómstundir og menning um 0,54% (0,05% í VNV).
Ferðaliðurinn í heild hækkaði um 1% (0,15% í VNV) þar sem verð á bílum vegur hvað þyngst eða um 3,7% (0,20% í VNV). Verð á bílum hefur því hækkað um rúm 6,5% á síðastliðnum þremur mánuðum. Í liðnum lækkaði eldsneyti eins og síðustu mánuði um 3,4% (-0,11% áhrif á VNV) og flugverð lækkaði um 0,7% (-0,01% í VNV).
Áhrifa COVID farið að gæta á íbúðamarkaði?
Það sem vó helst á móti hækkunum í maímánuði var húsnæðisliðurinn sem lækkaði um 0,3% (-0,10% í VNV) á milli mánaða. Reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar húsnæðisverð að mestu, lækkaði um 0,6% (-0,11% í VNV) og viðhald og viðgerðir á húsnæði lækkaði um 0,6% (-0,03% í VNV) á milli mánaða. Hins vegar hækkaði greidda húsaleigan um 0,95% (0,04% í VNV).
Ágætur gangur var á íbúðamarkaði á fyrsta fjórðungi ársins samkvæmt þróun markaðsverðs húsnæðis í VNV. Nú í maímánuði er breyting þar á og spurning hvort áhrifa af COVID sé farið að gæta á íbúðamarkaði. Maímæling Hagstofunnar á þessum lið, sem byggir á kaupsamningum í febrúar-apríl, hljóðaði upp á 0,2% lækkun. Verð á fjölbýli og sérbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkaði á milli mánaða en hins vegar hækkaði verð á landsbyggðinni. Vaxtaþáttur reiknuðu húsaleigunnar, sem byggir á þróun vaxta á verðtryggðum íbúðalánum, skýrir svo 0,4% af heildarlækkun þessa liðar í maí.
Undanfarna 12 mánuði hefur markaðsverð húsnæðis hækkað um 5,7% samkvæmt mælingu Hagstofunnar sem jafngildir um 3% raunhækkun. Mikill munur er hins vegar á þróun eftir gerð og staðsetningu. Verð á landsbyggðinni hefur hækkað mest á síðastliðnum 12 mánuðum eða um 10,7% á meðan verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 4,9% og sérbýli um 2,2% á sama tímabili. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur því lækkað að raunvirði undanfarið ár.
Verðbólga rétt yfir markmiði á næstunni
Við gerum ekki ráð fyrir að verðbólga fari á mikið skrið á næstunni og teljum við að áhrif af veikingu krónunnar séu að mestu komin fram í mælingunum. Við spáum 0,3% hækkun VNV í júní, 0,2% lækkun í júlí og 0,2% hækkun í ágúst. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,6% í ágúst 2020. Samkvæmt spá okkar mun verðbólga mælast rétt yfir markmið Seðlabankans á næstu misserum. Við gerum svo ráð fyrir að hún mælist að meðaltali 2,6% árið 2021 og 2,5% árið 2022.
Mikil óvissa er til staðar núna þessa stundina og er krónan helsti óvissuþátturinn. Forsendur eru að krónan haldist nokkuð stöðug í grennd við núverandi gengi. Hins vegar gæti þróun íbúðaverðs orðið til þess að halda meira aftur að verðbólgu þegar lengra líður á þetta ár en við gerum ráð fyrir.