Liðurinn ferðir og flutningar hækkaði í verði um 0,17% (0,03% í VNV). Það sem þar vó mest til hækkunar í mánuðinum eru flugfargjöldin. Undanfarin ár hefur verð á flugfargjöldum sveiflast þó nokkuð í febrúar en eftir árstíðarbundna lækkun í janúar er ekki á vísan að róa hvort árstíðarbundna lækkunin gangi til baka í febrúar eða mars. Nú í febrúar hækkuðu flugfargjöld um 7,8% (0,12% í VNV). Aðrir helstu undirliðir ferða og flutninga lækkuðu hins vegar á milli mánaða, má þar helst nefna rekstur ökutækja (-0,08% í VNV), eldsneyti (-0,07% í VNV) og verð á bílum (-0,02% í VNV).
Horfur að verðbólga haldist undir markmiði
Horfur eru á að verðbólga haldist undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans á næstu misserum. Við spáum 0,4% hækkun VNV í mars, 0,2% hækkun í apríl og 0,1% hækkun í maí. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,0% í maí 2020. Í kjölfarið teljum við að verðbólga verði að jafnaði 2,2% árið 2020 og 2,5% árið 2021. Stærstu óvissuþættir í spá okkar er hugsanleg veiking krónu og launakröfur í kjarasamningum sem enn á eftir að ljúka. Mikill óróleiki hefur einkennt vinnumarkaðinn síðustu vikurnar vegna kjaradeilna borgarinnar og Eflingar. Það er mikið áhyggjuefni sem vonandi leysist úr fljótt. Á móti gæti þróun íbúðaverðs leitt til minni verðbólgu en hér er spáð en sá liður hefur verið fremur óútreiknanlegur upp á síðkastið eins og lesa má um hér að ofan.