Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga stígur á nýjan leik í febrúar

Verðbólga er á ný rétt undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans eftir talsverða hækkun vísitölu neysluverðs í febrúar. Á þar hækkun á íbúðamarkaði drjúgan þátt. Horfur eru þó á hóflegri verðbólgu næstu fjórðunga.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,92% í febrúar.Verðbólga mælist nú 2,4% en var 1,7% í janúar. Verðbólga verður því áfram undir 2,5% markmiði Seðlabankans. Verðbólga m.v. VNV án húsnæðis mælist sömuleiðis 2,4% undanfarna 12 mánuði.

Mæling febrúarmánaðar er yfir birtum spám. Við spáðum 0,6% hækkun VNV milli mánaða. Helsti undirliðurinn sem kom okkur á óvart er húsnæðisliðurinn sem hækkar talsvert á milli mánaða, bæði greidda og reiknaða húsaleigan. Einnig voru áhrif útsöluloka meiri en við væntum.

Húsnæði vegur þyngst til hækkunar

Húsnæðisliður VNV vó þungt til hækkunar hennar í febrúar. Í heild hækkaði liðurinn um 0,71 á milli mánaða og var hækkun á markaðsverði íbúðarhúsnæðis (0,12% í VNV) og greiddri húsaleigu (0,08% í VNV) þar þyngst á metunum.
Allnokkurt líf virðist enn vera í íbúðamarkaði ef marka má nýjustu tölur frá Hagstofunni. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis á landinu öllu hækkaði um 0,9% í febrúarmælingu VNV frá mánuðinum á undan, en vert er að hafa í huga að febrúartölur Hagstofunnar byggja á kaupsamningum frá nóvember, desember og janúarmánuði síðastliðnum. Hækkunin milli mánaða var svipuð hvort sem litið er til höfuðborgarsvæðis eða landsbyggðar.

Árstaktur hækkunar íbúðaverðs mælist nú 4,6% á landsvísu og hefur ekki verið hraðari frá nóvember í fyrra. Hraðast hefur íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni hækkað (8,1%) en hækkunin á höfuðborgarsvæðinu nemur 3,6% undanfarið ár. Raunhækkun íbúðaverðs nemur því 1,2% á höfuðborgarsvæðinu en 5,6% á landsbyggðinni undanfarna 12 mánuði. Með hjaðnandi verðbólgu hefur raunhækkun íbúðaverðs mælst meiri síðustu mánuði en hún var lengst af síðasta ári og er takturinn öll hraðari á þennan mælikvarða nú um stundir en við höfðum vænst.

Þá hækkaði greidd húsaleiga um 1,8% í febrúarmælingunni, en hún endurspeglar breytingar á leiguverði í janúar frá desember síðastliðnum. Virðist því sem leigusamningar hafi margir hverjir hækkað allnokkuð um síðustu áramót. Að jafnaði hefur febrúarhækkun þessa liðar verið mun hóflegri undanfarin 5 ár, eða á bilinu 0,1% - 0,6%.

Útsölulok setja svip sinn á mælingarnar

Að vanda settu áhrif útsöluloka svip sinn á mælingu febrúarmánaðar. Það sem vó mest til hækkunar í febrúarmánuði voru föt og skór sem hækkuðu í verði um 6,4% (0,25% í VNV). Þessi hækkun er ívið meiri en við höfðum gert ráð fyrir. Auk þess hækkaði húsgögn og heimilisbúnaður í verði um 3,9% (0,20% í VNV) ásamt tómstundum og menningu sem hækkaði milli mánaða um 1,8% (0,18% í VNV).

Liðurinn ferðir og flutningar hækkaði í verði um 0,17% (0,03% í VNV). Það sem þar vó mest til hækkunar í mánuðinum eru flugfargjöldin. Undanfarin ár hefur verð á flugfargjöldum sveiflast þó nokkuð í febrúar en eftir árstíðarbundna lækkun í janúar er ekki á vísan að róa hvort árstíðarbundna lækkunin gangi til baka í febrúar eða mars. Nú í febrúar hækkuðu flugfargjöld um 7,8% (0,12% í VNV). Aðrir helstu undirliðir ferða og flutninga lækkuðu hins vegar á milli mánaða, má þar helst nefna rekstur ökutækja (-0,08% í VNV), eldsneyti (-0,07% í VNV) og verð á bílum (-0,02% í VNV).

 Horfur að verðbólga haldist undir markmiði

Horfur eru á að verðbólga haldist undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans á næstu misserum. Við spáum 0,4% hækkun VNV í mars, 0,2% hækkun í apríl og 0,1% hækkun í maí.  Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,0% í maí 2020. Í kjölfarið teljum við að verðbólga verði að jafnaði 2,2% árið 2020 og 2,5% árið 2021. Stærstu óvissuþættir í spá okkar er hugsanleg veiking krónu og launakröfur í kjarasamningum sem enn á eftir að ljúka. Mikill óróleiki hefur einkennt vinnumarkaðinn síðustu vikurnar vegna kjaradeilna borgarinnar og Eflingar. Það er mikið áhyggjuefni sem vonandi leysist úr fljótt. Á móti gæti þróun íbúðaverðs leitt til minni verðbólgu en hér er spáð en sá liður hefur verið fremur óútreiknanlegur upp á síðkastið eins og lesa má um hér að ofan.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband