Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga stendur í stað

Hækkanir á íbúðaverði, eldsneyti og flugverði vógu þyngra en sumarútsölur í júlí. Vísitala neysluverðs hækkaði á milli mánaða en 12 mánaða verðbólga stendur þó í stað og mælist 4,3%. Við teljum að verðbólga taki að hjaðna eftir því sem líður á árið og mælist við 2,5% markmið Seðlabankans á þriðja fjórðungi næsta árs.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,16% í júlí skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga stendur í stað á milli mánaða og mælist 4,3%. Verðbólga m.v. VNV án húsnæðis mælist 3,4% undanfarna 12 mánuði.

Mæling júlímánaðar er yfir okkar spá, en við spáðum 0,1% hækkun VNV milli mánaða. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu er húsnæðisliðurinn sem hækkaði umfram það sem við gerðum ráð fyrir. Auk þess lækkaði matvöruliðurinn töluvert milli mánaða en við höfðum gert ráð örlítilli hækkun í þeim lið.

Íbúðaverð heldur áfram á hækka

Líkt og undanfarna mánuði hefur hækkun á íbúðaverði veruleg áhrif á júlímælingu VNV. Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar húsnæðisverð að mestu, hækkaði um 0,86% milli mánaða (0,14% áhrif á VNV). Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 0,93% milli mælinga Hagstofunnar, en hún styðst við 3 mánaða meðaltal við útreikninga á þessum lið.

Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu hækkað um 13,2% á þennan mælikvarða. Mest er hækkunin á íbúðum í sérbýli á höfuðborgarsvæðinu, eða 17%. Íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hafa hækkað um rúm 14% á sama tíma og íbúðaverð á landsbyggðinni hefur hækkað um rúm 8%. Miðað við þessa mælingu hefur tekið að hægja á hækkunum á íbúðum í sérbýli á höfuðborgarsvæðinu en hins vegar hefur hækkunartaktur íbúða í fjölbýli aukist og ekki mælst meiri síðan í lok árs 2017.

Ferðir og flutningar til hækkunar en sumarútsölur til lækkunar

Liðurinn ferðir og flutningar hafði mest áhrif til hækkunar vísitölunnar í júlí. Liðurinn hækkaði um 2% (0,27% áhrif á VNV) þar sem flutningar í lofti hækkuðu um 10,7% (0,16% áhrif á VNV) og eldsneyti um 3,9% (0,12% áhrif á VNV). Nú virðist sem líf sé farið að glæðast á flugmarkaði að nýju en flugfargjöld til útlanda hækkuðu um ríflega 11% á milli mánaða og frá því í mars hefur þessi liður hækkað um rúm 21%.

Á móti framangreindum hækkunarliðum voru nokkrir liðir sem vógu til lækkunar VNV í mánuðinum. Sumarútsölur í júlí voru þó heldur grynnri en við gerðum ráð fyrir. Fatnaður og skór lækkuðu í verði um 5,3% (-0,20% áhrif á VNV) sem telst heldur lítið þar sem undir venjulegum kringumstæðum lækkar þessi liður alla jafna um meira en 10% í júlímánuði. Þá lækkaði verð á matar-og drykkjarvörum um 0,6% (-0,09% áhrif á VNV) ásamt því að liðurinn heilsa lækkaði um 0,87% (-0,03% áhrif á VNV) vegna verðlækkana á lyfjum.

Samsetning verðbólgunnar

Áhugavert er að skoða samsetningu verðbólgunnar um þessar mundir. Af 4,3% verðbólgu skýrir íbúðaverð 1,5% af verðbólgunni, innfluttar vörur um 1,2%, þjónusta 1,1% og innlendar vörur um 0,4%. Með nokkurri einföldun má segja að innflutt verðbólga, húsnæði og verð á innlendri vöru og þjónustu skýri sinn þriðjung hver af verðbólgunni um þessar mundir.

Horfur fyrir næstu mánuði

Við teljum að verðbólga breytist lítið fram á haustið en taki í kjölfarið að hjaðna fram á mitt næsta ár. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,5% hækkun VNV bæði í ágúst og september og 0,2% hækkun í október. Gangi spáin eftir mælist verðbólga 4,1% í október. Við teljum í kjölfarið að verðbólga hjaðni af meiri krafti þegar frá líður og á þriðja fjórðungi næsta árs verði hún við 2,5% markmið Seðlabankans. Næstu tvö ár eru svo horfur á að verðbólga verði í grennd við verðbólgumarkmiðið.

Helsta forsenda þess að spá okkar gangi eftir er að krónan styrkist á komandi fjórðungum. Á móti gæti vegið til aukinnar og þrálátari verðbólgu ef íbúðaverðs- og launahækkanir yrðu fram úr öllu hófi.

Einnig má nefna að við höfum nokkrar áhyggjur af miklum verðhækkunum erlendis frá sem og hækkandi flutningskostnaði vegna áhrifa faraldursins og eftirkasta hans. Þetta gæti leitt til þess að verð á innfluttum vörum hækki meira en við gerum hér ráð fyrir.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband