Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga óhögguð í 4,3%

Enn á ný skýrir hækkun íbúðaverðs drjúgan hluta hækkunar neysluverðs í ágúst. Verðbólga stendur í stað á milli mánaða og mælist 4,3%. Verðbólga hefur því ekki haggast í þrjá mánuði eða frá því í maí síðastliðnum. Við teljum að verðbólga verði við efri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans enn um sinn en taki að hjaðna í byrjun næsta árs og verði komin við markmið á 3. ársfjórðungi 2022.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,46% í ágúst skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga stendur í stað milli mánaða og mælist 4,3% eins og hún hefur mælst síðan í maí síðastliðnum. Verðbólga m.v. VNV án húsnæðis mælist 3,3% undanfarna 12 mánuði.

Mæling ágústmánaðar er yfir okkar spá sem og öðrum birtum spám, en við spáðum 0,4% hækkun VNV milli mánaða. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu er húsnæðisliðurinn ásamt húsgögnum og heimilisbúnaði sem hækkuðu meira en við væntum í okkar spá.

Íbúðaverð siglir áfram seglum þöndum

Eins og verið hefur undanfarna fjórðunga var liðurinn reiknuð húsaleiga drjúgur í hækkun VNV í ágúst. Lítið lát er eins og fyrri daginn á hækkun íbúðaverðs og mældist hækkunin milli mánaða 1,0% á mælikvarða Hagstofunnar fyrir landið allt. Mest var hækkunin á landsbyggðinni, 2,4%, en sérbýli á höfuðborgarsvæði hækkaði einnig verulega (2,2%). Hins vegar mældist einungis 0,1% hækkun á verði fjölbýla á höfuðborgarsvæði milli mánaða.

Árshækkun íbúðaverðs á landinu öllu nemur nú ríflega 13% og hefur árstakturinn verið svipaður síðan í maí síðastliðnum. Líkt og undanfarið er árshækkunin hröðust í sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu (16%) og hægust á landsbyggðinni (11%) en þó dregur saman með helstu eignaflokkum í ágústmælingunni eins og myndin sýnir.

Mikil hækkun íbúðaverðs var áhrifaþáttur í vaxtahækkun Seðlabankans í síðustu viku. Bentu forsvarsmenn bankans á að vaxtalækkunin í fyrra hafi skilað sér kröftuglega inn í þróun eignaverðs. Hækkun fasteignaverðs væri sá þáttur sem helst hafi komið i veg fyrir hjöðnun verðbólgu í sumar. Þó væru ekki merki um bólu heldur mætti sem fyrr skýra þróunina með skorti á framboði og líflegri eftirspurn. Vaxtahækkunin væri því að einhverju leyti til þess ætluð að kæla fasteignamarkaðinn. Verður því fróðlegt að fylgjast með þróun markaðarins á komandi mánuðum í því ljósi.

Aðrir liðir hækka á milli mánaða

Að húsnæðisliðnum undanskildum hafði liðurinn húsgögn og heimilisbúnaður mest áhrif til hækkunar vísitölunnar í ágúst. Liðurinn hækkaði um 1,1% (0,07% áhrif á VNV) vegna útsöluáhrifa sem eru að ganga til baka en liðurinn hafði lækkað um 1,6% síðustu þrjá mánuði.

Ferðir og flutningar hækkuðu um 0,2% (0,03% áhrif á VNV) milli mánaða þar sem bílar hækkuðu í verði um 0,6% (0,03% áhrif á VNV) og eldsneytisverð um 1,0% (0,03% áhrif á VNV). Á síðustu þremur mánuðum hefur eldsneytisverð hækkað um 5%. Í kjölfar verulegrar hækkunar eldsneytis á heimsmörkuðum Á móti lækkuðu flugfargjöld um 1,7% (-0,03% áhrif á VNV) en mikil óvissa er um þróun flugfargjalda þar sem fljótt skipast veður í lofti á þeim markaði þessa dagana.

Aðrir liðir sem vógu til hækkunar í ágústmánuði voru hótel og veitingastaðir (0,04% áhrif á VNV), heilsa (0,03% áhrif á VNV) og matur og drykkjarvörur (0,03% áhrif á VNV). Engir liðir vógu til lækkunar í mánuðinum.

Verðbólga enn þrálát en hjaðnar á endanum

Útlit er fyrir að verðbólga verði við 4,0% efri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans enn um sinn. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,4% hækkun VNV í september, 0,2% í október og sömuleiðis 0,2% hækkun vísitölunnar í nóvember. Miðað við þá spá verður verðbólga 4,3% í nóvember. Í kjölfarið er útlit fyrir að verðbólgan láti undan síga jafnt og þétt og áætlum við að hún verði komin að 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans að nýju á 3. ársfjórðungi 2022.

Styrking krónu umfram það sem við spáum á komandi fjórðungum gæti leitt til hraðari hjöðnunar verðbólgu en hér er spáð. Á móti gæti verðbólguþrýstingur vegna launa og/eða íbúðaverðs reynst meiri en við áætlum og gert verðbólgu þrálátari á komandi misserum. Einnig má nefna að verðhækkanir erlendis frá vegna áhrifa faraldursins og eftirkasta hans gætu leitt til þess að verð á innfluttum vörum hækki meiri en við gerum hér ráð fyrir.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband