Árshækkun íbúðaverðs á landinu öllu nemur nú ríflega 13% og hefur árstakturinn verið svipaður síðan í maí síðastliðnum. Líkt og undanfarið er árshækkunin hröðust í sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu (16%) og hægust á landsbyggðinni (11%) en þó dregur saman með helstu eignaflokkum í ágústmælingunni eins og myndin sýnir.
Mikil hækkun íbúðaverðs var áhrifaþáttur í vaxtahækkun Seðlabankans í síðustu viku. Bentu forsvarsmenn bankans á að vaxtalækkunin í fyrra hafi skilað sér kröftuglega inn í þróun eignaverðs. Hækkun fasteignaverðs væri sá þáttur sem helst hafi komið i veg fyrir hjöðnun verðbólgu í sumar. Þó væru ekki merki um bólu heldur mætti sem fyrr skýra þróunina með skorti á framboði og líflegri eftirspurn. Vaxtahækkunin væri því að einhverju leyti til þess ætluð að kæla fasteignamarkaðinn. Verður því fróðlegt að fylgjast með þróun markaðarins á komandi mánuðum í því ljósi.
Aðrir liðir hækka á milli mánaða
Að húsnæðisliðnum undanskildum hafði liðurinn húsgögn og heimilisbúnaður mest áhrif til hækkunar vísitölunnar í ágúst. Liðurinn hækkaði um 1,1% (0,07% áhrif á VNV) vegna útsöluáhrifa sem eru að ganga til baka en liðurinn hafði lækkað um 1,6% síðustu þrjá mánuði.
Ferðir og flutningar hækkuðu um 0,2% (0,03% áhrif á VNV) milli mánaða þar sem bílar hækkuðu í verði um 0,6% (0,03% áhrif á VNV) og eldsneytisverð um 1,0% (0,03% áhrif á VNV). Á síðustu þremur mánuðum hefur eldsneytisverð hækkað um 5%. Í kjölfar verulegrar hækkunar eldsneytis á heimsmörkuðum Á móti lækkuðu flugfargjöld um 1,7% (-0,03% áhrif á VNV) en mikil óvissa er um þróun flugfargjalda þar sem fljótt skipast veður í lofti á þeim markaði þessa dagana.