Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga lækkar í takt við spá okkar

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,2% í júlí skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 3,1% en var 3,3% í júní.


Það var fátt sem kom okkur á óvart í nýbirtum tölum Hagstofunnar um vísitölu neysluverðs. Sumarútsölur, óvenju lítil sumarhækkun flugfargjalda og hægur hækkunartaktur íbúðaverðs eru helstu skýringar á því að vísitala neysluverðs lækkaði í júlí. Árstaktur hækkunar íbúðaverðs hefur ekki verið hægari í 8 ár. Verðbólguhorfur hafa almennt batnað og horfur eru á svipuðum verðbólgutakti á næstu mánuðum. Við gerum ráð fyrir að verðbólgumarkmið Seðlabankans gæti verið í sjónmáli í lok þessa árs.

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,2% í júlí skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 3,1% en var 3,3% í júní. VNV án húsnæðis lækkaði um 0,4% í júlí og m.v. þá vísitölu mælist 2,8% verðbólga undanfarna 12 mánuði. Mæling júlímánaðar er í samræmi við okkar spá. Við spáðum 0,2% lækkun VNV milli mánaða, en spár greiningardeilda bankanna voru á bilinu 0,2% lækkun – 0,1% hækkun milli mánaða. Allir helstu undirliðir þróuðust í takti við spá okkar og fátt sem kemur okkur á óvart.

Hægasti hækkunartaktur íbúðaverðs í 8 ár

Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar þróun markaðsverð íbúðarhúsnæðis að stærstum hluta, hækkaði um 0,27% í júlímánuði (0,04% áhrif í VNV). Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði hins vegar um 0,43% á milli mánaða og hafði því vaxtaþáttur reiknaðrar húsaleigu talsverð lækkunaráhrif að þessu sinni. Það endurspeglar lækkandi vexti íbúðalána undanfarin misseri þar sem vaxtaþátturinn byggir á 12 mánaða hlaupandi meðaltali vaxta á íbúðalánum.

Mánaðarhækkun íbúðaverðs var að mestu bundin við landsbyggðina, en verð þar hækkaði að jafnaði um 1,3% milli mánaða. Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu hins vegar aðeins um 0,3% í verði milli mánaða og verð á sérbýlum lækkaði um 0,1% í júlímánuði.

12 mánaða hækkunartaktur íbúðaverðs mælist nú 3,5% samkvæmt tölum Hagstofunnar. Er það minnsta 12 mánaða hækkun íbúðaverðs í ríflega 8 ár og jafngildir einungis 0,4% raunhækkun íbúðaverðs m.v. vísitölu neysluverðs. Á landsbyggðinni hefur íbúðaverð hækkað um 4,9% undanfarið ár, fjölbýli á höfuðborgarsvæði hafa hækkað um 3,5% frá júlí í fyrra en sérbýli hafa einungis hækkað um 2,4%. Hefur raunverð sérbýla því lækkað um 0,7% undanfarið ár á framangreindan kvarða. Mikil breyting hefur orðið á þróun íbúðaverðs frá lokum síðasta árs, en þá var árstakturinn í 6,9% miðað við nafnverð og 3,2% miðað við raunverð.

Útsöluáhrifin í takti við væntingar

Útsöluáhrifin eru nokkurn veginn í þeim takti sem við áttum von á í júlí. Liðurinn föt og skór lækkaði um 11,2% í júlí (-0,49% í VNV). Einnig lækkaði húsgögn og heimilisbúnaður í verði um 3,5% (-0,19% í VNV). Auk framtalinna lækkana sem rekja má að stórum hluta til útsöluáhrifa lækkaði eldsneyti um -0,39% (-0,01% í VNV).  

Flugfargjöld hækka í hófi

Liðurinn ferðir og flutningar hækkaði í heild um 1,1% (0,16% í VNV) en þar vó mest liðurinn flutningar í lofti sem hækkaði um 4,98% (0,09% í VNV). Flugfargjöld eiga það til að hækka töluvert yfir sumartímann og telst þessi hækkun býsna hófleg. Ef litið er til síðustu fimm ára þá hafa flugfargjöld hækkað að meðaltali um 21% í júlímánuði. Auk flugfargjalda hækkaði verð á bílum í liðnum ferðir og flutningar um 1,1% (0,06% í VNV).

Aðrir liðir sem hækkuðu í verði í júlí voru hótel og veitingastaðir sem hækkuðu um 1,86% (0,11% í VNV) og  matur- og drykkjarvörur sem hækkaði um 0,59% (0,08% í VNV).

Útlit fyrir hjaðnandi verðbólgu

Við spáum 0,3% hækkun VNV í ágúst, 0,3% hækkun í september og 0,3% hækkun VNV í október.  Verðbólga mun samkvæmt því mælast 3,0% í október 2019. Útsölulok munu hafa áhrif á VNV í ágúst og september en á hinn bóginn gerum við ráð fyrir árstíðarbundinni lækkun flugfargjalda í þessum mánuðum. Í kjölfarið teljum við að verðbólga muni hjaðna á lokafjórðungi þessa árs, mælast 2,7% í lok ársins og verða því í sjónmáli við markmið Seðlabankans. Þá gerum við ráð fyrir að verðbólga verði 2,8% í bæði lok árs 2020 og 2021. Stærstu óvissuþættir í spá okkar eru hugsanleg veiking krónu og launakröfur í kjarasamningum sem enn á eftir að ljúka. Á móti gæti þó þróun íbúðaverðs leitt til minni verðbólgu en hér er spáð.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Sérfræðingur í Greiningu


Hafa samband