Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga í nóvember mælist 4,8%

Vísitala neysluverðs hækkaði á milli mánaða í nóvember en þó minna en flestar opinberar spár gerðu ráð fyrir. Húsnæðisliðurinn leiðir hækkun vísitölunnar í nóvember og skýrir 2/3 af hækkun vísitölu neysluverðs í mánuðinum. Verðbólguhorfur til skemmri tíma hafa aðeins batnað frá síðustu spá en þrátt fyrir það mun verðbólga enn mælast töluverð á næstu mánuðum.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,35% í nóvember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga mælist nú 4,8% en var 4,5% í október. Verðbólga án húsnæðis mælist hins vegar 3,0% undanfarna 12 mánuði. Það er því talsverður munur á verðbólgu með eða án húsnæðis, en þó sýnir síðari mælingin að verðbólguþrýstingur er fremur almennur um þessar mundir.

Mæling nóvembermánaðar er undir okkar spá og flesturm öðrum opinberum spám. Við spáðum 0,6% hækkun vísitölunnar á milli mánaða. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu er liðurinn ferðir og flutningar sem hækkaði minna en við gerðum ráð fyrir. Auk þess lækkaði liðurinn aðrar vörur og þjónusta í fyrsta sinn frá maí 2020 en við spáðum hækkun í þeim lið.

Enn hækkar íbúðaverð

Húsnæðisliður VNV er samur við sig í nóvember og leiðir hækkunina milli mánaða líkt og undanfarið. Í heild hækkaði liðurinn um 0,7% milli mánaða (0,23% áhrif í VNV). Þar munaði mestu um 1,1% hækkun á reiknaðri húsaleigu (0,18% í VNV) en greidd húsaleiga hækkaði um 0,7% (0,03% í VNV).

Reiknuð húsaleiga endurspeglar að mestu breytingar á íbúðaverði enda er henni ætlað að meta fórnarkostnað af búsetu í eigin húsnæði. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar um þróun markaðsverðs á íbúðarhúsnæði leiddu íbúðir í fjölbýlum á höfuðborgarsvæðinu hækkunina milli mánaða að þessu sinni. Slíkar eignir hækkuðu um 1,4% í verði á meðan sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu í verði um 0,8% og íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni um 0,6%.

Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 16% samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Mest er hækkunin á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu (tæp 20%) en húsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað í verði um tæp 16% og íbúðir í fjölbýlum á höfuðborgarsvæðinu um tæp 15% á sama tíma. Hækkunartakturinn í íbúðaverði er því enn að sækja í sig veðrið á þennan mælikvarða og hefur hann ekki verið hraðari í fjögur ár.

Hafa ber þó í huga að nokkur töf er á mælingu Hagstofunnar. Undirliggjandi gögn fyrir nóvembermælinguna eru til að mynda kaupsamningar sem þinglýst var í ágúst-október og endurspegla að einhverjum hluta viðskipti sem áttu sér stað enn fyrr á árinu. Þótt ekki séu enn merki um að nýlegar aðgerðir Seðlabankans til þess að dempa íbúðamarkað með hækkun vaxta og þrengri skilyrðum um lánveitingar með íbúðaveði hafi áhrif gætu þau átt eftir að koma fram á komandi mánuðum.

Aðrir liðir sem hækka

Að húsnæðisliðnum undanskildum var það liðurinn ferðir og flutningar sem hækkaði mest á milli mánaða í nóvember. Liðurinn hækkaði um 0,6% (0,08% áhrif á VNV) þar sem rekstur ökutækja hækkaði um 0,6% (0,08% áhrif á VNV) en þar af hækkaði bensín og olíur um 1,9% (0,06% áhrif á VNV). Eldsneytisverð hefur nú hækkað um ríflega 20% frá áramótum og má rekja það til hækkunar á heimsmarkaðsverði á eldsneyti sem hefur hækkað skarpt á þessu ári. 

Flugliðurinn stendur í stað á milli mánaða en þegar nánar er rýnt í liðinn lækka flugfargjöld til útlanda um 1% milli mánaða þó það hafi engin áhrif á vísitöluna. Flugfargjöld til útlanda hafa lækkað um 13% frá því í ágúst þegar delta bylgja faraldursins fór að rísa. Við spáðum því að flugfargjöld myndu hækka í nóvembermánuði en erfitt hefur reynst að ráða í þennan lið frá því að faraldurinn skall á.

Aðrir liðir sem vógu til hækkunar eru húsgögn og heimilisbúnaður sem hækkaði um 0,9% (0,06% áhrif á VNV) ásamt matar og drykkjarvörum sem hækkaði um 0,2% (0,03% áhrif á VNV). Okkur þykir líklegt að þessir liðir hækki vegna verðhækkana erlendis og aukins flutningskostnaðar.

Það telst til meiri tíðinda að nokkrir liðir lækkuðu á milli mánaða, en slíkt hefur verið býsna sjaldgæft að undanförnu. Liðurinn aðrar vörur og þjónusta lækkaði um 0,3% (-0,02% áhrif á VNV). Undirliðirnir snyrtivörur (-0,03% á VNV) og skartgripir (-0,01% á VNV) vógu þar þyngst. Líklegt þykir að útsöludagar að undanförnu skýri þessa lækkun að einhverju leyti en þessi liður hefur ekki lækkað frá því í maí í fyrra. Aðrir liðir sem lækkuðu á milli mánaða voru póstur og sími um 1,4% (-0,02% áhrif á VNV) og Heilsa sem lækkaði um 0,2% (-0,01% áhrif á VNV) þar sem lyf og lækningarvörur lækkuðu í verði á milli mánaða.

Samsetning verðbólgunnar hefur breyst mikið undanfarið ár eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Húsnæðisliðurinn hefur tekið við af innfluttum vörum sem leiðandi verðbólguvaldur. Af 4,8% verðbólgu skýrir húsnæðisliðurinn 2,2%, innlend þjónusta skýrir 1,1%, innfluttar vörur ríflega 1% og innlendar vörur 0,5%.

Verðbólguþrýstingurinn er því ekki einungis bundinn við húsnæðisliðinn þótt hann skýri stóran hluta verðbólgunnar um þessar mundir. Verðbólga án húsnæðis mælist til að mynda 3,0% sem er jafnframt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Verðbóluhorfur næstu missera

Verðbólguhorfur til skemmri tíma hafa aðeins batnað frá síðustu spá en þrátt fyrir það mun verðbólga enn mælast töluverð á næstu mánuðum. Ekki sér fyrir endann á verðþrýstingi á íbúðamarkaði en aukin óvissa er um skammtíma verðþróun á innfluttum liðum.

Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,5% hækkun vísitölunnar í desember, 0,2% lækkun í janúar og 0,6% hækkun í febrúar. Gangi sú spá eftir mun verðbólga mælast 4,9% í febrúar. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir styrkingu krónu, hægari hækkun íbúðaverðs og hugsanlega verðlækkun/stöðnun á innfluttum vörum. Þá fer verðbólga að síga jafnt og þétt en verður þó ekki við 2,5% markmið Seðlabankans fyrr en í byrjun árs 2023. Spá okkar hljóðar uppá 4,0% verðbólgu að jafnaði árið 2022 og 2,6% árið 2023 að meðaltali. Helstu forsendur fyrir því að langtímaspá okkar gangi eftir er að launahækkanir í  kjarasamningum í lok næsta árs verði ekki óhóflegar ásamt því að hægja taki á hækkunum á íbúðamarkaði og jafnvægi á markaðnum náist árið 2023.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband