Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 16% samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Mest er hækkunin á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu (tæp 20%) en húsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað í verði um tæp 16% og íbúðir í fjölbýlum á höfuðborgarsvæðinu um tæp 15% á sama tíma. Hækkunartakturinn í íbúðaverði er því enn að sækja í sig veðrið á þennan mælikvarða og hefur hann ekki verið hraðari í fjögur ár.
Hafa ber þó í huga að nokkur töf er á mælingu Hagstofunnar. Undirliggjandi gögn fyrir nóvembermælinguna eru til að mynda kaupsamningar sem þinglýst var í ágúst-október og endurspegla að einhverjum hluta viðskipti sem áttu sér stað enn fyrr á árinu. Þótt ekki séu enn merki um að nýlegar aðgerðir Seðlabankans til þess að dempa íbúðamarkað með hækkun vaxta og þrengri skilyrðum um lánveitingar með íbúðaveði hafi áhrif gætu þau átt eftir að koma fram á komandi mánuðum.
Aðrir liðir sem hækka
Að húsnæðisliðnum undanskildum var það liðurinn ferðir og flutningar sem hækkaði mest á milli mánaða í nóvember. Liðurinn hækkaði um 0,6% (0,08% áhrif á VNV) þar sem rekstur ökutækja hækkaði um 0,6% (0,08% áhrif á VNV) en þar af hækkaði bensín og olíur um 1,9% (0,06% áhrif á VNV). Eldsneytisverð hefur nú hækkað um ríflega 20% frá áramótum og má rekja það til hækkunar á heimsmarkaðsverði á eldsneyti sem hefur hækkað skarpt á þessu ári.
Flugliðurinn stendur í stað á milli mánaða en þegar nánar er rýnt í liðinn lækka flugfargjöld til útlanda um 1% milli mánaða þó það hafi engin áhrif á vísitöluna. Flugfargjöld til útlanda hafa lækkað um 13% frá því í ágúst þegar delta bylgja faraldursins fór að rísa. Við spáðum því að flugfargjöld myndu hækka í nóvembermánuði en erfitt hefur reynst að ráða í þennan lið frá því að faraldurinn skall á.
Aðrir liðir sem vógu til hækkunar eru húsgögn og heimilisbúnaður sem hækkaði um 0,9% (0,06% áhrif á VNV) ásamt matar og drykkjarvörum sem hækkaði um 0,2% (0,03% áhrif á VNV). Okkur þykir líklegt að þessir liðir hækki vegna verðhækkana erlendis og aukins flutningskostnaðar.