Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga hjaðnar þvert á spár

Horfur eru að verðbólga verði áfram um og yfir 3% næsta kastið en haldist þó undir 4% þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.


Lækkun flugfargjalda, bifreiðaverðs og minni áhrif útsöluloka á fötum og skóm eru helstu skýringar á því að vísitala neysluverðs hækkaði minna en vænst var í febrúar. Horfur eru að verðbólga verði áfram um og yfir 3% næsta kastið en haldist þó undir 4% þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,19% í febrúar skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 3,0% en var 3,4% í janúar. Hefur verðbólga ekki mælst minni síðan í október síðastliðnum. VNV án húsnæðis hækkaði um 0,15% í febrúar og miðað við þá vísitölu mælist 2,1% verðbólga undanfarna 12 mánuði.

Mæling febrúarmánaðar er undir öllum birtum spám. Við spáðum 0,6% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,6% – 0,7% hækkun milli mánaða. Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur að mestu í meiri lækkun bifreiðaverðs, meiri lækkun flugfargjalda, minni hækkun í húsnæðislið og minni hækkun á fötum og skóm en við væntum.

Meira jafnvægi á íbúðamarkaði

Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar þróun íbúðaverðs að stærstum hluta, hækkaði um 0,27% í febrúar. Er það talsvert undir meðaltali síðustu 12 mánaða, sem er 0,45% hækkun. Samkvæmt tölum Hagstofu dregur einnig úr árs hækkunartakti íbúðarhúsnæðis og mælist hann nú 5,6% á landinu í heild. Þar vekur sér í lagi athygli að verulega hefur hægt á hækkunartaktinum á landsbyggðinni á síðustu mánuðum. Er hann nú ríflega 8% en var nærri 15% í desember síðastliðnum. Á höfuðborgarsvæði hefur verð á sérbýlum hækka um tæp 6% undanfarna 12 mánuði en verð á fjölbýlum um tæp 5% á sama tíma. Íbúðamarkaður ber að þessu leyti aukin merki um jafnvægi en raunin var fyrir ári síðan þegar hækkunartakturinn var enn í tveggja stafa tölu.

Útsöluáhrif minni en vænst var

Áhrif útsöluloka voru ekki jafn mikil og vænta mátti miðað við undanfarin ár. Húsgögn og heimilisbúnaður vó einna þyngst til hækkunar eða um 5,42% (0,20% í VNV). Áhrif útsöluloka á fötum og skóm voru hins vegar öllu minni en vanalega í febrúar, 1,19% (0,04 í VNV), og ætla má að áhrif útsöluloka í þessum lið verði að sama skapi meiri í mars. Aðrir liðir sem vógu til hækkunar í febrúar voru til að mynda tómstundir og menning um 0,42% (0,04% í VNV) og póstur og sími um 1,62% (0,03% í VNV).

Þeir liðir sem lækkuðu í mælingunni var liðurinn ferðir og flutningar sem lækkaði um 1,11% (-0,19% í VNV). Þar má helst nefna flutninga í lofti 10,09% (-0,14% í VNV) og bifreiðaverð sem lækkaði um 0,76% (-0,06%). Matur og drykkjarvörur voru einnig nokkuð ódýrari í febrúar en í mánuðinum á undan en lækkunin nam 0,42% (-0,05% í VNV) í mælingunni. Munar þar ekki síst um lækkandi verð á ávöxtum auk þess sem fiskverð lækkaði einnig töluvert.

Veruleg breyting hefur orðið á samsetningu verðbólgunnar undanfarið ár. Í ársbyrjun 2018 var húsnæðisliður VNV langstærsti verðbólguvaldurinn en verð á innfluttum vörum vó þá til u.þ.b. 1% verðhjöðnunar. Miðað við febrúarmælingu VNV vógu innfluttar vörur, að eldsneyti undanskyldu, hins vegar til 1,45% verðbólgu á meðan húsnæðisliðurinn skýrði einungis 0,95% af 3,0% heildarverðbólgunni. Gengislækkun krónu á haustdögum 2018 skýrir hækkandi verð innfluttra vara, en þó virðist sem verðhækkun þeirra sé með hóflegra móti í samanburði við gengisbreytingar enn sem komið er.

Horfur fyrir næstu mánuði

Útlit er fyrir að verðbólga muni aukast lítillega næstu mánuði og verði áfram um og yfir 3% næsta kastið. Við spáum 0,5% hækkun VNV í mars, 0,2% hækkun VNV í apríl og 0,2% hækkun VNV í maí. Verðbólga mun samkvæmt bráðabirgðaspá okkar mælast 3,4% í maí 2019.

Í mars ganga útsöluáhrif til baka með tilheyrandi hækkunarþrýstingi á VNV. Gætu þau hækkunaráhrif reyndar orðið meiri en í bráðabirgðaspá okkar þar sem áhrif útsöluloka voru óvenju lítil í febrúar. Þá má búast við hækkun flugfargjalda í kring um páskana sem svo aftur gengur til baka í maímánuði. Jafnt og þétt mun draga úr hækkunartakti innfluttra vara þegar vorar að því gefnu að krónan veikist ekki á nýjan leik. Þá gerum við ráð fyrir að íbúðaverð muni hækka öllu hægar á komandi mánuðum en áætlað er í febrúarspánni.