Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga hjaðnar lítillega í nóvember

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,3% í nóvember líkt og við væntum. Ársverðbólga hjaðnar úr 9,4% í 9,3%. Enn er talsverður þróttur í íbúðamarkaði og innfluttu verðbólgunni. Útlit er fyrir að verðbólga muni halda áfram að hjaðna á næstu mánuðum og það hraðar.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,3% í nóvember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar lítillega úr 9,4% í 9,3%. Verðbólga m.v. VNV án húsnæðis mælist 7,1% undanfarna 12 mánuði.

Mæling nóvembermánaðar er í takti við spár greiningaraðila. Spár voru á bilinu 0,3 - 0,4% og spáðum við 0,3% hækkun VNV á milli mánaða.

Miklar sveiflur á íbúðamarkaði

Í mælingu Hagstofu hækkaði reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar húsnæðisverð að mestu, um 1% (0,20% áhrif á VNV). Þessi hækkun kemur okkur lítið á óvart þar sem vísitala íbúðaverðs sem birtist fyrr í mánuðinum og gaf til kynna að enn væri talverður þróttur í íbúðamarkaðnum. Um þessar mundir er talsverð fylgni á milli vísitölu íbúðaverðs og markaðsverðs íbúðarhúsnæðis.

Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 0,8% á milli mánaða. Mest var hækkunin á landsbyggðinni eða um 1,1% og fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði einnig um 0,9%, eftir að hafa staðið í stað síðustu tvo mánuði. Aftur á móti lækkaði verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 0,3%.

Árstaktur markaðsverðs íbúðarhúsnæðis hjaðnar örlítið milli mánaða og mælist nú 21,2%.Húsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað hraðast á landsbyggðinni á tímabilinu eða um 22,2%. Þar á eftir koma fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (21,0%) og lestina reka sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (20,7%) á sama tímabili.

Matvörur hækka en flugfargjöld lækka

Fyrir utan húsnæðisliðinn var hækkun á matar- og drykkjarvörum sem vóg mest til hækkunar í nóvember. Liðurinn hækkaði um 0,7% (0,11% áhrif á VNV). Hækkunin virðist vera frekar almenn, til að mynda hækkuðu undirliðirnir brauð og kornvörur um 1,6% (0,03% áhrif á VNV) og kjötvörur um 0,8% (0,02% áhrif á VNV).

Aðrir helstu liðir sem hækkuðu í nóvember á milli mánaða var heilsa um 0,7% (0,03% áhrif á VNV) en lyfjaverð fylgir alla jafna gengi krónunnar ásamt hótelum og veitingstöðum sem hækkuðu um 0,65% (0,03% áhrif á VNV).

Það voru þó einnig nokkrir liðir sem vógu til lækkunar í mælingunni. Þar má helst nefna flutningar í lofti sem lækkuðu um 8,5% (-0,18% áhrif á VNV) en um árstíðarbundna lækkun er að ræða þar sem flugverð lækkar alla jafna í nóvember og hækkar á nýjan leik í desember. Að flugverðinu undanskyldu voru það húsgögn og heimilsbúnaður sem lækkuðu um 0,6% (-0,04% áhrif á VNV). Það er óvanalegt að liðurinn lækki í nóvember en ætla má að ástæðan sé stórir útsöludagar sem voru allsráðandi nú í nóvember.

Verðbólga mun hjaðna hraðar

Vægi húsnæðisliðarins í ársverðbólgunni helst óbreytt á milli mánaða en fram að því hafði dregið úr vægi hans frá því í sumar. Af 9,3% verðbólgu í nóvember skýrir húsnæðisliðurinn nú um 3,7% af heildar-verðbólgunni. Aðeins dregst úr vægi innfluttrar verðbólgu sem skýrir næst mest af heildarverðbólgunni eða um 2,1%. Vægi þjónustu er um 1,9% og innlendar vörur um 1,6% af verðbólgunni.

Verbólga mun hjaðna nokkuð hratt á næstum mánuðum samkvæmt spá okkar. Við spáum 0,4% hækkun VNV í desember, 0,2% lækkun í janúar og 0,6% hækkun í febrúar. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 7,9% í febrúar.

Það er þó talsvert langt í land að verðbólga nálgist 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Enn er talsverður þróttur í bæði íbúðamarkaði og innfluttri verðbólgu. Við gerum þó bæði ráð fyrir rólegri íbúðamarkaði og stöðugri krónu en verið hefur og mun það hjálpa mikið til við hjöðnun verðbólgunnar á næstunni. Langtímaspá okkar helst óbreytt og hljóðar upp á 6,4% verðbólgu að jafnaði árið 2023 og 4,0% árið 2024.

Það er ýmislegt sem þarf að ganga upp til að verðbólga hjaðni og það hratt. Helstu forsendur spár okkar eru rólegri íbúðamarkaður og styrking krónu þegar lengra líður á spátímann. Annar og stór óvissuþáttur í spánni okkar eru kjarsamningarnir en mikil spenna er á vinnumarkaði og ljóst að kjaraviðræður komandi mánaða verða veruleg áskorun. Í spánni okkar erum við samt sem áður að gera ráð fyrir talsverðum launahækkunum á næsta ári.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband