Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga hjaðnar í febrúar

Við spáum því að ársverðbólga muni hjaðna í febrúar. Í mánuðinum lita útsölulok mælinguna auk þess sem útlit er fyrir talsverða hækkun á matvöruverði. Á móti vegur að flugfargjöld lækka í verði. Við væntum þess að verðbólga haldi áfram að hjaðna á næstu mánuðum.


Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,8% í febrúar frá fyrri mánuði. Ef spá okkar gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga hjaðna úr 9,9% í 9,6%. Hækkun á matvöruverði auk útsöluloka er það helsta sem vegur til hækkunar í mánuðinum. Á móti vegur að flugfargjöld lækka í verði á milli mánaða. Verðbólga hjaðnar hægt um sinn og heldur áfram að hjaðna næstu mánuði. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs fyrir mánuðinn þann 27. febrúar næstkomandi.

Útsölulok og hækkun á matvöruverði

Líkt og gjarnan er í febrúar lita útsölulok febrúarmælinguna nú enda voru útsölurnar í janúar með þeim mestu frá því fyrir faraldur. Samkvæmt spá okkar hækka húsgögn og heimilisbúnaður í verði um 4,5% (0,27% áhrif á VNV) á milli mánaða en liðurinn lækkaði um 5,5% í útsölunum í janúar. Föt og skór hækka einnig í verði um 5,4% (0,17% áhrif á VNV) eftir ríflega 8% lækkun í janúar.

Matvöruverð hækkaði um næstum 2% í janúar en verð á matvöru hefur ekki hækkað svo mikið á milli mánaða í 8 ár. Hækkunin stafar að mestu vegna hærra verðs á mjólkurvörum en auk þess hækkaði verð á ýmsu öðru, svo sem grænmeti og brauði. Við teljum að verð á matvörum haldi áfram að hækka nú í febrúar og spáum við því að matar- og drykkjarvörur hækki um 1,4% (0,22% áhrif á VNV). Við teljum að á næstu mánuðum muni matvöruverð halda áfram að hækka en hægja muni þó talsvert á hækkunartaktinum.

Aðrir helstu liðir sem hafa áhrif til hækkunar á vísitölunni eru tómstundir og menning sem hækka í verði um 0,5% (0,04% áhrif á VNV), ásamt hótelum og veitingastöðum sem hækka um 0,8% (0,04% áhrif á VNV).

Liðurinn ferðir og flutningar er sá eini sem hefur áhrif til lækkunar í mánuðinum. Við spáum því að liðurinn lækki um 0,7% (-0,12% áhrif á VNV) þar sem mestu munar um flugfargjöld, en þau lækka um 4,2% (-0,08% áhrif á VNV). Einnig mælist lækkun á verði bíla (-0,03% áhrif á VNV) og smávægileg lækkun á eldsneytisverði (-0,01% áhrif á VNV).

Rólegur íbúðamarkaður en vextir hækka

Íbúðamarkaðurinn hefur kólnað eins og sést glögglega á ýmsum tölum síðustu mánaða. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis lækkaði um 0,2% í janúar og lækkaði þar með í fyrsta sinn að einhverju ráði síðan í maí 2020. Aftur á móti heldur vaxtaþátturinn áfram að hækka en hann byggir á vöxtum verðtryggðra íbúðalána. Við gerum ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram og að reiknuð húsaleiga, sem byggir á þessum tveimur liðum, hækki um 0,45% (0,09% áhrif á VNV) á milli mánaða. Vaxtaþátturinn mun þar skýra alla þá hækkun.

Aðrir undirliðir í húsnæðisliðnum hækka einnig á milli mánaða. Greidd húsaleiga hækkar í verði um 0,6% (0,03% áhrif á VNV) samkvæmt spá okkar auk viðhalds og viðgerða á húsnæði sem hækkar um 1,6% (0,02% áhrif á VNV).

Verðbólga hjaðnar

Ársverðbólga í janúar mældist 9,9% og er í sömu hágildum og í júlí síðastliðnum. Ef spá okkar fyrir febrúarmánuð gengur eftir mun verðbólga hjaðna í 9,6%. Útlit er fyrir að hún hjaðni áfram næstu mánuði, í bráðabirgðaspá okkar spáum við 0,6% hækkun í mars, 0,4% í apríl og 0,3% í maí. Gangi sú spá eftir mun verðbólga mælast 7,8% í maí.

Það er langur vegur framundan og margt sem þarf að ganga upp svo verðbólga hjaðni í markmið Seðlabankans. Að okkar mati er helsta óvissan um þessar mundir innflutt verðbólga og hvernig hún mun þróast á næstunni en krónan þarf að vera stöðugri en hún hefur verið til að halda aftur af frekari hækkun á innflutningsverðlagi. Auk þess ríkir mikil óvissa varðandi þá kjarasamninga sem eftir á að ljúka. Ef allt gengur upp gæti verðbólga verið komin niður í um 5-6% næstu áramót. Í langtímaspá okkar gerum við ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 7,5% á þessu ári, 4,4% árið 2024 og 2,8% árið 2025.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.