Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga hjaðnar í 9,5%

Ársverðbólga hjaðnar úr 9,9% í 9,5% í maímánuði líkt og við spáðum fyrir um. Við spáum því að verðbólga hafi náð toppi í febrúar og muni hjaðna áfram, jafnvel nokkuð hratt. Margt þarf þó að ganga upp til að það gerist, til að mynda þarf íbúðaverð að hætta að sveiflast til og hægja á hækkunum á innfluttri verðbólgu.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,4% í maí samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar úr 9,9% í 9,5% í maí. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis hjaðnar einnig úr 8,7% í 8,4% undanfarna 12 mánuði. Mæling maímánaðar er í takti við okkar spá. Spár voru á bilinu 0,3 - 0,6% og spáðum við 0,4% hækkun VNV á milli mánaða. Að þessu sinni er enginn liður sem kom okkur sérstaklega á óvart.

Sveiflur á íbúðamarkaði

Reiknaða húsaleigan hækkar um 1,3% (0,25% áhrif á VNV) á milli mánaða í maí þar sem bæði markaðsverð íbúðarhúsnæðis og vaxtaþáttur hafa áhrif til hækkunar. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkar um 0,6% á milli mánaða og vaxtaþátturinn um 0,7%. Það hægir því á hækkun íbúðaverðs frá því í apríl. Við teljum að mikil hækkun íbúðaverðs í apríl hafi verið tímabundin og hækkunartakturinn muni hjaðna hratt á næstu mánuðum.

Það sem skýrir hækkun á markaðsverði íbúðarhúsnæðis að stærstum hluta eru verðhækkanir á landsbyggðinni. Húsnæði á landsbygginni hækkaði í verði um 1,7% á milli mánaða og hefur nú hækkað um tæplega 5% á undanförnum tveimur mánuðum. Minni verðhækkun er á höfuðborgarsvæðinu, sérbýli hækka um 0,6% á milli mánaða og fjölbýli um 0,2%. Það heldur áfram að draga úr árstakti hækkunar markaðsverðs íbúðarhúsnæðis sem mælist nú 10% á landinu öllu.

Matur hækkar en flugverð lækkar

Að húsnæðisliðnum undanskildum eru það matar- og drykkjarvörur sem vega þyngst til hækkunar í mánuðinum. Liðurinn hækkaði í verði um 0,8% (0,12% áhrif á VNV) þar sem verðhækkanir á brauði, kjöti og ávöxtum vógu hvað þyngst. Þetta er svipuð hækkun og síðustu tvo mánuði ef verðhækkanir á mjólkurvörum í síðasta mánuði eru teknar út fyrir sviga. Við gerum ráð fyrir að það muni hægja á hækkunum á matvörum og öðrum innfluttum vörum á allra næstu mánuðum í takti við hægari verðhækkun erlendis og lækkun á tilteknum hráefnum til matvælaframleiðslu undanfarna mánuði.

Aðrir helstu liðir sem hækka á milli mánaða í maí eru húsgögn og heimilisbúnaður sem hækka um 1,1% (0,07% áhrif á VNV), hótel og veitingastaðir um 0,6% (0,03% áhrif á VNV) ásamt annarri vöru og þjónustu sem hækkar um 0,7% (0,05% áhrif á VNV).

Ferðir og flutningar er eini liðurinn sem lækkar í verði á milli mánaða. Liðurinn í heild lækkar um 1,3% (-0,20% áhrif á VNV) þar sem allir undirliðir lækka. Bílar lækka  í verði um 0,4% (-0,02), eldsneyti  um 1,8% (-0,06) auk flugfargjalda sem lækka um 6,1% (-0,14% áhrif á VNV) þar sem um árstíðarbundna lækkun er að ræða eftir hækkanir síðustu tvo mánuði.

Verðbólgan á næstunni

Þessar verðbólgutölur eru eins og fyrr segir í takti við okkar spá. Verðbólguspá okkar helst því óbreytt frá því sem hún var. Við spáum því að verðbólga hafi náð toppi í febrúar og muni hjaðna næstu mánuði. Við spáum 0,6% hækkun í júní, 0,3% í júlí og 0,3% í ágúst. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 7,8% í ágústmánuði. Við gerum ráð fyrir því að verðbólga verði að jafnaði 8,7% á árinu.

Auðvitað er óvissan talsverð og margt sem þarf að ganga upp til að verðbólga hjaðni hratt. Það helsta er að íbúðamarkaður þarf að vera rólegur og innflutt verðbólga að hjaðna. Líkur eru meiri en minni að þetta tvennt gangi eftir, það er útlit fyrir rólegri íbúðamarkað næsta kastið og einnig er verðbólga í okkar helstu viðskiptalöndum að hjaðna og sums staðar frekar hratt.

Þó verðbólgan gæti hjaðnað hratt á næstu mánuðum er langur og strangur vegur framundan og langt í að verðbólga verði við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Við gerum ekki ráð fyrir að það gangi eftir á spátímanum. Í langtímaspá okkar gerum við ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 5,3% árið 2024 og 3,7% árið 2025.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband