Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga hjaðnar í 4,4% líkt og við væntum

Hækkun á íbúðaverði skýrir stærstan hluta hækkunar neysluverðs í maí. Verðbólga er farin að hjaðna og muntaka að hjaðna enn frekar eftir því sem líður á árið. Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði við 2,5% markmið Seðlabankans um mitt næsta ár.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,4% í maí skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 4,4% en var 4,6% í apríl. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 4% undanfarna 12 mánuði. Íbúðaverðshækkanir eru því farnar að hafa meiri áhrif til hækkunar á vísitölunni undanfarið. Mæling maímánaðar er samkvæmt okkar spá, sem hljóðaði 0,4% hækkun VNV milli mánaða.

Hækkandi íbúðaverð vegur þyngst í maí

Talsverð eftirspurnarspenna ríkir nú á íbúðamarkaði og hefur hækkun íbúðaverðs veruleg áhrif til hækkunar VNV í maí. Alls skýrir reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs, ríflega 2/3 (0,25%) af hækkun VNV milli mánaða.

Milli mánaða er hækkunin mest á íbúðum í sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (2,3%) en íbúðir í fjölbýli hækka um 1,8% og íbúðir á landsbyggðinni um 1,3%. Á heildina litið hækkar markaðsverð íbúðarhúsnæðis um 1,7% milli mánaða. Alls hefur markaðsverð íbúðarhúsnæði hækkað um nærri 6,4% frá áramótum samkvæmt mælingu Hagstofunnar sem byggir á 3ja mánaða hlaupandi meðaltali verðs úr þinglýstum samningum.

Árstaktur hækkunar íbúðaverðs er nú 12,7% samkvæmt gögnum Hagstofunnar og hefur ekki verið hraðari í rúm 3 ár. Verulega hefur aukið í hækkunartakt íbúða í sérbýli á höfuðborgarsvæðinu og mælist hann nú tæplega 20% undanfarna 12 mánuði. Íbúðir í fjölbýlum á höfuðborgarsvæði hafa hækkað um ríflega 12% á sama tíma og íbúðaverð á landsbyggðinni um rúm 8%.

Í nýútkominni þjóðhagsspá okkar er farið yfir þróunina á íbúðamarkaði og spáð í framhaldið. Teljum við útlit fyrir talsverða hækkun íbúðaverðs næstu fjórðunga en að í kjölfarið hægi á hækkunum samhliða hækkandi vöxtum íbúðalána og meira framboði á nýjum íbúðum.

Aðrir liðir sem höfðu áhrif á vísitöluna

Að húsnæðisliðnum undanskildum er það samansafn af öðrum liðum sem hafa áhrif til hækkunar á vísitölunni í maí. Þar vega liðirnir tómstundir og menning ásamt öðrum vörum og þjónustu þyngst. Tómstundir og menning hækkaði um 0,51% (0,05% áhrif á VNV) og aðrar vörur og þjónusta hækkaði um 0,67% (0,05% áhrif á VNV) þar sem undirliðurinn tryggingar skýrir þá hækkun að mestu. Þá hækkaði áfengi á milli mánaða (0,03% á VNV) sem og ferðir og flutningar (0,05% á VNV).

Einnig voru nokkrir liðir sem lækkuðu á milli mánaða og útlit er fyrir að gengisstyrking krónu sé eitthvað farin að hafa áhrif á mælinguna. Húsgögn og heimilisbúnaður lækkaði í verði um 0,36% milli mánaða (-0,02% áhrif á VNV) og einnig lækkaði verð á matvörum (-0,04% áhrif á VNV) þar sem ávextir höfðu mest áhrif til lækkunar. Það mældist þó ekki lækkun í liðnum matur og drykkjarvörur í heild þar sem drykkjarvörur hækkuðu á móti. Þá lækkaði liðurinn póstur og sími (-0,03% áhrif á VNV) þar sem lækkun á símaþjónustu vó þyngst.

Verðbólguhorfur góðar

Við teljum að toppi verðbólgunnar hafi verið náð í apríl og verðbólga haldi áfram að hjaðna hægt og rólega samfara styrkingu krónunnar. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,3% hækkun VNV í júní, 0,1% í júlí og 0,4% hækkun í ágúst. Gangi spáin eftir mun verðbólgan mælast 4,2% í ágúst. Verðbólga mun í kjölfarið verða við 2,5% markmið Seðlabankans um mitt næsta ár, gangi spá okkar eftir.

Helstu forsendur þess að spá okkar gangi eftir er styrking krónunnar á komandi fjórðungum, en við gerum ráð fyrir að krónan taki að styrkjast þegar ferðamenn taka að streyma til landsins á nýjan leik.

Á móti gæti vegið til aukinnar og þrálátari verðbólgu ef íbúðaverðs- og launahækkanir yrðu umtalsverðar. Þess má enn fremur geta að verðbreytingar erlendis og hækkandi flutningskostnaður vegna áhrifa faraldursins geta einnig haft meiri áhrif til verðhækkana hérlendis en við gerum ráð fyrir.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband