Verðbólga hjaðnar hraðar en vænst var

Sáralítil hækkun íbúðaverðs og myndarleg lækkun flugfargjalda skýra að stórum hluta minnstu mánaðarhækkun vísitölu neysluverðs í tæp tvö ár. Skammtíma verðbólguhorfur hafa batnað nokkuð þótt enn séu horfur á talsverðri verðbólgu næstu misserin.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði einungis um 0,1% í september skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Vísitalan hefur ekki hækkað svo hægt síðan í janúar 2021. Ársverðbólga hjaðnar í 9,3% en hún var 9,7% í ágúst. Verðbólga m.v. VNV án húsnæðis mælist 7,0% undanfarna 12 mánuði.

Mæling septembermánaðar er undir öllum birtum spám. Verðbólguspár voru á bilinu 0,2-0,4 hækkun á milli mánaða. Við spáðum 0,2% hækkun VNV á milli mánaða í uppfærðri spá okkar. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu er að flugfargjöld eru að lækka meira en við gerðum ráð fyrir.

Íbúðamarkaður kólnar hratt

Í mælingu Hagstofu hækkar húsnæðisliðurinn um 0,2% milli mánaða (0,06% áhrif á VNV). Mestu munar um greidda húsaleigu sem hækkar um 0,7% (0,03% áhrif á VNV). Reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar íbúðaverð að mestu, hækkar einungis um 0,05% (0,01% áhrif á VNV) en hún hefur ekki hækkað svo hægt síðan í nóvember 2020 þegar hún lækkaði lítillega.

Markaðsverð íbúðarhúsnæðis stóð í stað á milli mánaða samkvæmt gögnum Hagstofu. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði á milli mánaða um 1,1% en verð á fjölbýli stóð í stað. Húsnæði á landsbyggðinni lækkaði í verði um 0,9% á milli mánaða.

Loksins er tekið að draga úr árshækkun íbúðaverðs. Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 22,6% en 12 mánaða takturinn var 25% í ágúst. Húsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað hraðast á tímabilinu eða um 23,6%. Þar á eftir koma fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (22,9%) og lestina reka sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (20,7%) á sama tímabili.

Íbúðamarkaður er að kólna og það nokkuð hratt. Þessi mæling Hagstofu rímar á heildina litið ágætlega við gögn um vísitölu íbúðaverðs sem birt voru í síðustu viku, þó misræmi sé t.d. í verðtaktinum á sérbýli . Þessar mælingar byggja báðar á þriggja mánaða meðaltali og má ætla út frá því að ágústmánuður hafi verið mjög rólegur á íbúðamarkaði.

Útsölulok en lækkun á flugfargjöldum

Eftir sumarútsölur í júlí eru útsölulok jafnan í ágúst sem og september. Föt og skór hækkuðu í verði um 4,6% (0,15% áhrif á VNV) ásamt húsgögnum og heimilisbúnaði sem hækkaði um 2,2% (0,14% áhrif á VNV). Einnig hækkaði verð á matar- og drykkjarvörum um 0,3% (0,05% áhrif á VNV) á milli mánaða sem er minni hækkun en við höfðum gert ráð fyrir. Verðhækkun á mjólkurvörum skýrir alla þá hækkun en verðlagsnefnd búvara tilkynni um hækkun á verði til bænda í september sem alla jafna skilar sér nánast beint í vöruverðið. Lítil hækkun mælist í öðrum matvörum sem eru að stórum hluta innfluttar og hafa hækkað mikið að undanförnu. Það hlýtur að teljast ansi jákvætt.

Aðrir helstu liðir sem hækkuðu á milli mánaða eru tómstundir og menning um 0,8% (0,07% áhrif á VNV) og aðrar vörur og þjónusta sem hækkaði  um 0,9% (0,07% áhrif á VNV).

Það sem helst vó á móti þessum hækkunum er liðurinn ferðir og flutningar. Liðurinn lækkaði um 2,8% (-0,44% áhrif á VNV) þar sem eldsneytisverð lækkaði um 2% (-0,08% áhrif á VNV) og flutningar í lofti um 17% (-0,43% áhrif á VNV). Það er ánægjulegt að sjá flugverð lækka svo mikið á milli mánaða en slík lækkun hefur ekki sést síðan í september 2018. Flugverð á það til að lækka í september eftir hækkun yfir sumarmánuðina. Verðið hækkaði um 35% í júlí og hefur sú hækkun því gengið að einhverju leyti tilbaka en ætla má að það sé bæði vegna árstíðarbundnar lækkunar sem og lægra eldsneytisverðs.

Bjartar horfur en þó langt í land

Verðbólgan er vissulega að þokast í rétta átt en það er langur vegur framundan og talsvert langt í að verðbólga verði við 2,5% markmið Seðlabankans. Útlit er fyrir rólegri íbúðamarkað og minni innflutta verðbólgu á næstu misserum sem mun leiða til þess að verðbólga mun hjaðna allhratt á næstunni.

Við spáum 0,2% hækkun VNV í október, 0,1% hækkun í nóvember og 0,4% hækkun í desember. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 8,6% í desember. Þetta er örlítið hraðari hjöðnun verðbólgu en við gerðum ráð fyrir áður.

Langtímaspá okkar hljóðar upp á 8,1% verðbólgu að jafnaði á þessu ári, 6,2% á næsta ári og 3,9% árið 2024. Helstu forsendur í þeirri spá er að íbúðamarkaður sé í raun að kólna hratt og að innflutt verðbólga verði minni á næstunni auk þess sem styrking krónu mun vega nokkuð á móti innfluttu verðbólgunni. Einn stærsti óvissuþátturinn eru kjarasamningarnir sem losna nú í vetur en á vinnumarkaði ríkir talsverð óvissa og líkur á að kjaraviðræður verði erfiðar í vetur.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband