Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga hjaðnar hægt og rólega

Enn á ný skýrir hækkun á íbúðaverði drjúgan hluta hækkunar neysluverðs í júní. Verðbólga mælist nú 4,3% og er tekin að hjaðna þó hægt fari. Við teljum að verðbólga muni taka að hjaðna enn frekar eftir því sem líður á árið og gerum við ráð fyrir að hún verði við 2,5% markmið Seðlabankans á þriðja fjórðungi næsta árs.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,26% í júní skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 4,3% en var 4,4% í maí. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 3,6% undanfarna 12 mánuði. Íbúðaverðshækkanir eru að hafa talsverð áhrif til hækkunar á vísitölunni undanfarið. Mæling júnímánaðar er í takti við okkar spá, sem hljóðaði upp á 0,3% hækkun VNV milli mánaða.

Íbúðaverð vegur þyngst til hækkunar

Líkt og undanfarna mánuði hefur hækkun á íbúðaverði veruleg áhrif á júnímælingu VNV. Reiknuð húsaleiga, sem byggir að stærstum hluta á þróun íbúðaverðs, hækkaði um 0,7% milli mánaða (0,12% í VNV). Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 0,85% milli mælinga Hagstofunnar, en hún styðst við 3 mánaða meðaltal með mánaðartöf við útreikning á þessum lið. Hækkunin milli mánaða hefur ekki verið minni frá febrúar síðastliðnum og var mánaðartakturinn svipaður hvort sem litið er til höfuðborgarsvæðis eða landsbyggðar.

Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu hækkað um 12,6% á þennan mælikvarða. 12 mánaða takturinn er nánast óbreyttur frá síðustu verðbólgumælingu Hagstofunnar en fram að því hafði hann aukist hratt það sem af var ári. Mest er hækkunin á íbúðum í sérbýli á höfuðborgarsvæði, eða ríflega 19%. Íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæði hafa hækkað um ríflega 12% á sama tíma og íbúðaverð á landsbyggðinni hefur hækkað um rúm 8%.

 

Flugfargjöld hækka í verði

Að húsnæðisliðnum undanskildum hafði liðurinn ferðir og flutningar mest áhrif til hækkunar vísitölunnar í júní. Liðurinn hækkaði um 1,1% (0,14% áhrif á VNV) þar sem rekstur ökutækja hækkaði um 1,0% (0,06% áhrif á VNV) og flutningar í lofti um 4,9% (0,07% áhrif á VNV). Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 5,4% í verði milli mánaða og frá því í mars hefur sá liður hækkað um 10%. Virðist sem líf sé farið að glæðast á flugmarkaðnum að nýju.

Aðrir liðir sem vógu til hækkunar að húsnæðis- og flugliðnum undanskildum voru hótel og veitingastaðir (0,05% á VNV),  tómstundir og menning (0,03% á VNV) ásamt öðrum vörum og þjónustu (0,02% á VNV).

Á móti framangreindum hækkunarliðum voru nokkrir liðir sem vógu til lækkunar VNV í mánuðinum. Þar vó þyngst húsgögn og heimilisbúnaður sem lækkaði um 1,0% (-0,07% áhrif á VNV) og vegna útsöluáhrifa má ætla að verð lækki enn frekar í þessum lið í júlímánuði. Einnig lækkaði liðurinn póstur og sími um 2,4% (-0,04% á VNV) ásamt matar- og drykkjarvörum sem lækkuðu um 0,3% (-0,04% áhrif á VNV) en í þeim lið hafði verð á grænmeti og kartöflum mest áhrif til lækkunar (-0,04% á VNV).

Samsetning verðbólgunnar

Það skal engan undra að íbúðamarkaðurinn skýrir stóran hluta verðbólgunnar þessa dagana en er hún þó ekki eingöngu bundin við íbúðaverðshækkanir. Af 4,3% verðbólgu júnímánaðar skýrir íbúðaverð 1,3% af verðbólgunni, innfluttar vörur 1,3%, þjónusta 1,1% og innlendar vörur um 0,5%.  Íbúðamarkaðurinn skýrir því um rúm 30% af verðbólgunni þessi dægrin. 

Horfur fyrir næstu mánuði

Enn hefur húsnæðisverð mest áhrif á vísitöluna þessa dagana. Við teljum að verðbólga  verði lítið breytt fram á haustið en muni í kjölfarið taka að hjaðna fram á mitt næsta ár. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir óbreyttri vísitölu í júlí þar sem útsöluáhrif vega upp á móti hækkunum á íbúðaverði. Þá spáum við 0,5% hækkun VNV í ágúst og aftur í september. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 4,3% í september. Í kjölfarið teljum við að verðbólga taki að hjaðna jafnt og þétt og verði við markmið í ágúst á næsta ári. Næstu tvö ár eru svo horfur á að verðbólga verði í grennd við verðbólgumarkmiðið.

 

Helsta forsenda þess að spá okkar gangi eftir er styrking krónunnar á komandi fjórðungum, en við gerum ráð að krónan styrkist frekar þegar ferðamenn streyma til landsins í auknum mæli. Á móti gæti vegið til aukinnar og þrálátari verðbólgu ef íbúðaverðs- og launahækkanir yrðu umtalsverðar.

Einnig má nefna að við höfum nokkrar áhyggjur af miklum verðhækkunum erlendis frá sem og hækkandi flutningskostnaði vegna áhrifa faraldursins og eftirkasta hans. Þetta gæti leitt til þess að verð á innfluttum vörum hækki meira en við gerum hér ráð fyrir.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband