Verðbólga hjaðnar þvert á spár

Ársverðbólga hjaðnar niður fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í ágúst. Verðbólguhorfur næstu mánuði hafa skánað en samt sem áður er útlit fyrir aukningu verðbólgunnar í september. Við gerum svo ráð fyrir að ársverðbólga verði á svipuðum slóðum næstu mánuði á eftir.


Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,15% í ágúst samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar úr 4,0% í 3,8%. Verðbólga mælist því enn á ný undir 4% vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans en verðbólgan hefur undanfarna mánuði flökt í kring um þau vikmörk. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis hjaðnaði einnig á milli mánaða og mælist ársverðbólga án húsnæðis nú 2,8%. Óvanalegt er að vísitala neysluverðs lækki á milli mánaða í ágúst, en það gerðist síðast árið 2012.

Mæling ágústmánaðar er á skjön við allar birtar spár, allir greiningaraðilar spáðu hækkun VNV á bilinu 0,1% til 0,2%. Helsti munur á spá okkar og mælingu Hagstofunnar er flugverð sem lækkaði meira en við væntum og einnig höfðu útsölulok á fatnaði og skóm minni áhrif en við spáðum.

Ferðir og flutningar helsta ástæða lækkunar

Eftir árvissa hækkun á flugverði síðustu tvo mánuði lækkaði flugverð í ágúst eins og venjan er. Flugverðið lækkaði þó meira en við spáðum eða um 11,8% (-0,36% áhrif á VNV) en hækkunin í sumar var ansi rífleg enda eftirspurn eftir flugferðum mikil. Við spáðum að flugverð myndi lækka meira í september en drögum úr því eftir þessar tölur og gerum nú ráð fyrir minni lækkun flugverðs í september en áður. Ásamt flugferðinu hélt eldsneyti áfram að lækka og í ágúst lækkaði það um 0,8% (-0,03% áhrif á VNV) á milli mánaða. Liðurinn ferðir og flutningar eru því helsta ástæða lækkunar vísitölunnar í ágúst.

Aðrir helstu liðir hækkuðu á milli mánaða. Þar má helst nefna húsnæðisliðinn sem hækkaði um 0,42% (0,12% áhrif á VNV) á milli mánaða. Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga um 0,4% (0,09% áhrif á VNV) sem er í takti við okkar spá. Liðurinn húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. hækkaði í ágúst um 1,2% (0,06% áhrif á VNV) þar sem húsgögn og heimilisbúnaður hækkaði um 6,7% vegna útsöluloka en á móti lækkuðu raftæki í verði um 6,7%.

Verðhækkanir á matvöru virðast vera að fjara út. Annan mánuðinn í röð hækkar matvöruverð lítið eitt. Nú í ágústmánuði hækkaði verðið einungis um 0,06% (0,01% áhrif á VNV) á milli mánaða. Við búumst við að matvöruverð sigli lygnan sjó næstu mánuði. Er það bæði vegna þess að við teljum að áhrif launahækkana fyrr á árinu hafi að mestu komið fram auk þess sem styrking krónu er farin að segja til sín.

Húsnæði og þjónusta skýra stærstan hluta verðbólgunnar

Þróunina á samsetningu ársverðbólgunnar má sjá á myndinni hér að neðan. Af 3,8% verðbólgu í ágúst skýrir húsnæðisliðurinn enn stærstan hluta verðbólgunnar eða 1,6%. Dregið hefur úr framlagi liðarins undanfarið ár en í ágúst í fyrra mældist það 3,2%. Þjónusta skýrir næstmest af heildarverðbólgunni eða samtals um 1,1% og minnkar á milli mánaða. Innlendar vörur skýra 0,7% og innfluttar 0,3%.

Undirliggjandi verðbólga, sem peningastefnunefnd Seðlabankans horfir gjarnan til, lækkar aðeins á milli mánaða. Allar kjarnavísitölur lækka um 0,3-0,5%.

Bjartari horfur en þó verðbólga við vikmörk

Þessar nýbirtu verðbólgutölur fyrir ágústmánuð eru góðar fréttir. Niðurfelling háskólagjalda í nokkrum háskólum var sá einskiptisliður sem datt út úr mælingunni nú í ágúst. Það kom ekki að sök í þróun 12 mánaða veróbólgunnar þar sem aðrir liðir vógu þyngra til lækkunar, sem er ansi jákvætt fyrir verðbólguhorfur næsta kastið. Vegna þessa hefur útlitið næstu mánuði skánað samkvæmt bráðabirgðaspá okkar og líta þeir svona út:

  • September: 0,2% hækkun VNV (4,2% ársverðbólga) - Áframhaldandi útsölulok en lækkun flugverðs vegur á móti. Ýmsar gjaldskrárhækkanir. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir detta út úr ársmælingunni.
  • Október: 0,3% hækkun VNV (4,2% ársverðbólga) -  Árstíðarbundin áhrif fjara út. Flestir liðir leggjast á eitt og hækka smávegis. Ársverðbólga helst óbreytt á milli mánaða.
  • Nóvember: 0,2% hækkun VNV (4,3% ársverðbólga) - Flugfargjöld lækka sem vegur á móti hækkun á öðrum helstu liðum.

12 mánaða verðbólgutakturinn mun aukast í september en minna en við gerðum áður ráð fyrir þar sem mælingin í morgun þróaðist með hagfelldari hætti. Þar sem lækkun á flugverði var meiri en spáðum í ágúst gerum við ráð fyrir minni lækkun á flugverði í september en áður. Næstu mánuði á eftir mun ársverðbólga mælast rétt yfir 4% vikmörkin og eins og fyrr segir mun hún mælast 4,3% í nóvember samkvæmt spá okkar.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband