Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,15% í ágúst samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar úr 4,0% í 3,8%. Verðbólga mælist því enn á ný undir 4% vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans en verðbólgan hefur undanfarna mánuði flökt í kring um þau vikmörk. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis hjaðnaði einnig á milli mánaða og mælist ársverðbólga án húsnæðis nú 2,8%. Óvanalegt er að vísitala neysluverðs lækki á milli mánaða í ágúst, en það gerðist síðast árið 2012.
Mæling ágústmánaðar er á skjön við allar birtar spár, allir greiningaraðilar spáðu hækkun VNV á bilinu 0,1% til 0,2%. Helsti munur á spá okkar og mælingu Hagstofunnar er flugverð sem lækkaði meira en við væntum og einnig höfðu útsölulok á fatnaði og skóm minni áhrif en við spáðum.