Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga heldur þrálátari en vænst var

Hækkun á eldsneytisverði og íbúðaverði auk útsöluloka skýra stærstan hluta hækkunar neysluverðs í mars. Verðbólga hefur reynst þrálátari en vænst var þennan veturinn. Horfur eru þó á hraðri hjöðnun verðbólgu eftir því sem líður á árið og líklega verður hún við 2,5% markmið Seðlabankans um næstu áramót.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,49% í mars samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 4,3% en var 4,2% í febrúar. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 4,8% undanfarna 12 mánuði. Húsnæðisliðurinn hefur því áhrif til dempunar á verðbólgunni þessa dagana þrátt fyrir myndarlega hækkun íbúðaverðs undanfarið ár.

Mæling marsmánaðar er í hærri kantinum miðað við birtar spár. Við spáðum 0,4% hækkun VNV milli mánaða. Helstu undirliðir sem koma okkur á óvart er húsnæðisliðurinn sem hækkar talsvert milli mánaða, fyrst og fremst vegna mikillar hækkunar á reiknaðri húsaleigu. Við höfðum gert ráð fyrir að áhrif lækkandi vaxta myndu vega upp hækkun markaðsverðs í þeim lið. Á móti voru áhrif útsöluloka minni en við höfðum áætlað.

Íbúðaverð og eldsneytisverð vegur þungt til hækkunar

Húsnæðisliður VNV vó þyngst til hækkunar hennar í marsmánuði af helstu undirliðum. Í heild hækkaði liðurinn um 0,6% (0,18% áhrif í VNV). Þar munar langmestu um 1,3% hækkun á markaðsverði íbúðarhúsnæðis á milli mánaða. Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,9% milli mánaða (0,15% í VNV) en sá liður byggir á framangreindri mælingu á markaðsverði auk áhrifa af vöxtum á íbúðalánum. Vaxtaþátturinn vó þar af leiðandi til 0,4% lækkunar á reiknuðu húsaleigunni enda hafa vextir á íbúðalánum lækkað umtalsvert síðustu misserin.

Ekkert lát virðist vera á hækkunartakti íbúðaverðs á landinu. Hröðust er árshækkunin á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir (11,6%) en fjölbýli á höfuðborgasvæði hafa hækkað um 8,7% og íbúðaverð á landsbyggðinni um 5,7% á sama tíma. Alls mælist hækkun íbúðaverðs á landinu öllu nú 8,5% og má greina allstöðuga leitni til hraðari hækkunar í tölum Hagstofunnar allt frá haustdögum 2019. Hér hafa hagstæð kjör á íbúðalánum talsverð áhrif að okkar mati, en einnig takmarkað framboð á nýju íbúðarhúsnæði og traust fjárhagsstaða þorra heimila þrátt fyrir Kórónukreppu.

Á eftir húsnæðisliðnum vó eldsneytisverð hvað drýgst til hækkunar VNV í mars. Verð á bensíni og díselolíu hækkaði um 4,0% á milli mánaða og hefur mánaðarhækkunin ekki verið jafn mikil í sex ár. Alls hefur eldsneytisverð hér á landi hækkað um tæplega 11% frá nóvember síðastliðnum. Á sama tíma hefur heimsmarkaðsverð á hráolíu hins vegar hækkað um ríflega 50% svo skýringin á þessari hækkun er nærtæk og líklega eru áhrif hennar ekki komin fram að fullu þótt eldsneytisverð á heimsvísu hafi góðu heilli lækkað nokkuð að nýju undanfarnar vikur.

Áhrif útsöluloka til hækkunar VNV í mars voru talsverð þótt þau hafi reynst minni en við væntum. Virðist sem útsölurnar hafi verið grynnri í upphafi árs en oft áður. Föt og skór hækkuðu í verði um 2,4% (0,08% í VNV) á milli mánaða. Hins vegar lækkuðu húsgögn og heimilisbúnaður lítillega í verði og hefur útsölum í slíkum verslunum væntanlega lokið að mestu fyrir verðmælingu febrúarmánaðar.

Þótt eldsneyti og íbúðaverð leggi hvað drýgst til hækkunar verðlags á milli mánaða er myndin nokkuð önnur ef árstaktur verðbólgunnar er skoðaður. Rétt um helmingur þeirrar 4,3% verðbólgu sem nú mælist er vegna hækkunar á verði innfluttra vara annarra en eldsneytis. Hækkun á innlendum vörum skýrir u.þ.b. 16% verðbólgunnar, húsnæðisliðurinn tæp 14% og hækkun á verði þjónustu ríflega 18%. Eldsneytisverðið á svo tæplega 5% í heildarhækkun verðlags undanfarna 12 mánuði. Endurspeglar þessi skipting þá staðreynd að stærstur hluti verðbólgunnar á sér rót í gengislækkun krónu á öðrum og þriðja fjórðungi síðasta árs.

Ágætar verðbólguhorfur þegar frá líður

Þótt verðbólga hafi reynst þrálátari og verðbólgukúfurinn hærri í vetur en við væntum eru eftir sem áður horfur á að verðbólga hjaðni allhratt eftir því sem líður á árið. Áhrif veikingar krónu eru komin fram að langstærstum hluta og styrking hennar síðustu mánuði gæti farið að setja mark sitt á verðmælingar á næstunni. Hins vegar gæti eldsneytisverð áfram gert verðþróuninni nokkra skráveifu. Umtalsverður slaki víða í hagkerfinu og frekari styrking krónu, sem við teljum líklega á seinni helmingi ársins, mun hjálpa til við að halda aftur af verðlaginu þegar frá liður þótt hröð hækkun á innlendum kostnaði, sér í lagi launum, og þróttmikill íbúðamarkaður haldi áfram að þrýsta upp verðlagi hérlendis á komandi fjórðungum.

Við spáum 0,2% hækkun VNV í apríl, 0,2% í maí og 0,3% hækkun í júní. Gangi spáin eftir fer verðbólgan niður fyrir 4% þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í maí og verður komin niður í 3,6% um mitt ár. Í kjölfarið eigum við von á frekari hjöðnun verðbólgunnar. Væntanlega sígur hún niður að 2,5% markmiði Seðlabankans öðru hvoru megin við næstu áramót gangi spá okkar eftir. Verðbólguhorfur til meðallangs tíma eru því allgóðar þótt verðbólgudraugurinn hafi skotið ýmsum skelk í bringu undanfarið.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband