Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga heldur áfram að hjaðna

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,13% í nóvember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,7% en var 2,8% í október. Verðbólga hefur ekki mælst minni í rúmt ár.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,13% í nóvember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,7% en var 2,8% í október. Verðbólga hefur ekki mælst minni í rúmt ár. Miðað við VNV án húsnæðis mælist 2,4% verðbólga undanfarna 12 mánuði.

Mæling nóvembermánaðar er í samræmi við okkar spá. Við spáðum 0,1% hækkun VNV milli mánaða en spár hljóðuðu ýmist upp á 0,1% hækkun eða óbreytta VNV. Flestir undirliðir þróuðust í takti við spá okkar og fátt sem kemur okkur á óvart.

Aukið líf í íbúðamarkaði

Aukið líf virðist vera að færast í íbúðamarkaðinn á seinni hluta ársins ef marka má þróun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis eins og Hagstofan mælir það fyrir VNV. Milli mánaða hækkar markaðsverðið um 1,0% og er það annar mánuðurinn í röð þar sem hækkunin mælist prósenta eða meira milli mánaða. Hér þarf að hafa í huga að mæling Hagstofu byggir á 3ja mánaða hlaupandi meðalverði í kaupsamningum. Því liggja mánuðirnir ágúst-október til grundvallar nóvembergildi þessarar mælingar.

Íbúðamarkaðurinn utan höfuðborgarsvæðis virðist vera að sækja í sig veðrið ef horft er á 12 mánaða hækkunartakt. Á þann kvarða hefur fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um um 4,3%, sérbýli á höfuðborgarsvæði um 3,0% en verð utan höfuðborgarsvæðis hins vegar hækkað um 8,1%. Hefur bætt allverulega í 12 mánaða taktinn á landsbyggðinni undanfarna mánuði, en hann mældist 3,3% í september. Á landinu í heild nemur 12 mánaða hækkun íbúðaverðs 4,8% en var 3,1% fyrir þremur mánuðum síðan.

Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,7% í nóvember frá mánuðinum á undan. Sú undirvísitala byggir að stærstum hluta á þróun íbúðaverðs, en einnig hefur þróun lánskjara á íbúðalánum þar áhrif. Raunar er það svo að upp á síðkastið hefur síðarnefndi þátturinn togað taktinn í reiknuðu húsaleigunni talsvert niður. Reiknaða húsaleigan hefur þannig aðeins hækkað um 3,0% á meðan markaðsverð íbúðarhúsnæðis hefur hækkað um 4,8% undanfarna 12 mánuði. Miðað við hlutdeild reiknaðrar húsaleigu í VNV undanfarna 12 mánuði má því segja að verðbólga myndi mælast 0,4 prósentum hærri ef ekki kæmu til áhrif lækkandi vaxta á íbúðalánum á reiknuðu húsaleiguna. M.ö.o. myndi verðbólga þá mælast 3,1% í stað 2,7% nú í nóvember.

Árstíðarbundin lækkun flugfargjalda

Það helsta í mánuðinum sem vó til lækkunar eru flugfargjöld. Flutningar í lofti lækkuðu í verði um 9,33% (-0,16% í VNV) og þar af lækkuðu flugfargjöld til útlanda um 11,2%. Um árstíðarbundna lækkun á flugfargjöldum er að ræða en þau eiga svo til að hækka talsvert á nýjan leik í desember.

Að húsnæðisliðnum frátöldum vó liðurinn húsgögn og heimilisbúnaður þyngst til hækkunar í mælingu nóvembermánaðar. Liðurinn hækkaði um 1,38% (0,07% í VNV). Aðrir liðir sem hækkuðu á milli mánaða eru m.a. matar og drykkjarvörur (0,05% í VNV) og aðrar vörur og þjónusta (0,04% í VNV).

Verðbólga undir markmiði í desember?

Verðbólguhorfur eru allgóðar næsta kastið og útlit fyrir að í næsta mánuði verði verðbólga komin niður fyrir 2,5% markmið Seðlabankans. Við spáum 0,5% hækkun í desember, 0,4% lækkun í janúar og  og 0,5% hækkun VNV í febrúar. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,4% í árslok og 2,8% í febrúar.

Í kjölfarið teljum við að verðbólga verði að jafnaði 2,5% árið 2020 og 2,8% árið 2021. Stærstu óvissuþættir í spá okkar er hugsanleg veiking krónu og launakröfur í kjarasamningum sem enn á eftir að ljúka. Á móti gæti þróun íbúðaverðs leitt til minni verðbólgu en hér er spáð.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband