Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga heldur áfram að aukast

Verðbólga mælist nú 7,2% og hefur ekki mælst meiri í 12 ár. Hækkandi húsnæðisverð og aukin innflutt verðbólga skýra stærstan hluta verðbólgunnar um þessar mundir. Ekki er útlit fyrir að það dragi að ráði úr verðbólgunni fyrr en á næsta ári.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 1,25% í apríl skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga mælist nú 7,2% en var 6,7% í mars síðastliðnum. Verðbólga hefur ekki mælst meiri frá því í maí 2010. Verðbólga m.v. VNV án húsnæðis mælist 5,3% undanfarna 12 mánuði.

Mæling aprílmánaðar er yfir öllum birtum spám, en birtar spár voru á bilinu 0,65%-1,1% hækkun VNV milli mánaða. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu er reiknaða húsaleigan sem hækkaði mun meira en við væntum, auk flugfargjalda sem hækkuðu töluvert meira en við spáðum.

Ekkert lát á íbúðaverðshækkunum

Eins og fyrri daginn er það húsnæðisliðurinn sem vegur þungt í heildarhækkun VNV í apríl. Reiknaða húsaleigan skýrir þessa hækkun að stærstum hluta og hækkaði um 2,4% (0,45% áhrif á VNV). Auk þess hækkaði liðurinn viðhald og viðgerðir á húsnæði um 2,2% (0,2% áhrif á VNV) en miklar verðhækkanir hafa verið m.a. á innfluttu efni til viðhalds.

Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði alls um 2,7% á milli mánaða samkvæmt gögnum Hagstofu. Mánaðarhækkunin var mest á landsbyggðinni (3,4%) en minnst á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (2,4%). Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu í verði um 2,8% milli mánaða.

Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 19,1% sem er sama árshækkun og í síðasta mánuði. Árshækkun íbúðaverðs breyttist ekkert í apríl þrátt fyrir töluverðar hækkanir milli mánaða en ástæða þess er að íbúðaverð tók að hækka hratt á svipuðum tíma í fyrra. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hafa hækkað mest undanfarið ár (20,4%), þar á eftir fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (19,0%) en íbúðir á landsbyggðinni hafa hækkað um 18,4% á sama tímabili. Ekkert lát virðist vera á íbúðaverðshækkunum og ekki er útlit fyrir að það dragi neitt að ráði úr þeim fyrr en aukið framboð af nýjum íbúðum kemur inn á markað. Vonir standa til að það gerist þegar líða tekur á árið.

Flugfargjöld taka kipp

Að húsnæðisliðnum undanskildum var það hækkun á flugfargjöldum sem vó þyngst í aprílmánuði. Flutningar í lofti hækkuðu um 21,6% (0,39% áhrif á VNV) og þar munar mestu um flugfargjöld til útlanda sem hækkuðu um 22,9%. Þrátt fyrir að hafa ekki spáð slíkri hækkun í liðnum í aprílmánuði kemur þessi hækkun okkur lítið á óvart. Síðustu mánuði höfum við verið á spá hækkun í þessum lið og það hefur ekki raungerst fyrr en nú. Ástæða fyrir hækkuninni eru líklega tvíþætt, annars vegar er það vegna hækkunar á eldsneytisverði og hins vegar er það aukin eftirspurn eftir flugi. Eldsneytisverð hækkaði einnig um 1% (0,04% áhrif á VNV).

Verð á matar- og drykkjarvörum hækkaði um 1,35% á milli mánaða (0,20% áhrif á VNV). Þar munar mestu um verðhækkun á mjólkurvörum um 4,75% (0,13% áhrif á VNV). Það var viðbúið því Verðlagsnefnd búvara tilkynnti um samsvarandi hækkun á heildsöluverði slíkra vara þann 1. apríl síðstliðinn. Auk mjólkurvaranna hækkaði einnig verð á olíum og feitmeti (3,2%), grænmeti (2,4%) og ávöxtum (1,7%). Þá hækkaði verð á öðrum vörum og þjónustu um 1% á milli mánaða (0,07% áhrif á VNV).

Mikil verðbólga áfram í kortunum

Eins og sést á myndinni hér að neðan skýrir húsnæðisliður stærstan hluta af verðbólgunni en innflutt verðbólga hefur einnig færst talsvert í aukanna. Af 7,2% ársverðbólgu skýrir húsnæðisliðurinn um 3%, innfluttar vörur 1,6% , innlend þjónusta 1,7% og innlendar vörur tæplega 1%.

Verðbólga mælist nú meiri en hún hefur verið frá því í maí 2010. Húsnæðisliður og innfluttar vörur eru þessa dagana helstu hækkunarvaldar í vísitölu neysluverðs  og er ekki útlit fyrir að hækkunartaktur þessara liða muni hjaðna umtalsvert næsta kastið. Vegna þessa teljum við að það fari ekki að draga að ráði úr verðbólgunni fyrr en á næsta ári. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,8% hækkun VNV í maí, 0,6% hækkun í júní og 0,3% í júlí. Gangi sú spá eftir mælist verðbólga 8,2% í júlí.

Gríðarleg óvissa er um hversu langvinn verðhækkunin erlendis verður og í hvaða mæli styrking krónu mun vega á móti en við gerum ráð fyrir styrkingu krónu síðar á árinu þegar fleiri ferðamenn taka að streyma til landsins og afgangur verður á ný af utanríkisviðskiptum.

Mikilvægt er fyrir þróunina, og raunar ein helsta forsenda í langtímaspá okkar, að hægja taki á húsnæðisverðshækkunum þegar líða tekur á árið þar sem hægari taktur íbúðaverðs mun vega á móti aukinni innfluttri verðbólgu. Önnur mikilvæg forsenda í spá okkar er að kjarasamningar sem losna undir lok ársins verði fremur hóflegir. Spá okkar hljóðar upp á 7,2% verðbólgu á meðaltali árið 2022, 4,6% árið 2023 og 2,9% að jafnaði árið 2024.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband